Das Kapital ræður

FYRSTI HLUTI: INNGANGUR

Klukkan átta var siglt af stað frá höfnum út um allt með rúmlega átta þúsund farþega. Þetta var bara byrjunin, stanslausir flutningar áttu sér stað allan sólarhringinn næstu daga og vikur.

Rýming Íslands var hafin. (bls. 9)

Um skáldsöguna Kaldakol Þórarins Leifssonar (1966). Verkið kemur út á vegum Máls og menningar og er 280 síður að lengd.Af orðum þessum, sem tekin eru úr Kaldakoli, mætti lesandi, sem lesið hefur skáldsögurnar Eyland Sigríðar Björnsdóttur Hagalín og Nýja Breiðholt Kristjáns Atla, ráða að á svipaðar slóðir sé róið í Kaldakoli og téðum sögum; að um sé að ræða illa staðleysu og „hvað ef sögu“ sem gengur út frá því að eitthvað gerist sem leiði til ógæfulegra atburða á Íslandi. Í Eylandi breytist Ísland í fasistaríki, í Nýja Breiðholti endaði Ísland, eða allavega Reykjavík, í höndum glæpagengja.

Eyland og Nýja Breiðholt bjóða upp á augljósar tengingar við miður góð heimsmál 21. aldarinnar með sínum stríðum, flóttamannavanda, uppgangi hægri öfgaafla og hryðjuverkaógn. Þær eru enda illar staðleysur. Slíkar dveljast lítt við hið jákvæða. Segja má að verkin eigi það sammerkt að þar sé allt í kaldakoli.

Kaldakol sver sig þessa ætt … og þó.

Í staðleysum er oftlega að finna ádeilu, jafnvel áróður. Samfélag og stjórnmál eru einatt gagnrýnd. Dregin er upp mynd af heimi á vonarvöl, heimi þar sem fólk berst á banaspjótum, heimi þar sem allir eru steyptir í sama mót. Boðskapurinn er: Ef við höldum svona áfram gæti þetta orðið framtíðin. Framtíð sú er misnálæg. Í Eylandi og Kaldakoli er framtíðin núna.

Heimsósómi also.

Af fyrri verkum Þórarins að dæma og þeim pistlum sem hann hefir skrifað fyrir Stundina má ljóst þykja að hann er ekki á eitt sáttur við margt í honum heimi. Bryddar hann oft upp á ádeilubroddi og gagnrýnir samtímann. Hann jafnvel krossfestir, hæðir og smánar.

Aðfinnslur þær lúta ósjaldan að markaðshyggju, neysluhyggju, stjórnmálum, útlendingaandúð og umhverfissóðum. Aukinheldur er honum tamt að gera því skóna að mannleg fjölbreytni sé af hinu góða. Hann hefir búið útlöndum. Hann hefir búið í hinni fjölskrúðugu Berlín og veit hvað hann syngur.

Síðasta málsgrein var ansi gildishlaðin.

Án þess að gaumgæfa fyrri verk er samt hægt að halda því fram að þau séu margt á þessum slóðum. Kennir því andlegs skyldleika við Söguna af Bláa hnettinum, Lovestar  og fleiri bóka af því sauðahúsi. Þeirra frægust er líkast til Veröld ný og góð eftir Aldous Leonard Huxley.

Hvað um það. Staðleysubókmenntir eru oft og tíðum all-staðlaðar að innihaldi og formi þótt sannlega þurfi oft ágætt ímyndunarafl til að sjá fyrir sér „hvað ef atburðarrás“. Þórarinn Leifsson verður ekki sakaður ófrjóa andagift. Forverar Kaldakols bera þess vitni. Þar er engu fjöldaframleiddu pólýester-drasli fyrir að fara svo vísað sé í spaugarann Steinda Jr. og gamanvísu hans „Venjulegt fólk.“

Þar sem trúin á að fullnægja formsatriðum er sterk, enda er fátt sem veitir meiri ballfró en „Ordnung muss sein“, skulu taldar upp fyrri bækur Herr Leifsson. Þær eru Leyndarmálið hans pabba (2007), Bókasafn ömmu Huldar (2009), Götumálarinn (2011) og Maðurinn sem hataði börn (2014). Í samhenginu er og vert að minnast á leikritið Útlenska drenginn (2014) sem fellur dável að því sem á undan er farið. Aukinheldur er brýnt að hafa orð á því að Þórarinn er meðhöfundur barnabókarinnar Algjört frelsi (2001) og að Þórarinn myndskreytir einnig bækur sínar. Hann er menntaður í myndlist. Listinn er ekki tæmandi.

