Lífshlaup Ömmu sem kallaði ekki allt ömmu sína

Hér verður fjallað lítillega um minningabókina: Amma: Draumar í lit. Verkið er eftir blaðakonuna Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur (1979). Stundin gefur út. Verkið telur 89 síður.

Augljóst er að hlutum var öðruvísi farið á Íslandi í eina tíð. Slíkt ætti hverri heilvita konu og meðalgreindum manni að vera ljóst. Raunar þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að átta sig á því að margt hefir breyst, margt er við það að breytast og margt mun breytast. Breytingarnar eru hraðar. Íslenskt samfélag er allt annað en staðnað þessa dagana.

Það sem hratt hefir breyst undanfarin ár er staða konunnar og viðhorf til kynjahlutverka (hér er ekki haldið fram að breytingarnar hafi náð til allra sviða. Ljóst er þó að flestir hafa ekki farið varhluta af viðleitninni). Ekki verður, hér og nú, kafað ofan í þær breytingar en augljóst má þykja að stúlkur þær sem nú líta dagsins ljós fæðast í allt annan veruleika en þær sem fæddust, til að mynda, fyrir seinna stríð.

Fyrir það fyrsta var efnahagsleg velsæld ekki eins almenn, fólk þurfti að hafa meira fyrir lifibrauðinu, það var harkan sex sem gilti, húsnæði var af allt öðrum toga og ekki alltaf búið rafmagni eða rennandi vatni, kynferðismál lágu í þagnargildi, lítt var rætt um tilfinningar og þar mætti áfram telja. Staður konunnar var í eldhúsinu, henni bar að sjá um börnin, heimilið og eiginmanninn. Í þá tíð voru barnmargar fjölskyldur reglan. Fátíða var að konur sóttu sér menntun. Það var þá helst að þær færu í húsmæðraskóla. Torgætt var meira að segja að stúlkur gengu í menntaskóla. Allt samfélagið hélt í íhaldssöm gildi, kristilega gildi. Gervörturnar voru vandlega faldar og ekki viðhafður munnsöfnuður gagnvart feðraveldinu. Brot á bannhelgi, að fara ótroðnar slóðir, gat leitt til fordæmingar samfélagsins eða jafnvel útskúfunar.

Á þessu voru undantekningar, með áherslu á orðið undantekning.  

Ég var staðráðin í að fara í Menntaskólann á Akureyri og það truflaði mig ekkert að ég væri fyrsta stúlka þorpsins til að fara þá leið. Ég man ekki einu sinni eftir að hafa velt fyrir mér hvort sú staðreynd, að ég væri stelpa, ætti að stoppa mig. (bls. 21)

Sú bók sem hér er til umfjöllunar tekur, því að gera, á upptöldum atriðum í gegnum líf og starf Hólmfríðar Sigurðardóttur. Ömmubarn hennar og nafna festir í letur. Atriði þessi eru ekki alltaf beint til umfjöllunar. Það er fremur að samanburðurinn við nútímann sé óhjákvæmilegur lesandanum. Aukinheldur gerir ömmubarnið samanburð á lífi sínu og lífi ömmunnar í gegnum árin. Verkið tekur þar að auki óhjákvæmilega á öðrum breytingum íslensks samfélags eins og landsflóttanum, hvernig sífellt fleiri kusu að búa á suðvesturhorninu. Amman er þar engin undantekning. Hún fæðist á Raufarhöfn árið 1930 en elur manninn, að mestu leyti í, höfuðborginni eftir að vera komin á fullorðins ár.

Við keyrum framhjá húsum sem einu sinni höfðu tilgang – pósthúsinu, kaupfélaginu, apótekinu. Í þeim starfar engan lengur. (bls. 11)

Verkið er svo ekki síður um forgengileika, að allt verður einhvern tímann tímanum að bráð. Líka minningarnar. Þótt amman búi ekki lengur á Raufarhöfn á hún þar hús. Í húsinu voru tvær íbúðir í eigu fjölskyldunnar. Einungis íbúð ömmunnar er enn notuð, hin verður smátt og smátt tímanum að bráð. Amman leitast við að fara til Raufarhafnar þegar hún hefir tök á. Ömmubarnið er þar einnig tíður gestur, oftast með ömmu sinni. Þaðan koma þessar myndir:

