Ef þú bangar framan í heiminn þá bangar heimurinn framan í þig

Þar sem síðasta dægurlagatextaumfjöllun fékk enn betri undirtektir en sú þar á undan hefir verið ákveðið að láta ekki staðar numið heldur halda áfram að skoða texta íslenskra dægurlaga. Verst er að hólið fái hvorki metist til fjár né blings. En alltént má láta það stíga sér til höfuðs í anda rappsins og nota til að úthúða þeim sem eigi eru jafn móðins og Starafuglinn. Enda er enginn jafn tilþrifamikill, lostfagur og stórkostlegur á andlega sviðinu og hann. Ef Íslendingar væru upp til hópa betur gefnir og læsu Fuglinn allir með tölu er hætt við að þeir gætu ekki haft stjórn á sér og endaði allt í allsherjar orgíu líkt og þegar Jean Baptiste Grenouille opinberaði Ilminn í samnefndri bók Patriks Süsskinds. Velgengni gefur tilefni til oflátungsháttar.

En hvað um það.

Í anda tímans verður skipt um kyn, testósteróni skipt út fyrir estrógen og það þrátt fyrir að stúlkum þeim sem sveitina Reykjavíkurdætur skipa hafi verið borið á brýn að vera helst til fullar af karlhormónum þegar kemur að árásarhneigð auk þess sem þær hafa verið óhræddar við að banga út og suður líkt og klámhneigður bólugrafinn unglingspiltur í draumalandinu. Þær fá þó líklega að banga meir en vergjarni unglingspilturinn, meðaltals vergjarni táningurinn.

Hér er gengið út frá því að sögnin banga tengist ástaratlotum, holdlegu samræði, ekki því að berja eða að smíða viðvaningslega eins og hún getur einnig þýtt. Þeir sem vita gerst halda því fram að dætrunum sé tamt að taka sér sögn þessa í munn.

Skoðaður verður texti Reykjavíkurdætra við lagið „Ekkert drama“ sem þær unnu með hinni pappírselskandi Svölu Björgvinsdóttir sem vann sér það helst til tekna að syngja á hinni alræmdu útihátíð Uxa lýðveldisárið 1944, hátíð sem markaði upphaf vímuefnavanda landsins. Þar tróð hún upp með hljómsveitinni Bubbbleflies sem vann sér, því að gera, ekkert til tekna og er flestum gleymd og grafinn. Ef til vill má finna grafir bandmeðlima við Kirkjubæjarklaustur. Einnig var ljómandi forkunnlega meiriháttar þegar hún Svala B. söng lag ljós og friðar með hinni eilífu táningasveit Maus í skemmtiþætti Gísla Marteins um árið.

Stúlka þessi mun seint gleymast og hróður hennar mun berast inn í eilífðina líkt og skáld sem verður eitt með fegurðinni.

Væri hér einnig sannlega, óneitanlega, og tvímælalaust tilefni til að spyrða hana við föðurinn. En þar sem umfjöllun þessi vill vera í takt við tíðarandann verður ógert látið að grafa upp fornminjar. Eigi viljum vér löggildir hálfvitar vera. Aukinheldur getur hún ekkert að faðerninu gert og kemur það jafnframt þessum dægurlagatexta nákvæmlega ekkert við.

Áður en skakklappast verður í textann er ekki úr vegi að velta aðeins fyrirbærinu Reykjavíkurdætur fyrir sér. Ekki þarf kynjafræðing til að átta sig á sérstöðu þeirra innan tónlistargeirans. Sérstaklega þegar pungsveittur rappheimurinn er hafður í huga. Heimur þar sem löngum hefir talist kalt að notast við orð líkt og hórur, tussur, tíkur og druslur þegar rappað er um kvenmenn. Oftlega eru þær, tíkurnar, nær eingöngu taldar nytsamlegar til vissra hluta, að sleikja hinn yfirfærða skeikipinna, dilla ávölum afturendanum svo og að vera skrautmunur hinna melluelskandi rappara. Já, „þeir drengir yfirleitt þeir hugsa aðeins um eitt og finnst öll meðöl barasta í lagi.“ (Úr laginu „Kvöld í Atlavík“ eftir Megas af hljómplötunni Þrír blóðdropar). Þær, stúlkurnar, eru svo auðvitað ekki pungsveittar.