Skyldan býður einnig að haft sé orð á að þrjár af þessum bókum (fjórar með Algjöru frelsi) séu ætlaðar börnum. Götumálarinn er ætlaður fullorðnum líkt og sú saga sem hér er til umfjöllunar.

Til að ljúka þessum inngangi á vitrænum nótum er ráð að víkja orðum að því að hingað til hafa verk höfundar að mestu leyti fengið jákvæða umfjöllun. Þeim hefir verið hælt fyrir hugmyndaauðgi, öðruvísi nálgun með grótesku og afturhvarfi til þeirra barnabóka sem víla ekki fyrir sér að láta sögupersónur sínar kveljast og geispa golunni. Þórarinn hefir sennilega ekki leitað ráða hjá Magnúsi Scheving við samningu verka sinna. Sumar persónur verkanna eru jafnvel étnar eða myrtar.

Ádeilubroddur verkanna og pistlanna er vel séður af menningarelítunni, góða fólkinu og vinstri villingum. Skrifin falla enda einatt að heimsmynd þeirra sem þráast við að skipta heiminum upp í „okkur og hina“ og þeirra sem andsnúnir eru hugmyndafræði markaðsaflanna. Hugsanlega skiptir því máli hvar í flokki er staðið þegar kemur að því að meta verk Herr Leifsson, hvort verk kauða fái þumal upp ellegar niður.

Vikið skal nú betur að sögunni sem hér til umfjöllunnar er.

ANNAR HLUTI: MEGINMÁL

Sögusvið Kaldakols er Berlín Þýskalands og Ísland. Sögutíminn er árið 2018. Það má ráða af einni málsgrein verksins á blaðsíðu 95: „Tempelhof-völlur er búinn að vera pólitískt bitbein alveg síðan flugið var lagt niður fyrir áratug síðan.“ Er átt við hinn sögufræga Tempelhof-flugvöll Berlínarborgar. Þar var flugið lagt niður árið 2008. Sagan hefst í júní og stendur yfir sumarið. Verkið skiptist í þrjá hluta sem hverjum fyrir sig er skipt niður í kafla. Svona lítur skiptingin út:

    • Fyrsti hluti: Rýming Íslands bls. 9-25
      • Blaðamannafundur bls. 10-19
      • Borg í greipum óttans bls 20-25
    • Annar hluti: Algjört Ísland bls. 27-240
      • Símtal úr fortíðinni bls. 29-59
      • Berlín bls. 60-72
      • Tempelhof-flugstöðin bls. 73-102
      • Listaverkið bls. 103-142
      • Algjört Ísland bls. 143-157
      • Íslendingarnir koma bls. 158-208
      • Gámaborgin bls. 209-231
      • Frelsið er yndislegt bls. 232-240
    • Þriðji hluti: Nýtt landnám bls. 241-280
      • Hvítt ljós bls. 243-265
      • Perla á hjara veraldar bls. 266-280

Sagan er þriðju persónu frásögn með talsverðri viðkomu í höfðum sögupersóna. Rödd söguhöfundar er sterk og oftsinnis er orðfæri gildishlaðið. Á það til að mynda við persónulýsingar sem stundum jaðra við grótesku. Hér er Hálfdáni Inga sem er „vel gefinn og menntaður vinnuhestur sem peningavöldin höfðu sogað til sín“ (bls. 37) lýst:

Útstæð og um leið ósamstæð augu, breiður munnur sem leiddi hugann að djúpsjávardýri. Einhver græðgi í svipnum, líkt og bak við varirnar leyndist tunga sem gæti auðveldlega snarað skordýr eða vætt rassskoru viðskiptavinar. (bls. 37)

Og aðalpersóna sögunnar, Katla Rán, státar af brjóstum „sem námu við borðbrúnina þegar hún vann á tölvuna, kýtt í herðum með augun pírð og örlítið of mikinn varalit“. Hún hefir jafnframt tíu aukakíló (bls 38) og þarf að eiga við múg „manns [sem] streymdi inn um aðaldyrnar, drifinn áfram af óseðjandi kaupgirnd [þar sem] […] annar eins fjöldi flykktist út klyfjaður af vörum alsæll með að hafa sparað þúsundir króna með magnkaupum.“ (bls. 40)

Hún þarf að ganga á „milli tveggja afgreiðsluborða – nokkurs konar svipugöng fitubollunnar“ (bls. 40) og er við að „troða pylsu með öllu inn á milli bústinna kinnanna“  og ef til vill er hún að leita að leið „út úr þessu rassgati [Ísland]“ (bls. 41). Viðlíka persónulýsingar eru algengar og kallast á við persónur barnabóka Þórarins sem oft hafa gróteska og afkáralega drætti auk þess sem orðfæri þeirra sagna er oftar en ekki gildishlaðið.

