Nú hljóma ég áreiðanlega dálítið einsog Sindri Eldon en þessi plata er án minnsta hugsanlega vafa ofhlaðnasta flúrrúnk sem ég hef á ævinni hlustað á. Ég er hreinlega miður mín eftir hlustunina. The Wall með Pink Floyd er „verk“ – einhvers konar rokkópera á kókaínstílum – sem veit ekki hvort það vill heldur vera óður til sjálfsvorkunnarinnar, vanþroskans eða stærilætisins. Það er auðvitað ekki þar með sagt að innan um barnalega textana og melódramatískar útsetningarnar sé ekki að finna ýmislegt ágætt – það mætti jafnvel raða saman ágætis plötu úr því sem þó er gott hérna. En þetta er bara alltof, alltof mikið, hnallþórur ofan í hnallþórur þar til manni verður flökurt og rjóminn sprautast út úr manni aftur galli blandinn einsog úr brunaslöngu.
Prófið bara sjálf að grípa niður í þennan óskapnað – hvar sem er, platan er þarna öllsömul, og það eru ekki einar einustu tíu sekúndur nokkurs staðar sem ekki eru langt yfir markið.
Þegar það er komið gott grúv (einsog í „Another Brick in the Wall“) er ekki bara fullkominn óþarfi að troða ofan í það meira gítarskrauti, það eyðileggur það sem þó var ágætt. Meira er ekki alltaf betra, en kannski vissi það enginn árið 1979. Og það er ekki samasemmerki milli þess að skrúfa upp í reverbinu (eða echoinu) og að koma ríkulegu tilfinningalífi sínu betur til skila. Það virkar ekki þannig. Og þegar manni finnst að maður geti ekki veitt einhverju lagi alveg nógu mikla og epíska þyngd þá er ekki endilega víst að besta ráðið sé að troða inn í það fleiri röddum, fleiri hljóðfærum og endurtaka melódramatískar línur fullar af táningslegri angist á borð við „is there anybody out there?“
Undir öllu flúrinu á singulnum Another brick in the World er nefnilega fínasta Eye of the Tiger sem vill brjótast út.
En attitúdið í lögunum, textunum og útsetningunum er alltaf óþolandi – mér finnst einsog þeir geri ekki annað en að segja mér hvað þeir séu djúpir og innilegir og í miklum tengslum við tilfinningar sínar. Maður fær það óljóst á tilfinninguna að þeir hafi einsett sér að sýna „unga fólkinu“ að afstaða þeirra til progrokksins og hippismans – sú rúnkhöfnun sem fólst í upprisu pönksins – hafi verið eina rétta skrefið. Sem er merkileg yfirlýsing á plötu sem fjallar í og með um uppreisn æskunnar og hvað hún sé töff. Það er líka merkilegt til þess að hugsa að beri maður saman The Wall við t.d. London Calling með The Clash, sem kom út sama ár, þá sé The Clash hljómsveitin sem skilji hugtakið „fínlegt“ og beiti því af kostgæfni. Það er eitthvað klámfengið við The Wall – allt þetta umfang – sem ég kannast annars best við í óþoli mínu fyrir U2, og kannski þeir deili líka messíasarkomplexunum með Bono.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. The Wall hlustaði hann á á skokki í kringum smábæinn Jonsered skammt austur af Gautaborg.