Pólitísk ljóðlist fyllir mig von.
Allt er mögulegt í pólitískri ljóðlist.
Valhopp ímyndunaraflsins kemur í stað yfirvalda.
Pólitísk ljóðlist ofsækir ekki minnihlutahópa nema í undantekningatilfellum:
Annað hvort minnist hún ekki á þá, eða hún dásamar þá,
oftast nær. Pólitísk ljóðlist dáist að framkvæmdum mannanna.
Ljóðskáldin skrifa eins og það sé framkvæmd, undarlega
óvirk tegund framkvæmdar, eins og að ímynda sér að maður skokki.
Pólitísk ljóðlist er bara áhrifarík
þegar hún er skrifuð að ósk yfirvalda,
eftir skilmálum yfirvalda,
og þulin í hljóðnema í eigu yfirvalda
fyrir framan aragrúa hversdagsfólks,
á leikvangi í eigu yfirvalda,
sem klappa fyrir ljóðunum og yfirvöldunum
vegna þess að þau eru þjóðelskir borgarar
í eigu ímyndarglaðra áróðursmeistara yfirvalda,
góðra yfirvalda, ljúfra yfirvalda, æstra yfirvalda,
karlrembdra, vöðvaskapandi, barnamatandi yfirvalda
og meira að segja hér á leikvangi yfirvaldanna sjálfra
kemur pólitíska ljóðskáldið að einu pínulitlu nærri því ósýnilegu
„fokkjú“ ætlað yfirvöldunum, sem allir
klappandi áhorfendur taka eftir og skilja
og þeir klappa hærra en nokkru sinni
og ljóðskáldið má gera þetta vegna þess að
yfirvöldin nenna ekki að standa í því að þjálfa
nýtt ljóðskáld. Pólitísk ljóðlist eftir ljóðskáld sem
ekki tengjast yfirvöldum er innantóm og tilgerðarleg
óraþvælu getuleysi kvenleg eins og Percy Bysshe
Shelley. Borgarafundirnir eru fullir af kjökrandi blómum.
Kurteislegar samræður stefna burt frá ógleðivekjandi
staðreyndum linnulausrar nýlendustefnu frá því Evrópa orti
tvö stórkostleg ljóð sem heita Ameríka og Afríka,
með það fyrir augum að drepa innfædda.
Ægistórar og auðar sléttur fullar af byssuskotnum vísundum,
hendur verkamanna skornar af öðrum til viðvörunar
eru ekki kurteisleg umræðuefni; þær eru áróður
til þess ætlaður að hræða fólk út í hungursneyð.
Pólitísk ljóðlist er stundum af öðru tagi en hversdagsmálið
til að sýna hversu heimskt og þrælslundað hversdagsmálið er í raun og veru.
Eigur þeirra eru eins og eigur vegna þess að dauðinn á alla,
en dauðinn á ekki geislaspilarann; hann þykist deyja
svo þú verðir að kaupa nýjan. Vélar eru gerðar til að þú þarfnist þeirra;
þörf þín fyrir vélina kemur í stað þarfarinnar sem þú hafðir áður
en þetta færði þig úr húsi, inn á
almannarýmið, sem kostar 11 sent á mínútuna; þú hefur ekki efni á því
að borga samtímis leigu á þínu prívatrými og
borga tollinn fyrir notkun á almannarýminu, þannig að það er líklega best
að fara bara heim, eða halda sig heima, eða bara
fara á einhvern fátæklingastað og skemmta sér ókeypis:
Þar nær enginn í þig nema lögreglan.
Pólitísk ljóðlist getur verið jafn töff og síðkjóll frá frægum hönnuði
gerður úr gömlum dagblöðum sem utangarðsmaður hefur sofið á,
hvers þvaglekar eru dómur yfir nýjum lygum forsetans.
Stundum er pólitísk ljóðlist neytandi í heimsklassa
og vinna hennar er að versla þar til hún hrekkur upp af
við ástundun markaðsrannsókna fyrir heildsala framtíðarinnar
í leit að nýjum leiðum til að sýna vörur sínar (hugmyndafræðilegar
vörur, í þessu tilfelli) sem ekki er beinlínis hægt að nota
á þjóð sem hótar borgurum sínum með vergangi
svo þeir fari ekki í verkfall til að fá mannsæmandi laun.
Það er ekki pláss fyrir allt í samfélaginu,
sérstaklega ekki andfélagslega ljóðlist um „sameiginleg“ „gildi“.
Pólitísk ljóðlist fullyrðir að þörfin fyrir peninga sé sameiginlegt
gildi. Auglýsingar með kynþokkafullu fólki á tvítugsaldri
eru pólitísk ljóðlist um fínni drætti samfélagsins
sem fá peninga bara fyrir að vera svona girnileg
og hefja sig þar með yfir kapítalismann, sem lætur alla vinna,
og fyrst þau eru betri en hann, geta þau verið fulltrúar hans,
og það verða þau að vera, til að borga leiguna.
Pólitísk ljóðlist getur verið kjálki sem
tyggur upplýsingar svo að einhver annar
geti gleypt við þeim án þess að tyggja, og hann veit kannski ekki
einu sinni að lífsskoðunum hans hefur endanlega verið breytt.
Upplifanir sem við gleymum breyta okkur
á máta sem hefur fullkominn áhrif á hegðun okkar
og sem er aldrei hægt að sanna eða afsanna.
Svona er pólitísk ljóðlist slungin.
Pólitísk ljóðlist getur skapað nýjar innstungur og klær
þar sem hugmyndafræðilegur vélbúnaður getur leitað sambands.
Þú getur breytt heiminum með því að sofna og dreyma
dularfulla sýn senda af Guði í pólitískri ljóðlist
sem var samin á miðöldum til að útskýra vald
sem aukaverkun af völdum hins guðdómlega og góðfúsa internets.
Pólitísk ljóðlist mun hafa áhrif þegar
við höfum fengið yfirvöld sem við elskum nóg til að ljúga fyrir.
Pólitísk ljóðlist mun skapa heimsins bestu yfirvöld
sem skrifræðið getur grafið upp úr draumi.