Gildishlöðnu orðfæri finnst víða staður í verkinu og einkum í sambandi við útlit, neyslu, Íslendinga í útlöndum og Íslenskt þjóðfélag. Er hinu síðastnefnda einatt miðlað í gegnum Íslendinga búsetta erlendis. Er hér gripið niður í hluta sem hverfist um Jóhann, eina aukapersónu sögunnar sem býr með eignkonu sinni og barnsmóður, Dóru Lísu, og dóttur, Elsu Maríu, í Berlín.

Landar hans höfðu talað hver í kapp við annan um hversu ónýtt Ísland væri orðið en þegar leið á samtalið kom í ljós eins og svo oft áður að þá langaði til að flytja aftur heim til Íslands en gátu það ekki eftir að húsaleiga hafði rokið upp úr öllu valdi fyrir tilstuðlan leigufélaga á borð við Kaldakol. Nú tvístigu þeir í útlöndum og áttu eiginlega hvergi heima. (bls. 33)

Og um Jóhann er sagt:

Nú var hann farinn úr öskunni í eldinn og orðinn að rifrildisfíkli á samfélagsmiðlum og áætlun hans um að flýja íslenskt samfélag endanlega farin í vaskinn. Hann var strandaður í Berlín með lýðveldið Ísland í vasanum. (bls. 35)

Hann þráði daglegan skammt af leiðindum af hjara veraldar. (bls. 35)

Rödd söguhöfundar svipar mjög til raddar pistlahöfundarins Þórarins. Ætli megi ekki draga hana í dilk góða fólksins þótt taka verði fram að sumt sé ef til vill nokkuð nálægt pólitískri ranghugsun.

Sögupersónur verksins eru fremur einvíðar eins og gróteskra persóna er siður. Þær standa aðallega fyrir ákveðnar manngerðir og líkjast að því leyti einnig allnokkuð persónum barnabóka Leifs.

Katla Rán er miðaldra uppgjafarrithöfundur sem vinnur á auglýsingastofu. Hún má muna sinn fífil fegurri og gæti verið ánægðari í vinnunni. Þótt útlitslega sé hún farin að láta á sjá á hún engu að síður kærustu sem heitir Hafdís. Hafdís þessi á tvö börn, Sissu, sem er tölvufíkill í bata, og Hilmar Örn. Hafdís er liðtæk í eldhúsinu og dugleg við að hjálpa Kötlu við að bæta á sig. Efasemda virðist gæta hjá Kötlu hvað sambandið varðar. Hún burðast og með leyndarmál sem tengist fortíð hennar í Reykjavík og veru í Berlín 1989.

Hálfdán Ingi var samtíða Kötlu Rán í Berlín árið 1989. Þau voru félagar og „þar sem þau tilheyrðu bæði hinum sjaldgæfa stofni Íslendinga í Vestur-Berlín voru þau nánast tilneydd að fá sér stöku sinnum bjór út á næstu krá, þó að þau ættu fátt sameiginlegt annað en þjóðernið.“ (bls. 65)

Hálfdán Ingi kemur aftur inn líf Kötlu Ránar þegar hann hefir samband við hana. Honum var „falið að finna trausta manneskju úr auglýsingageiranum sem gæti komið að verkefni sem yrði […] að fara leynt fyrst um sinn.“ (bls. 29) Hálfdán vinnur, ásamt fleirum að gríðarstórri landkynningu á gamla flugvellinum Tempelhof í Berlín. Fær hann Kötlu Rán til að koma til Berlínar til að kynnast verkefninu og þeim sem vinna að því svo og til að mæta á sýningu hinnar heimsfrægu íslensku listakonu Kolbrúnar XL sem á sér stað í Felleshus, samkomuhúsi norrænu sendiráðanna í Berlín. Kolbrún kemur jafnframt að landkynningunni. Hálfdán vinnur fyrir hið einkar fjársterka fjárfestingarfélag Kaldakol. Líkast til á sú nafngift að kallast á við Gamma. Listaverkið og landkynningin haldast hönd í hönd undir heitinu Algjört Ísland og felur í sér notkun alls flugvallarins svo og flugstöðvarbyggingarinnar. Kaldakol er á bakvið allt heila klabbið.

