Vatnsstígur er stutt þvergata við Hverfisgötu sem ég gisti á síðast þegar ég heimsótti Reykjavík, en það er líka ljóðabók eftir Tryggva Stein Sturluson. Ég varð ekki var við neina beina tengingu við götuna sjálfa samt, það er frekar að ljóðmælandi leyfi vatninu að móta sína stíga, þetta er nefnilega blaut bók. Blaut í þeirri merkingu að maður skynjar vætu í flestum ljóðunum, regnvatn eða haf eða jafnvel svita, sjálft næturljósið vætlar og myndar polla.
Stundum er þó bara kalt – þetta er svona Reykjavíkurbók, köld og blaut, sem ratar frá Vatnsstíg upp í Salahverfi og til óræðra útlanda, alla leið til Japans sýnist mér á vísunum. Það er mögulega fullmikið af klisjukenndum náttúrumyndum – en heimurinn er svosem stútfullur af kitsaðri náttúru, það er frekar að það hefði mátt vinna betur úr þeim.
Þarna er svo einhver „þú“ í erlendri borg, sem og í íslenskum strætó, í þátíð oftast – mögulega sama manneskjan, að minnsta kosti keimlík á milli ljóða. Enda alltaf óræð. Óhóflega óræð.
augun þín eru ennþá blá
sýnist mér
Svona endar eitt ljóðið. Maður skilur ljóðmælandann – manni sýnist nefnilega ansi margt í þessari bók. Hún er rosalega næstum. Maður finnur næstum fyrir henni, rétt eins og ljóðmælandinn:
finn næstum fyrir
úðanum“
Maður finnur alltof oft næstum fyrir einhverju. Hér er einhver vísir af heimi, við fáum ekki almennilega að sjá hann – kannski var bókinni ofritstýrt, hún of meitluð, eða kannski var einfaldlega ekki búið að framkalla þennan ljóðheim almennilega, hvað sem líður Hemingwayskum klisjum um tíundina á ísjakanum sem á að sjást (sorrí Ernest, ég elska þig samt ennþá) þá hugsar lesandi ítrekað með sér: Segðu okkur meira, gefðu okkur meira.
Þetta er snúin krafa á ljóð, það er mögulega flóknasti dans ljóðsins – að segja ekki of mikið en samt nóg. Mystíkin er þeim nauðsynleg, það verða alltaf einhver orð að vera ósögð – og kannski var þetta rétt hjá Ernest eftir allt saman með ísjakann, en maður þarf þá að passa að sýna að minnsta kosti einn tíunda, ekki einn tuttugasta eða einn hundraðasta. Út af því mystíkin verður ekki til í hjarta lesanda fyrr en það er búið að kveikja á einhverjum grun – og svo forvitninni. Hér grunar mann ýmislegt – en það vantar upp á að maður sé orðinn almennilega forvitinn.
„Mortél“ er eitt af betri ljóðum bókarinnar – og lýsir þessu ágætlega. Þar er ljóðmælandi rifinn í sundur og mulinn undir hnalli mortélsins
þar til ekkert er eftir
nema fíngert duft
leynihráefnið
sem þú sáldrar yfir bragðlausu réttina
Í fínu matarboðunum þínum
En þetta leynihráefni, það er eins og því sé haldið of leyndu, við fáum ekki einu sinni almennilega að finna lyktina af því eða bragðið.
Brúðuleikhús, tölvuleikur og Tom Waits
Það sem kveikti þó tímabundið á forvitninni hjá mér voru nokkrir óræðir og sérviskulegir ljóðatitlar.
- „Bumraku“
- „Daguerronótt“
- „Burma Shave“
„Bumraku“ var í uppáhaldi hjá mér áður en ég gúglaði að það væri japanskt brúðuleikhús, sem dýpkar bara gott ljóð. „Daguerronótt“ greip mig ekki almennilega fyrr en ég áttaði mig á að þetta væri tölvuleikur – og þetta er andskoti lúnkin og ljóðræn lýsing á tölvuleikjanótt, þar sem
hárið á þér er grátt í hálfmyrkrinu
við erum alveg að verða
svarthvít
„Burma Shave“ reyndist svo vera lítt þekkt Tom Waits lag, og það er sjálfsagt ástæða fyrir því að það er lítt þekkt, þetta er ekki eitt af hans betri lögum – það er spilað óhóflega hægt og vantar því einhvern ryþma sem Waits nær oftast – en samt er textinn afskaplega Waits-legur – fullur af litlum og sérviskulegum díteilum, torræður heimur eftir sem áður – en torræðni Waits er margræð og fjölbreytt og kveikir endalausa forvitni. Sem er einmitt það sem vantar oft í Vatnsstíg.
Raunar er bókin dálítið eins og íslensk götuheiti, einhverri náttúru er endalaust blandað við götuendingu, en nöfnin eru oftast með öllu sögulaus og stundum jafnvel merkingalaus – ólíkt evrópskum götum sem eru ítrekað kallaðar eftir sögulegum persónum og atburðum og þegar um örnefni er að ræða er miklu algengara að þau séu raunveruleg en ekki tilbúin á stofnun eins og heima. Eða máski eru íslensk götuheiti bara óhóflega óræð, stútfull af merkingu sem fæstir skynja lengur?
En báðum kemur vorið. Á undan því kemur samt uppáhaldsljóðið mitt í bókinni, „Leysingar,“ þar skynjar maður einhverja hljóðláta örvæntingu, einhverja bugun gagnvart vetrinum, þar sem ljóðmælandi bíður rólegur eftir vorinu undir næsta bíl.
Undir lokin er svo farið að glitta í sólina.