Mynd tók Yvie Ratzmann

Úr Flórída


Þegar ég kom heim frá Treptow, var maðurinn C.
vaknaður og beið mín í eldhúsinu. Teiknaði hreindýr
með lekandi skotsár á milli augnanna. Ég horfði á
hann og hugsaði um hreindýrasár, kínetíska orku og
frumur sem muna, stjarfa, mundi þá allt í einu
textann, lagið um sakúru, sakúru og samúræ sem er
andvaka, kirsuberjablóm.

Ég horfðist í augu við líflaust augnaráð hreindýrs á
striga, lokaði augunum og opnaði þau aftur. Tíminn
hafði liðið og það var reykingarlykt á skrifstofunni
þar sem ég opnaði augun. This works, almost every
time, much easier –- sagði læknirinn og bankaði í
borðið.

Læknirinn lyktaði af ódýrum frönskum rakspíra,
sígarettum og reykelsi. Þegar hann stóð upp
sveiflaðist typpið á honum eins og pendúll undir
joggingbuxunum. Fingurnir voru kaldir eins og
kvikasilfur í mæli. Hann horfði upp á milli fótanna á
mér og blikkaði mig, you sure look
depressed.