Hlutverk Kötlu er að skrásetja landkynninguna og setja hana í sem jákvæðast ljós. Fljótlega rennur upp fyrir henni að mörgu er haldið leyndu og finnur hún samsærislykt í loftinu. Smátt og smátt, líkt og lesandinn, fær hún frekari upplýsingar um hvað býr að baki (lesandinn fær einnig að vita meira um leyndarmál Kötlu). Allar upplýsingar, eða fullvissu, fær lesandi þó ekki fyrr en í þriðja hluta þegar leikurinn færist til Íslands sem þá hefir verið rýmt. Hugsun verksins er því ekki ósvipuð sakamálasögu. Víðsvegar er að finna það sem á ensku kallast „foreshadowing“. Hefir það, eins og leiða má líkur að, að gera með rýmingu eyjunnar.

Í fyrsta hluta er haldinn blaðamannafundur Almannavarna þar sem tilkynnt er að stórt eldgos sé í vændum og að rýma þurfi allt landið. „Fólk á að skilja eftir allt sitt og einungis taka með tvær ferðatöskur á mann í samræmi við reglur flugfélaga.“ (bls. 17) Flytja á alla Íslendinga til Þýskalands þar sem „Þjóðverjar hafa tekið við hundruðum þúsunda flóttamanna undanfarin ár […] [og] eru einfaldlega með þá reynslu og innviði sem til þarf.“ (bls. 17) Er um „[n]eyðarkall frá heilli þjóð“ að ræða (bls. 19)

Hér er liggur í augum „úti“ 1 að tengja við flóttamannavanda síðustu ára sem náði hámarki árið 2015 og það sumpart vegna orða Frau Merkel: „wir schaffen es“ 2. Ófáir hafa og reynt að höfða til samvisku „vonda fólksins“ með því að dikta upp aðstæður á prenti sem eiga að sýna fram á að mörlandinn gæti lent í þannig aðstæðum að hann þyrfti að flýja land og væri upp á náð og miskunn velviljaðra nágranna kominn.

Ekki er allt sem sýnist.

Hér er vert að hafa í huga að fyrsti hluti á sér stað á undan öðrum hluta. Nánar tiltekið, eins og kaflaheiti gefa til kynna, gerast atburðir þeir sem lýst er á blaðsíðum 29 til 157 eða þar um bil áður en Ísland er rýmt og þetta verður raunin:

Frá og með í nótt verður Tempelhof-völlur skilgreindur sem flóttamannabúðir. Íslenska þjóðin verður flutt á þennan völl. Börn, fullorðnir og ellilífeyrisþegar. Allir!“ (bls. 121)

Enda er „Reykjavík […] tifandi tímasprengja og við vitum hvenær sprengjan springur.“ (bls. 123)

Hér mælir Ragnar Guðmundsson verkefnisstjóri Almannavarna á fundi með fulltrúum Kaldakols og Kötlu í Berlín. Er það eitthvað sem vart„[g]at talist eðlilegt eðlilegt að fjárfestar væru að funda með fulltrúum Almannavarna Íslands.“ (bls. 145)

Áður en þessi orð eru látin falla er stöðugt ýjað að því í texta að Tempelhof-völlurinn og yfirvofandi náttúruhamfarir, landkynningin og listaverk Kolbrúnar XL tengist og að

„Heil þjóð gæti týnst þarna inni“ (bls. 87)

Og að

Innan hans væri hægt að koma allri 101 Reykjavík með gömlu höfninni, líka [A]usturbænum alveg að Snorrabraut. (bls. 87)

Og nú skildi Katla Rán allt í einu hvað var svona íslenskt við þetta umhverfi: þessi hrá auðn, þetta yfirdrifna, nánast yfirþyrmandi pláss á hvern einstakling. (bls. 89)

Hvað gerist þegar íslenska þjóðin er flutt í heilu lagi til Berlínar“ (bls. 100)