Á veggjunum eru myndir af fólki sem ég þekki ekki í sjón en veit að er frændfólk mitt sem ég hef heyrt margar sögur af (bls. 16-17)

 

Skyrtan hans [frændi ömmubarnsins] hangir kæruleysisleg á veggnum og dagblaðið bíður hans á bekknum, eins og hann hafi rétt brugðið sér frá og sé væntanlegur á hverri stundu. (bls. 18)

Húsið geymir liðinn tíma og slíkt hið sama má segja um ömmuna. Þar af leiðandi þessi bók. Þar af leiðandi bók ömmunnar Dagar sóleyjana koma.  Hún „geymir ljóðin hennar – lykilinn að ævi hennar.“ (bls. 20) Í verkinu koma fyrir einhver ljóðanna. Er þeim hrært við frásögnina á viðeigandi stöðum. Ljóðabókin, sem er fyrsta útgefna verk hennar, kom út fyrir tveim árum. Minnir það á Málfríði Einarsdóttur (1899-1983) sem gaf út sitt fyrsta verk, Samastaður í tilverunni, árið 1977. Á árum áður var sjaldgæft að konur væru að „vilja“ upp á dekk.

Minningar
speglast í sjó
gleði og sorg
fólksins við víkina

(bls. 21)

Í ljóðunum reynir hún að hitta á horfinn tíma „að fanga angurværðina sem oft fylgir andblæ minninganna og svo erfitt er að lýsa.“ (bls. 27) Og ef eitthvað orð er ágætlega til þess fallinn að lýsa téðu verki, Amma: Draumar í lit þá er það angurværð.

Hvað frásagnarmáta áhrærir þá er hann breytilegur. Ömmubarnið segir frá í 1. persónu, amman hefir orðið og segir einnig frá í 1.persónu. Sumt er í samtalsformi (viðtalsformi), amma og ömmubarn tala saman. Svo er og sagt frá í 3. persónu. Ennfremur eru það ljóðin.

Sagan sem sögð er, líkt og gefur að skilja, saga ömmunnar. Æska á Raufarhöfn, síldarár, menntaskólaár, húsfreyjuár, kennaraskólaár, leikfimiár, elliár. Hún gegnir mismunandi hlutverkum í lífinu sem flest taka mið af tíðandanum. Hún lifir því harla hefðbundnu lífi. Í sögulegu samhengi skarar hún ekki framúr né vekur ómælda eftirtekt fyrir öðruvísi lífstíl eða frjálsa hugsun. Lífshlaup hennar er ekki óvanalegt og ekkert endilega í frásögur færandi. Ekki fremur en lífshlaup okkar flestra. Hún á ágætt líf þótt ekki sé það laust við sorg og erfiði. Ekki er heldur laust við að hún hafi ekki endilega alltaf lifað lífi sínu eins og hún sjálf hefði kosið það. Samfélag þess tíma reisti veggi. Vissulega fer hún samt sumpart aðra leið en samferðakonur hennar eins og lesa má um í verkinu.

Verk þetta mætt tengja við örsöguna sem leitast við að miðla sögunni, liðnum tíðaranda, liðnum tíma, í gegnum líf meðaljónsins ekki stórmenna sögunnar eða valdamanna (manna er hér notað meðvitað).

Verk þetta sver sig klárlega í ætt við vissa tilhneigingu. Undanfarið hafa komið út verk sem, leynt og ljóst, hafa það augnamið að gera konur sýnilegri. Má þar til dæmis nefna þetta verk. Það er og í takt við tíðarandann og allar kvennabyltingarnar, stórar og smáar, sem að undanförnu hafa verið áberandi í vestrænu samfélagi. Þetta er lítil og því að gera látlaus frásögn af venjulegri íslenskri konu. En hún segir stóra sögu.

Jafnframt er næsta víst að fólk sem komið er yfir fertugt eða er um fertugt getur fundið sína ömmu í Hólmfríði sem fór „á fætur fyrir allar aldir, svo snemma að deila má um hvort enn væri nótt eða morgun.“ (bls. 7) Konu sem er síprjónandi, prjónar fyrir alla fjölskylduna og drekkur rótsterkt kaffi og kallar ekki allt ömmu sína.