76: Imagine með John Lennon

Imagine er ekki á Spotify. Ég get ekki sagt að það hafi gert mig mjög leiðan. Þetta er ekki alveg sá Lennon sem ég hef í uppáhaldi á tyllidögum. Ekki það ég sé í kórnum sem telur Yoko Ono hafa skemmt hann – nema að svo miklu leyti sem þau skemmdu hvort annað. Grapefruit Yoko Ono finnst mér a.m.k. jafn gott og nokkuð sem Lennon gerði.

En ég þekki auðvitað lagið alltof vel, man lagið alltof vel. Það var á söngvablaði á vinabæjarmótinu þar sem ég kynntist konunni minni (árið 1993 í Tönsberg). Með hljómum. C og F minnir mig, aðallega. Ég spilaði það áreiðanlega nokkrum sinnum. Hún er sterkari minningin um misheppnaða „Hey Jude“ fjöldasönginn sem við hófum vinabæjarmótið á. Það er það fyrsta sem við konan mín gerðum í sameiningu. Okkur misheppnaðist að syngja „Hey Jude“ með sirka 40 jafnöldrum okkar af norðurlöndunum.

Textinn við Imagine er einhvers konar óþolandi gufumarxismi – sem er eini marxisminn sem ég (marxistinn) hef álíka litla þolinmæði fyrir og dólgamarxisma. Svona „guð hvað allt ætti að vera frábært“ marxismi. Svona „hugsið ykkur bara ef það væri enginn bókaskattur“ aktivismi. „Hugsið ykkur ef flóttamenn gætu bara haft það gott“. „En hvað allt væri fínt ef allir fengju bara nóg að borða.“ „Guð hvað það væri mikill léttir ef við hættum að framleiða og nota stríðstól.“ Það er ekki að ég sé ósammála. Það er meira að mér finnist léttúðug andvörpin léleg baráttutaktík, hálffullnægjandi vellíðanin sem þeim fylgir kannski dálítið letjandi. „Imagine“ er eins konar baráttusöngur þeirra sem leysa þjóðfélagslega vandamál með því að setja þau í nefnd og krossleggja fingurna. En gufumarxistarnir eru þó ekki að senda fólk í pólitíska endurmenntun – og þeir eru umtalsvert umburðarlyndari svona heilt yfir en frændur þeirra dólgamarxistarnir. Hvorki of eða van, segi ég, það er best. Svo fremi það sé kommúnismi.

En John Lennon á afmæli í dag. Hefði orðið 74 ára. Jón Gnarr tók við Lennonverðlaunum úr hendi Yoko Ono og gaf Kvennaathvarfinu peningana. Þá þurfum við ekki að hugsa okkur hvað það hefði verið gott lengur.

ps. Síðast skrifaði ég um The Clash með The Clash og hélt hún væri númer 81 – hún var númer 77. Ég hef ruglast í talningunni og hoppað yfir nokkrar plötur. Ég sný mér að þeim sem vantar inn í fljótlega.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Imagine með John Lennon hlustaði hann ekki á, enda er hún ekki á Spotify, og þess utan hefur ritstjórinn verið lasinn og lítið komist út að hlaupa.