Á föstudaginn næstkomandi mun þessi heimsfræga listakona [Kolbrún XL] frumsýna nýtt verk í íslenska sendiráðinu, í tilefni af gríðarstórri íslenskri listahátíð sem brátt mun eiga sér stað í Berlín. Listahátíð af þvílíkri stærðargráðu að í raun má segja að allt Ísland verði flutt til Berlínar. (bls. 100)

Síðasta tilvitnun er úr fréttatilkynningu sem setur fram aðra vinkla á söguna. Aðalvinkillinn og ramminn er bersýnilega yfirvofandi náttúruhamfarir og rýming Íslands sem spyrða má við flóttamannavandann. Á það vel við þar sem svo vill til að Tempelhof -flugstöðvarbyggingin var einmitt notuð undir flóttafólk. Hér er virðist því um nokkuð dæmigerða „hvað ef“ sögu að ræða. Sú er þó, líkt og ráða má af tilvitnunum þeim sem valdar voru, ekki raunin. Fléttan er önnur. Hinir meginvinklar sögunnar hverfast um ímynd Íslands, Íslendinga og umhverfið enda segir Kolbrún XL við frumsýningu verksins.

Íslendingar eru mestu umhverfissóðar sem veraldarsagan hefur alið af sér […] Pínulítil eyja lengst norður í ballarhafi. Óhemju dýrt og orkufrekt að flytja birgðir til okkar en samt flytjum við inn rafmagnstæki, bifreiðar og olíu eins og enginn sér morgundagurinn. Íslendingar eru mestu olíuneytendur jarðar miðað við höfðatölu. Ef allir jarðarbúar höguðu sér eins og Íslendingar þyrfti mannkynið sex jarðhnetti til að standa undir því sukki öllu. En hvað ef … hvað ef öll þjóðin yrði flutt á Tempelhof-flugvöll?“ (bls. 112 og 113)

Til að koma að ímyndinni þá er þetta að finna í áður notaðri fréttatilkynningu:

Á Íslandi búa rúmlega þrjú hundruð þúsund manns, þekkt fyrir sjálfstæði sitt framkvæmdagleði og einstaklingshyggju. Íslendingar eru lifandi dæmi um það hvernig þróunarkenning Darwins virkar. Kynslóð eftir kynslóð hefur lifað af mikil harðindi, slæm veðurskilyrði og veikindi á þessari harðbýlu eyju í Norður-Atlantshafi. (bls. 100)

Fleiri viðlíka og kunnuglegar lýsingar á ágæti Íslands og Frónbúans eru víða í verki og eru ósjaldan spyrtar saman við þá táknmynd náttúrusamhljóms, sköpunar, (víkinga)hreysti sem finna má hjá þýskum ástmögum Íslands og ímyndarsmiðum. Líka smá 2007-Stimmung hér á ferð.

Björn Eisbein, þýskur „þunnhærður sláni“ (bls. 76) „[a]llt í fari hans […] mótsagnakennt; álappalegur en samt […] vel klæddur og barnslega kátur“. (bls.77) er sú persóna sem lætur mest til sín taka þegar kemur að Íslandsklisjum. Hann er doktor í norrænum fræðum og reyndur í viðskipta- og stjórnmálalífi með langan ferli að baki í fjölmiðlum og einn af innstu koppum í búri hjá Kaldakoli. Að vísu er Íslandsaðdáun hans ekki alltaf trúverðug þar sem hann virkar helst til yfirdrifinn og mótsagnakenndur, eins konar spéspegill sem hefir orð á því hve Ísland sé „ameríkaniserað, ekkert nema bensínsjoppur og hamborgarastaðir og lítið sem minnti á Gretti sterka og Snorra Sturluson.“ (bls. 78) Hann þérar og notar „einkennilega samsett orð sem […] eins og óþolanleg.“ (bls. 77) Hann talar málfræðilega kórrétta íslensku en segir samt að eitthvað liggi í augum úti ekki uppi! Raunar er gegnumgangandi ímyndarniðurbrot að verki í verki.

