Ég fékk nýlega í hendurnar skáldsöguna Ör sem er framlag Auðar Övu til jólabókaflóðsins þetta árið. Ég las bókina, komst að niðurstöðu og hófst handa við að skrifa um hana umfjöllun. Þegar sú vinna var langt komin fóru hins vegar að renna á mig tvær grímur. Ég fór að sjá aðrar greinar birtast um bókina sem allar áttu það sameiginlegt að mæra Ör í hæstu hæðir og ef marka mátti umfjöllunina var þessi bók Auðar stærsta aldan í bókaflóðinu þetta árið. Í hálfkláruðu greininni minni voru viðbrögðin hins vegar ekki nema rétt svo moðvolg enda hafði ég átt allt of auðvelt með að leggja bókina frá mér.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það hendir að ég er alls ósammála meginstraumnum um menningarverk enda tilheyri ég hinum lágværa minnihluta jarðarbúa sem er alls ekki hrifinn af Krúnuleikum George R.R. Martin. Sú reynsla kenndi mér á sínum tíma að skoðanir mínar (hversu oft sem mér er sagt að „ég þurfi bara að gefa þessu séns“) eru ekki líklegar til að breytast en ef ég ætla mér að ögra svo vinsælum parti af tíðarandanum er eins gott að ég hafi rök fyrir máli mínu á reiðum höndum.1 Ég renndi því í gegnum Ör aftur (og gladdist um leið mikið yfir því að bókin er eingöngu 200 bls, ekki fimm þykkir doðrantar) með rök kollega minna fyrir gæðum bókarinnar á bak við eyrað í tilraun til að uppgötva einhverja töfra sem ég hafði misst af við fyrsta lestur.
Ör fjallar um Jónas, eldri mann sem misst hefur fótanna í lífinu eftir erfiðan skilnað og harkalegar uppljóstranir fólksins í kringum hann. Óviss um allt frá tilgangi sínum í lífinu til eigin karlmennsku og virðis ákveður hann að fremja sjálfsmorð í fjarlægu landi. Söguþráðurinn er ekkert sérstaklega flókinn og aðaláherslan er á hvernig Jónas tekst á við áfall sem hann varð fyrir í tengslum við skilnaðinn og brotna sjálfsmynd í kjölfar þess, sérstaklega hvernig hann upplifir sjálfan sig sem karlmann. Fyrri þátturinn endurspeglast í titli og aðalsöguþræði bókarinnar en sá seinni er ekki síður áhugaverður í ljósi þess að þrátt fyrir að margar bækur hafi verið skrifaðar um hvað það sé að vera karlmaður, þá er það sjaldnast kona sem heldur um pennann.
Þetta er áhugaverður vinkill í ljósi þess að í meðförum Auðar verður karlmennskan öðruvísi en við eigum að venjast frá allra einföldustu staðalímyndunum. Jónas ferðast til að mynda með borvél með sér vegna þess að hann er vanur því að laga hluti fyrir konurnar í lífi sínu. Hann speglar sig í raun að mörgu leyti í þessum konum, fyrrverandi eiginkonu sinni, móður og dóttur. Samskiptin við konurnar eru öll í uppnámi, elliglöp móður hans, skilnaðurinn og upplausn fjölskyldunnar í framhaldi af því hafa komið róti á líf hans. Það er áhugavert að sjá karlkyns persónu efast um karlmennsku sína á svo viðkvæman hátt því klassíska viðbragðið sem maður sér svo (alltof) oft t.d. í Hollywood-myndum er að bregðast við með því að berja frá sér, drekka í burtu sorgirnar eða aðrar hörkulegar leiðir til að endurheimta karlmennskuímyndina.
Þessi fínlega nálgun á karlmennskuna er með hápunktum bókarinnar en því miður er hún dregin jafnskjótt niður með því að hamra á því hvað langt sé síðan grey maðurinn fékk að sofa hjá. Hann veit upp á dag hvað er langt síðan, fer vel ofan í saumana á því hvað hann fékk mikið að ríða þegar hann var ungur og þegar hann loksins fær að sofa hjá aftur er það svo mikilvægt að það er tvítekið! Kynlíf er vissuleg mikilvægur partur af lífinu en klisjan að það sé ekki búið að „laga“ karlmanninn og sjálfsmyndina fyrr en hann fær að sofa hjá er ekkert sérstaklega spennandi, allra síst þegar nálgunin er svo klaufaleg.
