Andrésblaðakenningin

Ég var á leiðinni í partý með félaga mínum. Við vorum eins ólíkir og hægt er að ímynda sér, hann var nýútskrifaður úr lögfræði á þeim tíma, fínn og frambærilegur, hefði ábyggilega verið kosinn „líklegastur til að verða nýríkur“ í grunnskóla hefði það verið valmöguleiki. Ég var hins vegar að læra ritlist og á milli starfa, framtíðarhorfurnar álíka bjartar og nóttin í janúar.

Við vorum ekki á leiðinni í hvaða partý sem er. Félagi minn var nefnilega góður vinur Áslaugar Örnu, ritara Sjálfstæðisflokksins, og þetta kvöldið var hún að halda upp á að hafa landað öðru sæti í prófkjöri í Reykjavík norður.

Við vorum á leiðinni í sjallapartý.

Um leið og ég gekk inn um dyrnar fann ég að þarna átti ég ekki heima. Karlarnir voru í dýrum jakkafötum og klæðnaður kvennanna ekki síðri. Ég var hins vegar klæddur eins og maður sem spyr ókunnuga hvort þeir eigi nokkuð spítt aflögu. Mér fannst eins og allir væru að horfa á mig. Eins og allir væru að dæma mig. Ætli þau viti að ég sé marxisti? hugsaði ég og bjóst hálfpartinn við að mér yrði vísað út. En allt kom fyrir ekki.

Íbúðin var ríkuleg og partýið eftir því: á veggjum héngu gríðarstór málverk, eldhúsinnréttingin líklega dýrari en húsið sem ég ólst upp í og veitingar sem maður í minni virðingarstöðu á ekki að venjast. Svo var frítt áfengi í boði, þangað gekk ég rakleiðis.

En ástæðan fyrir því að ég taldi félaga minn á að taka mig með var ekki ókeypis bjór, þó að hann hafi ekki skemmt fyrir. Ástæðan var göfugri en svo: Ég var mættur í nafni vísindanna. Ég var nefnilega með kenningu sem mig langaði að sannreyna. Hún var sú að fólk sem las mikið af Andrésblöðum í æsku væri líklegra til að vera vinstri sinnað en þau sem lásu þau ekki. Ástæðan fyrir því var einföld: Jóakim Aðalönd. Holdgervingur alls þess illa sem oft á tíðum er bendlað við þá ríku. Miskunnarlaus sankar hann að sér gríðarlegum peningafúlgum sem hann rígheldur í með öllum ráðum. Einungis brotabrot af því sem hann eignast fer aftur í umferð, restin endar í risavöxnum peningatanki. Brauðmolakenningin var því álíka stöndug í Andabæ og í raunheimum. Jóakim arðrænir Andrés frænda sinn, borgar honum krónu fyrir erfiða dagsvinnu, nískan og mannvonskan í fyrirrúmi. Andstyggileiki Jóakims Aðalandar hefur þannig innrætt óbeit á yfirstéttinni í hugum fjölda barna í gegnum árin. Eða svo hljóðaði kenningin.

Þegar vinur minn sagðist ætla í prófkjörspartý hjá Áslaugu Örnu var ég því fljótur að bjóða félagsskap minn: Hópur af ungu frjálshyggjufólki í lokuðu rými var kjörlendi fyrir óformlega rannsókn á lögmæti Andrésblaðakenningarinnar.

Ég varð fljótt viðskila við félaga minn, eins og vill oft gerast í partýum. Drakk bjórinn minn í rólegheitum og mat aðstæður. Fylgdist aðeins með Atla Fannari, sem sat einsamall að skoða Twitter, líklega í leit að næstu frétt fyrir Nútímann. Ég manaði mig til að hefja rannsóknina, kláraði bjórinn, opnaði annan, fór loks af stað.

Ég nálgaðist ungan, myndarlegan mann með óaðfinnanlega hárgreiðslu.

„Sæll. Brynjólfur heiti ég,“ sagði ég og tók í höndina á honum.

„Sæll,“ svaraði hann. „Stefán.“

„Ég var að spá, lastu Andrésblöð í æsku?“

Hann horfði á mig eins og ég hefði stigið á tærnar á honum og hafði sig svo á brott án þess að svara.

Sjálfstæðisbjórar renna í gegn eins og bjórar af öðrum pólitískum toga og ég fór því næst á klósettið. Það var hins vegar upptekið og á undan mér í röðinni var stúlka á þrítugsaldri, ljóshærð og hávaxin. Hún brosti til mín þegar ég tók mér stöðu á eftir henni og ég greip tækifærið til frekari samskipta.

„Hæ, hæ,“ sagði ég.

Hún brosti til mín aftur.

„Þetta var flott hjá henni Áslaugu.“

„Já,“ svaraði hún.

„Öflug.“

„Mhm.“

„Heyrðu, last þú nokkuð Andrésblöð í æsku?“

Í sömu andrá opnuðust klósettdyrnar. Út gekk Guðlaugur Þór og stúlkan dreif sig inn án þess að svara. Ég var ekki með nægilegt áfengi í blóðinu til að þora að tala við Guðlaug, auk þess sem mér reiknaðist til að hann hafi verið ansi stálpaður þegar Andrésblöðin komu fyrst út á íslensku um miðbik níunda áratugarins.

Eftir klósettferðina fann ég félaga minn aftur. Hann var að spjalla við tvo aðra menn um verðtrygginguna. Ég stóð þarna og þóttist hlusta í smástund, kinkaði kolli af og til svona til að sýnast vera með á nótunum. Ég pikkaði loks í annan þeirra.

„Hey, last þú Andrés önd í æsku?“

„Nei,“ svaraði hann. Þannig lauk kunningskap okkar það kvöldið.

Þannig gekk þetta fyrir sig. Enginn sem ég kom að máli við vildi játa á sig Andrésblaðalestur. Kenningin mín var hratt að verða að lögmáli.

Þegar líða tók á kvöldið var partýið orðið ansi líflegt. Inni í stofu var dansað við háværa popptónlist og yst í þeim skara sá ég Áslaugu Örnu. Ég var orðinn nægilega drukkinn til þess að tala við hvern sem er og leyfði mér því að pikka í hana. Áslaug sneri sér við.

„Til hamingju!“ kallaði ég yfir tónlistina.

„Takk!“ svaraði hún.

„Lastu einhvern tímann Andrésblöð?“

„Hvað meinarðu? Komdu að dansa!“

Ég reiknaði með því að hún hefði ekki heyrt spurninguna fyrir skarkalanum og fannst því við hæfi að endurtaka hana. „Andrés önd! Last. Þú. Hann!?“

Áslaug hló, sneri sér við og hélt áfram dansinum.

Ég fylgdist aðeins með framtíðarleiðtogum landsins hrista skankana yfir ómþýðum tónum Rihönnu. Fór svo inn í eldhús og hringdi á leigubíl. Lét félaga minn vita að ég væri á förum, fékk mér eina snittu í viðbót, tróð inn á mig tveimur bjórum þegar enginn sá til og kom mér út í nóttina.

Rannsóknarstörfum mínum var lokið í bili.