Það er nokkuð skondið að einmitt þessi Björn skuli negla hina ljóshærðu íslensku Lísu Dóru sem á í hjónabandserfiðleikum. Hún og Jóhann eiginmaður hennar ná ekki saman sem skyldi og verður hann einmitt vitni að þessu:

þetta reyndust vera rasskinnar konu, óvenju stórar því þær flöttust út á glerinu eins og risastórar hvítar pönnukökur. Við rasskinnarnar loddu eistu sem hreyfðust nær og fjær eins og pendúlar fastir við loðna fótleggi, hálfklædda í jakkafatabuxur og karlmannsskó en þrengdu sér núna á milli snjóhvítra læra og leggja í leðurstígvélum“ (bls. 129-130)

Ámóta mótsagnir eru upp á teningnum þegar kemur að ímynd landans og eins og hann kemur fram í verkinu. Það er sem skapandi náttúrubarn og svo pylsugleypandi hjassi. Eins og nú þegar hefir verið tæpt á hafa persónur verksins oft gróteska drætti. Oftar en ekki eru persónur búlduleitar, bústnar, þéttvaxnar, hnellnar fitubollur, hlussutussur og mörfjöll. Er orðfærið einatt á neikvæðum nótum. Ágætt dæmi er Gummi Bowie sem er grár og eins og uppblásið sjóreknið lík með tóbaksgula fingur og feitan rass krumpaðan af lyfjaáti (bls. 59). Hann er jafnframt nefndur mörfjallið og „hvalur í mannsmynd“(bls. 141).

Þess fyrir utan er téður Guðmundur blaðasnápur sem telur sig vita að eitthvað gruggugt sé að finna í Algjöru Íslandi. Hann er hluti af fortíð Kötlu frá þeim tíma þegar „það að reyna að klæða dauðadrukkna konu úr nærbuxunum […] var  […] í besta falli fyndin saga á mánudegi, ein af milljón smáskeinum á sál ungrar manneskju.“ (bls. 56) Sumsé andstætt þeim veruleika sem Sissú lifir í með Free the Nipple-herferðinni, netfíkn, sjálfum og að vita ekki hvað „það þýðir að vera sell-át.“ (bls. 138) Þess fyrir utan er hún í Berlín með Gumma Bowie sem aðstoðarkona hans og leitast við að koma upp um meint samsæri Kaldakols. Þau kynntust í meðferð þar sem hann var við áfengis og vímuefnafíkn, hún við tölvufíkn.

Hinn vinkillinn sem minnst var á tengist ímynd íslensks samfélags. Eins og alþjóð veit er iðulega reynt að telja fólki trú um að landið og landinn séu hip og kúl og í æðum þeirra renni víkingablóð. Flestar samfélagslýsingar verksins stangast á við þá mynd eins og þessi af ferð Kötu til Austur-Berlínar 1989.

skorturinn, fábreytnin og ömurlegar skreytingarnar inni á skemmtistaðnum leiddu hugann að einsleitri Reykjavík. Salurinn minnti hana á Hótel Borg við Austurvöll og einkennisbúningarnir á ódýru svörtu jakkafötin sem íslenskir karlmann klæddust gjarnan. (bls. 71)

hún saknaði lyktarinnar af Tyrkjakebab, pönki og leðurhommum. Hún þráði að sjá heimatilbúin plaköt og grafíti. Hún þráði allt sem minnti hana ekki á ógeðslegan fyllerístúr niður Laugaveginn. (bls. 71)

Og hér 2018:

Af orðaskiptum skildist Kötlu strax að hér væru Íslendingar á ferð en þeir höguðu sér þó ekki eins og Íslendingar gera alla jafna í stuttum utanlandsferðum, hér var enginn í alsælukasti yfir ódýrum bjór eða með troðfulla plastpoka merkta Primark og H&M í fanginu. (bls. 74)

Væminn ilmur af snarkandi hamborgurum í bland við súran tóbaksreyk minnti Dóru Lísu á prump undir sæng, dauninn úr svefnherbergi foreldra hennar á Akranesi þegar hún var lítil. Fyrir henni var þetta hin eina sanna lykt af íslensku þjóðinni. (bls. 103)

Og það vs. þetta:

Þessar venjulegu klisjur um Ísland: Brennivín, heitir pottar, hákarl, lambakjöt, sviðakjammar og harðfiskur. Flissandi krakkar í of stórum lopapeysum fyrir framan fossa. Ljóshærðar konur sem gáfu í skyn að þær væru til í allt en samt ekki, sífrandi tónlistarmenn með kassagítara, ljósmyndir af smáhestum í neðanjarðarlestum, silfraðar blöðrur í líki lunda, gosbrunnur sem minnti á Geysi og yfirleitt allt sem minnti á vatn, eld og ís. (bls. 86)

ÞRIÐJI HLUTI: LOKAORÐ

Til að draga þetta saman má líta á sem svo að megin vinklar sögunnar séu samtímaviðburðir eða samtímaviðburður sem tekist er á við með óvæntri nálgun og svo Ísland, ímynd þess og þá anti-ímynd þess.