Hitt aðalumfjöllunarefni bókarinnar er hvernig maður tekst á við átök og hvernig það sem er brotið getur aldrei orðið samt aftur. Þetta er alltumlykjandi, titill bókarinnar vísar í húð sem vissulega er orðin heil en er þó ekki söm, aðalpersónan jafnar sig hægt og rólega á áfalli en er þó breytt eftir á, auk þess sem viðkomandi leggur sig fram við að laga það sem er bilað í umhverfi sínu en hefur ekki tólin til að gera allt eins og áður var. Þetta eru vissulega áhugaverðar vangaveltur, eina vandamálið er að þetta er ítrekað svo oft að mér leið eins og ég væri kýld í andlitið af symbólisma. Þetta er ekkert sérstaklega flókin pæling og hún er endurtekin svo oft að það hálfa væri nóg. Það var ekki séns að missa af þessu, sama hvernig maður reyndi! Þar fyrir utan má ég til með að bæta við að hugmyndin um að fólk í forréttindastöðu fari til landa þar sem aðstæður eru erfiðar, kynnist fólki sem lent hefur í skelfilegum atburðum, læri af þeim og „lagi“ vandamál sín með því að hjálpa þeim er hvorki frumleg né sérstaklega áhugaverð.
Ég get því samþykkt ýmislegt sem aðrir gagnrýnendur hafa sagt um bókina. Hún á vissulega fína spretti og það eru margir áhugaverðir punktar í henni, þrátt fyrir að ég sé ekki endilega sammála um hversu fimur stíllinn sé. Hins vegar breytir það því ekki að mér fannst, í hreinskilni sagt, ekkert sérstaklega gaman að lesa þessa bók. 2
Að lifa sig inn í bók og finna fyrir samkennd með persónunum er ekki nauðsynlegt til að hafa gaman af góðum bókum, en í flestum tilfellum eykur það á ánægjuna. Þetta hefur líka bara að gera með sálfræðilega ferlið sem fer í gang við lestur. Sumir segja jafnvel að það að lesa bækur auki samkennd því við fáum æfingu í að setja okkur í annarra spor. Í öllu falli finnst mér skelfilegt að lesa bækur þegar mér er svo sama um persónurnar að ég fer hálfpartinn að vona að þær deyi í lokin, bara til að fá smá fútt í söguna. Ég las til dæmis nýlega bókina The Martian, sem gerð var bíómynd eftir með Matt Damon í aðalhlutverki. +++spoiler alert+++ Mér fannst bókin svo slöpp að ég vonaði innilega að aðalpersónan dæi úti í geimnum svo það væri eitthvað áhugavert við þessa annars einföldu bók. Að sama skapi fannst mér endirinn á The Girl With All The Gifts frábær. Það sem ég vildi sagt hafa er að ég var farin að vonast eftir því að Jónas léti verða af því að fremja sjálfsmorðið bara af því að það kæmi á óvart.
Eftir að hafa lesið bókina tvisvar og kynnt mér skoðanir fólks sem var hrifnara af henni en ég er því niðurstaðan óbreytt. Ör fær ekki húrrahróp frá mér heldur eingöngu máttlítið „meh“. Ég sé að vissu leyti hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé frábært verk og Auður á vissulega góða spretti en það er bara alltof lítið efni í sögunni til að fylla upp í þennan blaðsíðufjölda (sem þó er ekki sérlega mikill). Í stað þess að bæta meiru við færir seinni hluti bókarinnar manni eingöngu ítrekanir og endurtekningar, þó ég sé vissulega fegin að Auður forðist að leysa vandamálið eins og George R.R. Martin sem myndi bara bæta fleiri sögupersónum við til uppfyllingar!
1 Í mótþróakasti gegn því hvað allir voru sannfærðir um að ég væri að dæma GOT of harkalega haturlas ég allar bækurnar(!) í þeim eina tilgangi að geta rifist um þetta í partíum. Ef þið hafið klukkutíma eða tvo aflögu, hafið samband, ég er alltaf reiðubúinn að fræða þá sem tilbúnir eru til að hlusta á skoðanir mínar.
2 Til að halda neikvæðninni í skefjum vil ég bæta við að ég myndi hiklaust benda fólki á að lesa fyrri bækur Auðar í staðinn.