Stúlkurnar eru ófeimnar við að grípa til orðfæris sem seint teldist til hæfis við jarðarfarir (nema kannski við jarðarför GG Allin og viðlíka kóna), í fermingarveislum eða sögum Svövu Jakobsdóttur. Þeim er tíðrætt um tíkur eða „bitch-ur“ og fellur sú orðnotkun sennilega í sama flokk og þegar blökkumaðurinn notast við orðið negri eða niggari. Svo grípa þær hiklaust milli fóta sér með ögrandi svip. Vel upp öldum miðaldra hvítum karlmönnum, akandi um á snyrtilegum fólksbíl eða sterkbygðri fjórhjóladrifinni bifreið gæti áreiðanlega staðið stuggur af kvinnum þeim. Raunar gæti hvaða karlmaður sem er farið í fósturstellinguna, sogið þumalinn og lofað að vera góður drengur héðan í frá, þótt á laun þyki honum sjálfsagður réttur karlmannsins að hafa áskrift að kynfærum kvenna og það ekki til að fjölga mannkyninu eða hafa sameiginlega afnot af kynfærum hvor annars í mesta bræðra- eða systralagi.

Með Reykjavíkurdætrum er rappsveit, hljómsveit, á sjónarsviðinu sem tilheyrir þeim hluta mannkyns sem borið getur barn undir belti. Þeim hluta sem lengi vel var ætlaður staður við barnauppeldi, matargerð og þjónustu við karlpersónuna. Ekki voru fáir sem hölluðust að því að bónda bæri að vera höfuð konunnar. Lögðu því þeir hinir sömu ef til vill trú á að Eva væri úr rifi Adams gerð. Sumir gera það enn.

Þekki lesandi eigi til fyrstu Mósebókar þá ætti sá hinn sami að láta athuga hvort hann eður hún þjáist af gáfnaleka, tík!

Kynlíf, tilhlýðilegast í trúboðastellingunni með ljósin slökkt undir sæng með lokuð augun, var stundað til að fjölga mannkyninu og máske mátti maðurinn fá smá kynlífsánægju við að serða eða sladda kvenkostinn. Alice Schwarzer myndi sennilega halda því fram að aðalánægjan hafi falist í valdbeitingunni, valdaójafnvæginu. Hvað um það, fullnæging kvenna var sjaldgæft fyrirbrigði.

Hér mætti í löngu máli rekja kvenfrelsisbaráttu undangenginna áratuga og ekki síst síðustu ára. Reykjavíkurdætur eru óneitanlega hluti hennar. Síðan 2013 hafa þær verið óhræddar við að ögra og koma við kaun, mörgum verið raun. Þær hafa meira að segja farið þess á leit í boðhætti að húðsepinn sem finna má yst í kynfærum kvenna verði sleiktur! Karlmaðurinn, hann Guð, heldur fyrir augu og eyru!  

Augljóst má því þykja að stúlkurnar eru hluti af byltingu, samfélagsbreytingu. Það er of snemmt að segja til um hvort samfélagi verði kollvarpað, en breytast mun það áfram hvort sem Adam fer í fýlu og vælir í einhverju internethorni eður ei.  Alltént, hvað sem öðru líður og allavega er deginum ljósara að miðfingur dætranna er á lofti og að þær eru af öðru sauðahúsi en karlpeningurinn og þá ekki bara fyrir þá líkamlegu staðreynd að Herra Hnetusmjör, Emmsjé Gauti, Króli og JóiPé, Elli grill og hvað þeir nú allir heita hafa besefa, böll, göndul, sköndul, völsa og skaufa, ellegar getnaðarlim. Og eru oftlega, líklega og sennilega meðlimir eins konar strákagengis.

