Bónusljóð, ein mest selda ljóðabók allra tíma á Íslandi, hefur nú loksins verið aukin, endurunnin, endurskoðuð og endurprentuð til samræmis við ströngustu kröfur neytenda og alþjóðlegra staðla um gæði ljóðmetis.
Úr kynningartexta
Það mætti segja mér að Bónusljóð hafi verið helvíti sniðug þegar þau komu fyrst út árið 1996. Bónusljóð. Gefin út af Bónus. Seld í Bónus. Með Bónusmerkinu framan á. Það má ímynda sér að fyrir 23 ára ungskáld árið 1996 hafi slíkur gjörningur krafist ákveðins hugrekkis. Að gjörningurinn hafi verið ákveðið fokkjú-merki til kúltúrkapítalsins sem hefur örugglega verið jafn gjaldþrota og þriðja leiðin, sem ungskáldið stóð fyrir, er í dag.
En hvaða erindi þessi bók á við lesendur rúmum tuttugu árum síðar skil ég ekki alveg. Því mér finnst hún ódýr og frekar leiðinleg. Hvísl sem ristir mestmegnis á yfirborðinu. Afneitun á skít sem trúir á endalok sögunnar án þess að gera sér endilega grein fyrir því að hún trúi á nokkuð.
Þessi bók er nefnilega barn síns tíma. Atvik liðast áfram stétt með stétt í þægilegum rúmfatnaði hvorki of heitum né köldum. Hún er mátuleg. Í heimi þessarar lágvöruverslunar er ekkert frábært og ekkert ömurlegt. Bara soldið morbid. Atvik sem eru í mesta falli krúttleg eða hjákátleg.
Af hverju er verið að ota að mér þessari ljóðabók frá árinu 1996?
Hún lúkkar vel. Forsíðan er sniðug. Grípandi. Nafnið. Bónusljóð. Svínið. Sneddý. Það er alveg hægt að selja eitthvað svona. Það brjálast enginn þó hann sé neyddur til að fletta þessari ljóðabók. Kvartar enginn. Enginn breytir heimsmynd sinni við lestur hennar. Svo eru ágætis líkur á að þú sért búinn með hana áður en þér tekst að fá leið á henni.
Á stundum finnst manni eins og Bónusljóð séu að reyna að segja manni að kapítalismi sé bæði góður og slæmur. Sé að reyna að hvísla því að manni. Að hugsanlega sé hann ekki bara yndislegur. Og kannski hefur slíkt hvísl verið áríðandi, jafnvel hugrakkt, árið 1996.
En í hvorugri röksemdafærslunni tekst bókinni að vera sannfærandi eða eiga við mann erindi. Til þess er hún of afstöðulaus. Of rislítil. Bitlítil. Of hikandi. Of hvíslandi.
Það er líka frekar vandræðalegt að lesa bók sem lifir og hrærist á hefðbundnum vinnustað undirstéttarkvenna af erlendum uppruna sem er jafn máttlítil og Bónusljóð, nokkrum dögum eftir að hafa lesið #metoo sögur kvenna af erlendum uppruna. Textar sem eru í senn raunverulegri, hættulegri og segja okkur meira um smáatriðin og stóra samhengið en textar ljóðmælanda.
Bónusljóð er hvíslandi hjárödd með lítið erindi. Hlutgervingur kynslóðarinnar sem fullorðnaðist á 10. áratugnum og festist í heimsmynd Fukuyama. Millistéttarblind froða hvers rökrétt framhald væri Eat Pray Love. Hlutgerving Blairismans, gagnrýnisleysisins, þriðju leiðarinnar og Emanúel Macron. Forspá um örlög Bjartar Framtíðar. Apatía sem horfir í gegnum augun á kassastelpunni sem getur ekki sagt neinum frá því að henni var nauðgað af yfirmönnum sínum nema eiga það á hættu að missa atvinnuleyfið og verða send úr landi.
Bónusljóð eru hvítur yfirstéttarstrákur í heimsreisu að fúndera hvernig sé best að taka við heildsölunni hans pabba án þess að fólki finnist maður vera vondur eða leiðinlegur.
Eitthvað jákvætt?
Mér fannst eitt ljóð í bókinni vera fallegt. Og annað fannst mér sniðugt svo ég flissaði.