Þess verður einnig að geta að sagan leiðir lesandann á fleiri slóðir í hliðarsögum sem þó tengjast meginvinklum. Sögulegar tengingar sem notast er við eru flestar ágætar og af þeim er nóg að taka: Berlínarmúrinn, nasisminn, DDR, loftbrúin og fleira sem felur í sér útilokun, eða að vera eyland og fléttast saman við söguna. Til að mynda var á tímum skiptingar Berlínar hægt að horfa yfir til Austur-Berlínar á þar til gerðum pöllum. Slíkt kallast á við þessa mynd af Algjöru Íslandi:

Það var hægt að horfa í gegnum glerið utan frá svo Íslendingarnir fyrir innan gerðu sér ekki grein fyrir því að það var fylgst með þeim. Það virtist almennt heilla ferðamenn að geta horft óáreittir á íslensku þjóðina án þess að hún yrði þess vör, þetta var einföld skemmtun sem minnti á eitthvað sem gat hafa átt sér stað fyrir tíma internetsins. (bls. 225)

Mynd sem minnir síðan óneitanlega á Bókasafn ömmu Huldar. Þar er einnig talað um listaverk þar sem fjármagnsöflin ákveða að sýna líf venjulegs fólks í Gullbúrinu, sem er íbúðarblokk í eigu þeirra. Hafa það til sýnis. Og það er kapítalið sem ræður.

Þetta hlýtur einnig að kallast á við listaverk þar sem listamaðurinn er til sýnis. Vera má að nærtækast sé að benda á þetta í því samhengi.

Eins og lög gera ráð fyrir í staðleysu er mikið um samtíma- og sögulegar vísanir

Það eru takmörk fyrir því hvað fólk getur melt af táknum eftir allt sem búið er að gerast á síðustu árum. Steypuveggur hefur varla teljandi áhrif í samanburði við skotárásir á skemmtistaði eða vörubíla sem aka rakleitt inn í mannfjölda. Fólk lyftir varla brúnum lengur en í nokkra klukkutíma, það er alltaf eitthvað nýtt að gerast! (bls. 196)

Að líkja Algjört Ísland-múrnum við Berlínarmúrinn er álíka einfeldnislegt og þegar fólk bendlar Hitler við nútímastjórnmál. (bls. 197)

Á sama tíma þjónaði fjölmiðlanefnd Doktors Björns gjarna minna gagnrýnum fjölmiðlamönnum sem voru ginkeyptir fyrir klisjum um land og þjóð og fékk þá til að matreiða allt eftir kúnstarinnar reglum ofan í Þjóðverja. En oftast var fréttamönnum einfaldlega látið í té svo mikið af ruglingslegum upplýsingum að þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Hvað voru sannar fréttir, hvað var áróður? Og var nokkuð hægt að tala um áróður í krúttlegu lýðræðisríki á borð við Ísland þar sem allir þekktu alla. (bls. 201)

Það er also af mörgu að taka í þessu verki Þórarins. Það hefði auðveldlega mátt taka fleiri atriði fyrir. Oft eru vísanirnar óbeinar; atburðir sögunar draga dám af viðburðum án þess að umræða eða atburðir þeir sem vísað er til séu notaðir í beinum samanburði.

Þetta er nokkuð snjöll saga þótt tengingarnar séu augljósar og að eitthvað sé um villur. Villurnar má sumar fyrirgefa sakir þess að þeim er miðlað í gegnum persónum sem getur jú eins og flestum skjöplast. Auk þess skipta þær ekki máli fyrir framvindu sögunnar.

Framvindunni svipar til sakamálasagna þar sem glæpurinn er smátt og smátt afhjúpaður þótt sæmilega greindum lesanda ætti að vera hægðarleikur að átta sig á hver glæpurinn, hver er sekur og hverju sé leitast við að miðla með frásögninni.

Það er óhætt að skella frumleikastimpli á verk fyrir nokkuð ferska nálgun á viðfangsefnin og pólitíkina (sagan er vissulega pólitísk) þótt ekki sé beinlínis stílsnilld fyrir að fara. Sagan er stíllega á svipuðu kaliberi og góðar sakamálasögur þótt orðfæri hér sé gildishlaðnara.