Dægurlagatextinn sem varð fyrir valinu að þessu sinni er öðruvísi en margir textar stelpnanna. Lagið einnig. Ætli fari ekki ágætlega á að kalla það stuð- og dansvænna en margt sem komið hefir frá þeirra ranni. Innihaldslega er miðfingrinum ekki heldur otað í allar áttir, ekki er leitast við að vera með leiðindi, benda á að hinn kunni vart að rappa eða reppa, annar sé slefandi yfir fiskbúðingi mömmu sinnar eða að einn til sé að verða sköllóttur og þar af leiðandi lítt kynörvandi. Hér er feðraveldinu ekki heldur sagt til syndanna né auðvalds- og mengunarsinnum, þeim er ekki sagt að hnýta sig saman á rasshárunum og slefa svo vel upp í hver annarra kjafta. Það er ekki svo mikið pönk, það er ekki svo mikið helvíti í þessu. Þetta er popp. Ennnn í ljósi sögunnar mætti þó líta á textann sem vissan umsnúning á hlutverkum. Má einnig skoða þetta í ljósi annarrar sögu um stelpur sem einvörðungu hafa hug á gleði og glensi. Er þar átt við Cindy Lauper útgáfuna ekki Robert Hazard þótt hún sé fín.

Lítum nú á barninginn sem fenginn var frá freyjum í gegnum tölvupósta og settur hér óbreyttur inn nema hvað hann er skáletraður til aðgreiningar. Rappi er skipt á milli dætranna Ragnhildar Hólm, Þuru Stínu, Kolfinnu Nikulásdóttur, Steinunnar Jónsdóttir og Þuríðar Blævar Jóhannsdóttir. Þær fara með rappversin. Leiða verður líkur að því að hver þeirra hafi samið sinn hluta. Þar af leiðandi eru hlutarnir sumpart ólíkir og mynda ekki endilega heildrænt samhengi. Það sem bindur þá saman er svo viðlag og brú sem flutt er af Svölu B. Þar æskir hún þess að aðstæðurnar verði lausar við alla dramatík. Skal ekki lagður leikhúslegur skilningur í málið heldur sá að viðkomandi eigi að sleppa öllu uppsteiti og veseni, öllu væli. Leyfum okkur að túlka það sem karlavæl. Helvítis vælukjóar þessir karlar.

Ekkert drama Reykjavíkurdætur og Svala B.

Ragga:
Mmm.. ertu að farast úr áhyggjum?
Nokkuð drepast úr þráhyggju?
Ey, ertu að reyna að ná okkur
Fylla í okkar fótspor
Erfitt að sjá okkur.
Stelpurnar sem komu og sáu sigur
Hann er sætur
Sexý kvennagull
Svala B og Reykjavíkurdætur

Í byrjun þessa fyrsta erindis er spurning hver sé ávarpaður. Vissulega má gera ráð fyrir, og er það nærtækast, að hlustandinn sé ávarpaður. Einhverra hluta vegna, þótt kyn komi ekki fram, virkar eðlilegt að álykta að fyrstu fimm línunum sé beint til karlkyns hlustanda. Hlustanda sem er ef til vill uggandi yfir uppgangi dætranna. Kannski til þeirra sem hafa hvað mest fundið þeim til foráttu, hafa haft þær á heilanum. Sjötta línan virðist vera hugsuð til sjálfsmæringar og ætti að vera stelpurnar sem komu sáu og sigruðu en hefir hugsanlega innihaldið of mörg atkvæði fyrir laglínuna. Nema stelpurnar hafi séð hnokka að nafni Sigur en þá hefði verið æskilegra að rita nafnið með stórum staf. Að vísu gæti næsta lína þýtt að seggurinn sé sætur. Trúlegra er þó að sigurinn sé það. En hver er þá kvennagullið eða eru það kvennagullin? Eru það Reykjavíkurdætur? Það verður að teljast líklegast enda föngulegar meyjar. Fyrstu fimm línurnar eru frekar auðskiljanlegar en spyrja má sig hví eigi að fylla í fótspor þeirra. Gæti það verið til að afmá þau, gera þau ósýnileg? Nú, einnig mætti ef til vill túlka textann á þá leið að hér sé um hali með hundsaugu að ræða sem mæna í aðdáun á Svölu B. og Reykjavíkurdætur líkt og rakkar á tík á lóðaríi.

