á skrifstofunni


stend fyrir framan skrifborðið
klæddur í gulan pollagalla
með fötu í vinstri og skóflu í hægri
söndugt hor á efrivör

ég á þessa skrifstofu
hvítir veggirnir lykta af festu og eirðarleysi
á tölvuskjánum blikka þrjú þúsund ólesin ímeil
eða þrjú þúsund skærrauð umferðarljós
í Ártúnsbrekku er fjörutíu mínútna umferðarteppa
en ég er bara hér
á skrifstofunni

sting skóflunni í fötuna og moka sandi á lyklaborðið
moka þar til stafirnir eru þaktir litlum svörtum hól
á skjánum blikkar ímeil
inn um gluggann heyrist bílflaut
mamma er komin að sækja mig