Gestir úr austri í Anarkíu

Það er okkur Anarkíufélögum mikill heiður að kynna myndlistarmennina Serhiy Savchenko frá Úkraínu og Alexandr Zabavchik frá Hvíta-Rússlandi fyrir íslenskum listunnendum, en næstkomandi laugardag, 9. ágúst, opna sýningar þeirra í listasölum Anarkíu.

Sýning Serhiy Savchenko ber titilinn The erotic in figure and landscape, eða hið erotíska í fígúru og landslagi. Serhiy, sem er frá Úkraínu, vinnur jöfnum höndum með fígúratíft málverk og landslag. Það sem einkennir hann hvað helst er hröð pensilskrift, tilraunakennd efnistök og ekki síst sterkir litir sem sem hann notar til að mynda spennu milli forgrunns og bakgrunns. Oft notast hann við lifand módel í fígúratífu verkunum sem gefa til kynna erótík, fígúran er á mörkum þess að leysast upp í hráum efnistökum þar sem tilfinning málarans gagnvart viðfangsefninu verður yfirsterkara. Landslagsmyndir Serhiy einkennast einnig af lífrænni erótík sem sem minnir oft á annan meistara, Caim Soutine. Landslagið sem unnið er útfrá er útgangspunktur fyrir þá óbeisluðu orku sem myndast í glímu málarans við sjálfan sig og frelsisþrá hans, en frelsi er Serhiy mjög hugleikið og hann lítur svo á að það sé helst að finna í gegnum listsköpun.

Sýning Hvítrússans Alexandrs Zabavchik, “From pragmatism of Kaizimir Malewich to godless case” er af tölvert ólíkum toga þótt þeir sameinist í frelsisleit gegnum myndlistariðkun. það er stóísk ró yfir verkum Alexandr (Sasha). Hann vinnur mikið útfrá hvítum lit, jöfn og yfirveguð vinnubrögð einkenna verkin sem sýna engu að síður næmi málarans til að skynja fegurð hins óvænta Eins og titill sýningarinnar ber með sér vísar Sasha í pragmatíska nálgun Malevitch um endanlega lausn á fyribærinu málverk með raunhyggju að leiðarljósi til þess að sjá heiminn og listræna sköpun sem gnægtarbrunn möguleika guðlausrar veraldar.

Báðir eru þeir Serhiy og Sasha vel þekktir í heimalöndum sínum og hafa sýnt verk sín víða um lönd.

Eins og fyrr segir opna sýningar þeirra kl. 15 laugardaginn 9. ágúst í Anarkía listasal í Hamraborg 3 í Kópavogi og standa til 31. ágúst.