94: Bitches Brew með Miles Davis

Ég átti einu sinni tvíkynhneigða kærustu sem sagðist lesa Bukowski til að komast í samband við sinn innri kvenhatara. Mér verður stundum hugsað til þessa. Og þeirrar tilfinningalegu þarfar – hvort sem hún er ásköpuð eða eðli málsins samkvæm – að bölva heilu kynunum, og þá helst þeim sem maður laðast að kynferðislega, þeim kynjaverum sem hafa svikið mann í ástum, náð óeðlilegu taki á manni sem þær hafa svo fært sér í nyt, og maður í einhverju móki bara lætur allt yfir sig ganga þar til maður annað hvort springur og gengur út eða lögreglan blandar sér í málið. Eitthvað þannig. Að alhæfa í þrungnum tilfinningum. Þetta sem fékk mann ungan til að þramma um með Eminem í eyrunum og blóta öllum þessum helvítis hórum. Sem höfðu þá ýmist unnið sér til saka að „fara illa með mann“ eða einfaldlega að elska mann ekki. „Heaven has no rage like love to hatred turned, Nor hell a fury like a woman scorned“ og karlarnir eru víst ekkert skárri, einsog skáldið orti.

Bitches Brew með Miles Davis er svona plata. Nornaseiður. Tíkarbrugg. Miles Davis var í mjög góðu sambandi við sinn innri kvenhatara – alltof góðu (hann barði konuna sína). Og hann spilaði alveg rosalega tilfinningaþrungna tónlist. Þetta er miklu myrkari plata en Kind of Blue – sem ég hef hlustað meira á til þessa – ágengari, voðalegri. Mér liggur við að segja að manni sé sýnt inn í sálina á þjáðum ofbeldismanni. Og manni er ekki bara sýnt hvernig sá maður er maður einsog við hin heldur er manni sýnt hvernig maður sjálfur er líka maður einsog hann – hvernig sömu tilfinningar bærast um í hjarta manns, sem getur verið kolbikasvart, þótt manni auðnist vonandi ævinlega að vinna betur úr því en Miles. Og kannski Bitches Brew hjálpi til.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Bitches Brew með Miles Davis hlustaði Eiríkur á af og til frá því að þetta prójekt byrjaði – sem er svindl – við matseld, hlaup, akstur og annað slíkt.