Þura:
Ég er með stelpunum
þarft að fara eitthvað annað
Queens yfir þig homie
annað dæmi, ekkert bannað
Er bara í kringum þig
svo að við getum bangað
Mér leiðist strax með þér
ætla að finna einhvern annan

Hér er svissað yfir í fyrstu persónu og rappynja er með öðrum fljóðum, að öllum líkindum systrum sínum, og spyr annan aðila, á að giska karlkyns, hvort sá þurfi að fara eitthvað annað (vantar að vísu persónufornafnið). Í beinu framhaldi koma fyrir tvö orð sem einkum eru notuð af enskumælandi, queens og homie. Queens hlýtur að eiga við stelpurnar sem þá eru yfir homie hafnar, ríkja yfir honum homie. Á það ágætlega við þar sem orðið hefir löngum verið notað sem karllægt slangur Mexíkó-Ameríkana (tengt hipphoppi). Er það eins konar stytting á homeboy. Næsta lína felur í sér aðra staðla, önnur viðmið og þar heldur ekkert aftur af viðkomandi og sannast það í næstu fjórum línum þegar rappynja lætur frá sér setningar sem sæma myndu hvað ríða-búinn-bless-gaur sem er. Umsnúningur á hefðbundnum hlutverkum. Það hefir jú löngum verið halurinn sem hefir leyfi til þess að vera vergjarn.

Svala:
Ég vil ekkert drama, drama, drama
Mér er alveg sama, sama, sama
Ég vil ekkert drama, drama, drama
Ég vil ekkert drama í nótt

Viðlag var tekið fyrir áðan. Það passar ágætlega við erindin tvö. Við það má bæta að í nótt gæti bent til einhvers konar næturbrölts, máski rekkjubragða. Og svo skáldaleyfi sér tekið til að spinna út frá því þá er þess æskt í kjölfarið að bólfélaginn haldi sig á mottunni að ástaratlotum loknum. Eben ekkert drama. Einnig mætti einfaldlega túlka möntruna sem kröfu um þrautalaust kveld þar sem ellefta boðorðið er skemmtun, dans og gleði (ef horft er á myndbandið við lagið má hallast að því).

Kolfinna
Nei, ég vil ekkert drama í nótt,
Mér er alveg sama í nótt.
Ef þig langar með þarftu að vera fljót því,
Mínar tíkur ferðast eins og ljósið.
Ég bara þessi BSÍ týpa
og ég fýla bara að slafra og slíta
Ey, þetta er kjamsandi klíka,
þínir hundar að gelta mínar tíkur að bíta.

Næsta rappynja endurtekur innihald viðlags og spyr síðan hlustanda sem er í kvenkyni að þessu sinni hvort hún hafi hug á að slást í hópinn, vera hluti af genginu. Ef sú hin sama hefir hug á því þarf hún að átta sig á því að droll, slæpingjaháttur og fokk á ekki við. Rappynja talar svo um sínar tíkur og þá í sama samhengi og blökkumaðurinn nefnir mann af sama hörundslit negra. Óljóst er hvað BSÍ týpa er. Er með BSÍ átt við Umferðamiðstöðina BSÍ (Bifreiðastöð Íslands)? Er þetta þá aðili sem ferðast í allar áttir? Rótlaus aðili? Margkynhneigður? Samræðisgjarn í ljósi næstu línu þar sem græðgi er oftlega spyrt saman við að slafra (reyndar þá mat en vart er átt við að rappmælandi falli í geð að eta græðgislega). Sögnina slíta mætti setja í það samband og túlka sem svo að persónu sé tamt að stunda tungukossa (máske eitthvað meira) og slíta þeim jafnharðan. Klíkan smjattar  og felur það góðgæti í sér, eitthvað gott. En hvaðan koma geltandi hundarnir? Tilheyra þeir persónunni sem fékk þá áeggjan að slást í hópinn? Rökrænt er að ætla það þótt þeir dúkki upp ansi óforvarandis. Seinni hlutinn er einnig rökrænn og þýðir einfaldlega að klíkan sé óhrædd við að bíta frá sér, eigi stoði að bögga eða væla, vera með drama.

