… fegurðin er tilfinning … pack dýr erum við … síháð flæðinu með hinum dýrunum varðandi tilfinningaveður vor. Fegurðin er dómur og mæling nátengd goggunarröð. Mannapar/öpur sem litla virðing fá þjást af taugaveiklunar vanlíðan sem lætur þá fá hátt kólesteról og millirifjaspik, æðakölkun, allan pakkann. Verða sjúk-ljótir auðvitað svo að enn skrúfast vanlíðan þeirra upp. Því er best að eta sjálfsánægju sína í öll mál og smjatta djúpt inn. Af rennur þá sjúkleikinn og útgeislun fegurðar sjálfstraustsins hefst.
… fegurðin er sjálfstraust sem er sexappíll. Við skynjum nær 80% með augunum. Þar sem bara 25% karlspendýra fæðast sexý = með mikið test eða hvað það heitir og komast í kvendýrin fá þeir að njóta margra kvenna. Um heim allan meinlaust nema í kristninni. Ríkidæmi eftir að það varð til tók að hafa sama aðdráttarafl. Einkvæni og kynreglur kristninnar, sem kom til vegna þess að útburður stúlkubarna var bannaður (Ésús elskaði jú börnin) og varð nauðsyn til að regúlera offjölgun, bældi sex kristinna manna hroðalega. Og það sem verra er útilokaði fjölda kvenna frá kynlífi. Sú hörmung, menningarleg, bættist ofan á 75% óhamingju karldýranna sem ekki kunna að stanga gæjana í kaf. Hið eðlilega er að öllum kvendýrum sé sinnt og það gerði mannkyn þar til í kristninni, útburður stúlkubarna um heim allan gerði kerfið sjálfbært. Í einkvæniskerfi okkar með þá fáu kynþokkakarla sem tilraunastofa spendýrana skapar er niðurstaðan því skelfilega ókristileg. Svo margar konur fá ekki neitt. Í okkar kerfi er fegurðin því grimm og vond.
Orðið sex skyldi þó ekki hafa sprottið út úr sjötta boðorðinu „þú skalt ekki drýgja hór“? Djók … en drullu fannst mér gaman þegar ég fékk þessa hugmynd og hún reyndist rétt. Þeir sem eru ekki nógu fagrir til að fá fögru konuna eða fagra karlinn girnast úr fjarlægð, en viðkomandi er í einkaeigu. Nota bene: í gyðingheimi gamla textamentisins áttu flottu karlarnir (ríku, ættstóru eða kynþokkafullu) fleiri en eina konu. Muni ég biblíusögur mínar rétt.
… fegurðin elskar barnið og ósjúk andlit. Líffræðilega darwínskt þróunarlega séð er sjónrænt fegurðarskyn okkar einfalt, stór augu, fínlegir drættir, ekkert ýkt. Innbyggt er í okkur að elska börnin, barnsandlit þykja okkur því fríð á fullorðnum, stóru augun, litli nebbinn etc. Í raun og veru óspennandi og tíðindalítil andlit, segir djúphyggðin. Annað er að ósymmitrísk andlit eru þróunarsögulega séð oft sjúk, sem guðinn okkar allra hann DNA hefur innbyggt okkur að fælast. Þriðji fegurðarstuðullinn hefur með vöxt kynjanna að gera. Körlum með lítil og kjarklaus typpi hugnast ekki stórar bungur neðri líkama. Stóru rassarnir og stóru limirnir á fólkinu í Afríku þróuðust saman, eins og háls gíraffans og runni þeirra. Eins og liðleiki ljónsins og gleðihopp hindarinnar. Konur vilja stórt fang að kúra í, mömmu, eins og karlar vilja stór brjóst að hvíla við. Litlu typpin vilja litla viðráðanlega kvenlíkami. Tröll vilja smáan maka og dvergar stóran, því að innbyggt er í okkur að makast ekki okkar eigin ýkjum. Óhamingjan býr víða síðan, eins og Schopenhauer benti á fyrir svo löngu, en karlinn skrifaði heila bók um þetta. Skynjaði náttúruval DNA-sins, enda gera vísindin mikið af því, ekki tæknin hún er dýrð, að staðfesta með tölum þar sem hinir vísu hafa alltaf fundið á sér.
… fegurðin er söngur sólkerfisins þegar harpan mikla slær manni dúr. Vísindin þráast við, fengu andúð kirkjunnar á hugmyndakerfum í samkeppni í arf, þess vegna hefur vísindunum ekki tekist að sanna að það er harpa sólkerfisins sem sullar í mjúka heila nýfædda forriti stundarinnar og ljær okkur þar með grunnkarakter. Frönsk rannsókn sýndi fyrir löngu að mynstur stjörnukorta fjölskyldna mynda klösun sem speglast á við DNA. Þetta er svo fagurt! Við mökum okkur og börnin fæðast á stundu sem raddar rétt við sólkerfismynstur úr sjóði ættanna! Hvað tilveran er fín og flókin og gáfuð! Sólkerfið spilar lífið út á frumgrafík skynjunar okkar, hljóðfærið sem við erum, dúra sína og molla. Segi ég og skrifa. Skoðaði nýlega tilraunir vísindanna til að afsanna astrólógíu sem var svo hlálega heimskulega gerð, af engum skilningi á astrólógíu og plokki ephemerisins á langspilið og flókið módel stjörnumáts augnablikanna að trú mín á vísindunum hrundi. Að vera svona „vísindamaður‟ og telja sig geta notað vísindalega aðferð án grunnþekkingar er meinháski. Varið ykkur. Fíflin eru þar líka. Í vísindunum.
… fleira hef ég eiginlega ekki um fegurðina að segja. Hinir rövli frítt klisjusöng sinn sem enn búa við mannheimsmynd 18. aldar um löngu úrelt tralla la humanioru, heimspeki og félagsvísinda um fegurðina. Kjarninn er eina vitið og alvöru þróunarbíólígísk glæný vísindi um manninn miklu flottari en sú auma list sem tíðkast og slefað er og snobbað fyrir. Og habbiði þad.
Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir er rithöfundur.
Starafugl bað sextán listamenn úr ólíkum listgreinum og á ólíkum aldri að svara til um afstöðu sína til fegurðarinnar. Svörin munu birtast eitt á dag næstu daga á meðan enn eru nokkur til.