Dagur rennur upp, múrinn
brestur, skip svamla
á himni, nú máttu fossa,
breiða úr þér, blása kröftuglega, ó
syngdu söng lofts, söng elds,
svo úr þér flæði gleði, birta,
ekkert beisli, ekkert en,
syngdu hástöfum, já syngdu
um von, von.
Ég veit ekki hvar þú ert, þú rauða láglendi
þar sem lófi himinsins líður yfir þá
sem jafnvel sofandi standa í ljósum logum.
Ég veit ekkert um augu þín,
augu sem marrar í að nóttu
sem bjóða og breytast
með steini kletti tré
eins og net sem líkami minn ótt
og hratt leggst í.
Ég veit ekkert um brum,
ef ég bara vissi eitthvað um brum
hvernig það sprettur, hvers konar
roði ólgar á gagnaugum þess
sem tínir blint knippi
og festir í barm sér.
Því hvað um þessar leynilegu hringrásir
þar sem einn fylgir öðrum, hvað um
brautir himintunglanna,
orð sem jafnvel steinarnir
skrækja er þeir opnast.
Hvað um leyndarmál sem ég vil eigna mér, eiga eins og
ávöxt, hrikalegt suð
úr rauðglóandi brandi í brjóstinu,
hvað um það sem ég hringsóla um
þótt ég heyri ekki í því, kannski það brenni
kæfðum loga, kannski einhver hafi kæft það,
kannski lifi ég sjálfur kæfður
eins og stjörnur sem hreiðra um sig
og af sjálfsdáðum hætta að titra
og falla bara
Haltu mér fast bara rétt aðeins
Meðan öldurnar brotna á og mylja okkur.
Hönd þín upprætir langlundargeð sorgarinnar
Og teiknar ský sem minnir á okkur á himininn.
Haltu í mig eins og arm á stjörnu
Meðan himinninn er bitinn sundur og honum rústað.
Og við liggjum alveg hljóð undir plómutrjánum
Þögult grasið segir okkur leyndarmál sín.
Þrýstu höndinni að enni mínu niður í svörtustu moldu
Skerðu upp blómstrandi kornið sem vex í augum mér.
Aftur drjúpa orðin dísæt á varir mínar
Leyndarmálið er aðeins ætlað þér.
Himinninn er úfinn, fuglarnir magnþrota í okkur
Blíður titrar lófi næturinnar, honum sveipumst við.
Marko Niemi (1974–2019) var á meðal fyrstu stafrænu ljóðskálda Finnlands en gaf einnig út tvær bækur á prenti, Nuoruusoppi (2006) og Suut (2012) ásamt Miiu Toivio. Marko ritstýrði vefnum Nokturno.fi og þýðingar á ljóðum hans hafa birst í ljóðasöfnum víða um heim. Þessi ljóð eru úr Suut og voru þýdd af Erlu Völudóttur fyrir ljóðaviðburð í Norræna húsinu 2014, þar sem Marko las upp ásamt fleiri skáldum. Hann lést síðastliðinn miðvikudag.