Steinunn
Ég bara get ekki týpur sem að eru ekki sannar.
Bitches sem segja eitt en gera svo eitthvað allt annað.
Búin að velja vel í crewið og crewið mitt er nú orðið fullmannað.
Ef þig langar máttu alveg koma með mér en drama er alveg bannað.

Þessar línar mætti draga saman með engilsaxnesku orðunum keeping it real. Ný rappynja stígur fram og ítrekar þannig lagað séð það sem á undan er gengið. Tíkurnar þurfa að vera sjálfum sér samkvæmar og þeim sem slást vilja í hópinn ber að forðast allt vesen. Hér er rímið meiriháttar.

Blær:
Eyði ekki tímanum mínum í að tala um aðra, (nei)
Teyga meira munnurinn er of upptekinn til að blaðra, (hey)
Tjékkaðu þessar queens hér í crewinu mínu,
Taka selfies,
Alla daga’ í rúminu mínu
Bara duck face
In yo face
In yo friggin face.

Hér eru stærilæti á ferð. Svo notast sé við ensku, íslensku framtíðarinnar, gæti hin næsta verið að segja we are the real deal, tík. Hún hefir ekki hug á að tala um aðra, hún er of upptekinn við að teyga. Verður ekki að teljast líklegt þegar stuð- og dansvænt lagið er haft í huga að göróttur drykkur sé þambaður. Kallast viðhorfið á við hugsanahátt Herra nokkurs Hnetusmjörs (hann er nú samt eiginlega bara stráklingur, vex vart grön) í laginu „Spyrðu um mig“ Hún og þær eru sjálfhverfar og telja sig yfir aðra hafnar, flíkandi andarsmetti framan í heiminn.

Svala:
Ég vil ekkert drama, drama, drama
Mér er alveg sama, sama, sama
Ég vil ekkert drama, drama, drama
Ég vil ekkert drama í nótt

Þetta er ljóst. Ekkert drama. Skilið.

Sé þig púlla upp að framan
Mega heit, algjört queen, yeah yeah
Langar svo að leika saman,
Ekkert hate, bara love, baby baby,

Í brúnni áréttar Svala B. að aðrar megi slást í hópinn. Þótt önnur persóna eintölu sé notuð hlýtur í kastljósi þess sem á undangenginna orða að mega kveða á um að átt sé við fleiri en eina persónu. Engilsaxnesk áhrif fá að njóta sín sem aldrei fyrr í ensk-lenskri blöndu. Skilaboðin: Let’s spend the night together? Dansa, hvað er betra en að dansa? Sameinaðar stöndum við, sundraðar föllum við? Make ást not stríð?

Ég vil ekkert drama drama,
alveg sama sama
ég vil ekkert drama drama,
alveg sama sama

Ég vil ekkert drama, drama, drama
Mér er alveg sama, sama, sama
Ég vil ekkert drama, drama, drama
Ég vil ekkert drama í nótt

Skilið.

Hvernig ber að draga þetta saman? Ætli fari ekki best á að líta á þetta sem kvennasöng (no shit), við konur getum sannlega slett úr klaufunum, við viljum ekkert drama. Þið getið slegist í hópinn konur og karlar. Raunar tökum við frasann af karlpeningunum sem löngum hefir verið tamt að nota hann á móðursjúkar mær og slengjum honum með andarsmetti framan í þá eða framann í heiminn. Málum er snúið við. Eru svo skilaboðin ekki líka einfaldlega þau að við högum vorum högum eins og oss sýnist og þurfum eigi að skammast okkur fyrir hvorki eitt né neitt, nema þá ef til vill full enska orðanotkun, miður gott rím og atkvæðaskiptingu og ef til vill full mikla endurtekningu?