Í Bókasafni ömmu Huldar tekur amma Huld svona til orða: „Sumum bókum þarf að smakka á sem snöggvast, sagði hún [Huld], aðrar þarf að gleypa í heilu lagi, loks eru þær sem þarf að japla á og melta síðan.“ (bls.71)

Það er auðvitað lesandans að ákveða hvar í flokk þessa má skipa. Líkast til er þó fyrstnefnda lýsingin nærri lagi. Það er vissulega um margvíslegar tengingar að ræða í sögunni, vissulega er mikið um að vera. Ekkert af því er þó neitt sérstaklega flókið; auðvelt er fyrir flesta sæmilega vel að sér að tengja og skilja vísanirnar og hvað vakir fyrir höfundi. Þetta er verk sem segir okkur eitthvað sem við vitum flest nú þegar; það er kapítalið sem ræður för, hrokafullir fjárfestar, miskunnarlaus fjárfestingarfyrirtæki, stórmennskubrjálæði sem segir „[v]ísindin geta verið afstæð, eins og hvað annað“ (bls. 79) eins og markaðskonan, Sigurbjörg Erla Sigurðardóttir og ein af Kaldakols teyminu segir. Margt minnir hið fræga 2007. Boðskapurinn er auðvitað sá að ef ekkert er að gert, ekki er spyrnt við fæti, gæti allt farið í kaldakol.

Aukahluti lokaorða

Í Berlínarhluta verksins er stuðst við staðreyndir um Þýskaland og Berlín og er farið rétt með þær flestar. Þar er þó að finna hvimleiðar villur sem skipta ekki máli fyrir söguna en geta farið í taugarnar á þeim sem þekkir til, ekki þekkir sig eins og sagt er á einum stað í verkinu. Það kemur úr þýsku: sich kennen.

Vel hugsanlega er þetta viðhorf full ferkantað, full mikið Ritter Sport eða „Quadratisch. Praktisch. Gut“ eins og því ágæta súkkulaði er lýst. En Ordnung muss sein. Hér eru því nokkrar villur sem fundust og eru hvimleiðar:

-„Jóhann og Hákon voru að ljúka við að dragasvart segl ofur varlega yfir listaverk Kollu XL í íslenska sendiráðinu í Berlín.“ (bls. 82) Sýningin ætti sér ekki stað í íslenska sendiráðinu. Þar kæmist vart fyrir nóg fólk. Sýning sem þessi ætti sér stað í Felleshus.

– Það er ekkert til sem heitir norræna sendiráðið. Það er talað um norrænu sendiráðin og Felleshus sem er samkomusalur/hús norrænu sendiráðanna. Þar eru sýningar allajafna haldnar.

-Kaffe Tod. Á þýsku er kaffi skrifað svona: Kaffee. Þetta er á bls. 64.

-Orðið gata er skrifað Straße á þýsku ekki Strasse. Vissulega má réttlæta íslenska stafsetningu hér og fjarveru Eszett-bókstafsins.

-Á bls. 67: Maður velur af handahófi ekki að handahófi.

-Á bls. 73: Orðið nasisti er skrifað með litlum staf.

-Er árið 1970 þegar Led Zeppelin spilaði í Laugardalshöll upp úr miðri síðustu öld?

-Á bls. 87 hefir Hálfdán hefir orð á að Tempelhof-byggingin sé rúmlega kílómetri á á breidd. Það er hún ekki. Hún er kílómetri á lengd.

-Á bls. 194: Friðrik mikli var konungur ekki keisari.

Innri villur má einnig finna í sögunni:

-Á bls. 82 er Katla Rán sögð hafa verið viðloðandi auglýsingabransann í þrjátíu ár sem stenst ekki þar sem hún er ekki tengd bransanum þegar hún er í Berlín 1989. Sagan gerist 2018 og getur því ekki verið um þrjátíu ár að ræða.

-Öllum íslenskum kortum er lokað fyrir utan algjört Ísland og virkar því vart að Gummi Bowie fái pening frá erlendum fjölmiðlum fyrir að flytja öðruvísi fréttir af Algjöru Íslandi, neikvæðari fréttir um listaverkið. Nema hann fái aurinn í beinhörðum peningum.

Betri prófarkarlestur hefði átt á hindra þessar hvimleiðu villur.

   [ + ]

1. Er hér vitnað í Einar Örn og Purrk Pillnikk.
2. Þetta er ósvífin sjálfhverfa.