Er Bjartmar Guðlaugsson fulltrúi „fyndnu kynslóðarinnar“ í tónlistinni? Hann er fimm árum yngri en Pétur Gunnarsson, fæddur tveimur árum á eftir Steinunni Sigurðardóttur og tveimur á undan Einari Má. Þannig að hann er í tímarammanum. Og rúmast verk Bjartmars ekki líka í „konseptinu“? Þessi léttleiki sem hittir svo oft naglann á höfuðið í lýsingunni á okkur: lífsmáta, sögu og hvunndagsklikkun.
Konseptið skiptir máli, því fyndna kynslóðin var alltaf hlutmengi í aldurshópnum. Þau áttu jafnaldra sem hvorki vildu né reyndu að kalla fram bros eða hlátur. Bubbi Morthens er fjórum árum eldri en Bjartmar.
Í Kiljuviðtali 9. nóvember lýsir Bjartmar bók sinni „Þannig týnist tíminn“ sem „lífsreynslutengdri lygasögu“ Þar kemur líka fram að efni hennar hafi orðið til á löngum tíma, samhliða textasmíðinni. Þetta kemur vel heim og saman við formið, þar sem laustengdir kaflar, smámyndir af mannlífi og litríkum persónum sem sennilega var aldrei til nákvæmlega svona en sækir sérkenni sín örugglega í raunverulegt fólk, byggja smám saman upp mynd af veröld þess sem heldur á pennanum, en þó fyrst og fremst af honum sjálfum. Hvað hann sér, hvað honum þykir merkilegt, afstöðu hans til heimsins. Og þroska.
Þannig týnist tíminn er sem sagt nokkuð hreinræktuð skáldævisaga.
Útkoman er öllum til sóma. Bókin er fallegur gripur, fagurlega skreytt myndlist Bjartmars, sem ég hef ekki vit á hvar á heima á gæða- eða merkilegheitarófi þeirrar listgreinar. Sýnist samt að ég gæti vel hugsað mér mynd eftir hann í stofunni en myndi kannski ekki keyra langan veg til að fara á sýningu.
Meginmálið er líka fleygað söngtextum og textabrotum, en á þeim vettvangi hefur Bjartmar reist sér veglegasta minnisvarðann. Mig grunar reyndar að hann hafi á sínum bestu augnablikum komist þéttar upp að þjóðarsálinni en margir þeir sem meira er látið með. Og líkt og er um marga af umræddri kynslóð þá líður mat á mikilvægi Bjartmars ögn fyrir það hvað hann er sniðugur.
Það er einnig margt sniðugt í meginmáli bókarinnar og penni Bjartmars er lipur í óbundnu máli líka. Margar mannamyndir textans eru kostulegar og tíðarandastemmingin trúverðug og falleg. Það eru svo forréttindi Fáskrúðsfirðinga og Eyjamanna að geta sér til um fyrirmyndirnar. Hér býr Bjartmar að því sem hann lýsir á fleiri en einum stað í bókinni: hæfileika sínum til að gera sig ósýnilegan, hafa svo hægt um sig í heimi hinna fullorðnu að þau uggi ekki að sér og veiti honum óvart aðgang að leyndarmálum.
Afstaðan í textanum er hlý og nostalgíublandin, krydduð notalegri kómík. Manni verður hugsað til smásagna og þátta Jónasar Árnasonar, jafnvel til minningarrita Stefáns Jónssonar. Þessi fortíðarmynd er aldrei lituð eða skerpt með því að stilla henni upp sem andstæðu hins illa nútíma, eða þá með minnimáttarhroka gagnvart borgarlífinu, sem Bjartmar játar reyndar táningaást á líka. Skuggahliðar smábæja-, karlrembu- og vinnuhörkusamfélagsins birtast í sjónhendingu en fá ekki stranga dóma frekar en annað.
En það er sjálfsmyndin sem öllu skiptir. Hún birtist kannski helst í því hvernig hann lýsir því sem er umhverfis hann, en á þó til að tala um sjálfan sig. Sjaldnast þó mjög beint, og ekki mjög greinandi. Alla vega ekki sérlega skipulega.
Dæmi: Eftir að gera bráðskemmtilega grein fyrir vaknandi kynhvöt og einhverjum andvana fæddum atlögum að því að nálgast hitt kynið víkur talinu að öðru, og svo á bls. 159 fréttum við að „Það næði ekki nokkurri átt að það væri mér að kenna ef Birna Rós væri orðin ólétt“.
Bíddu, ha?!
Eins fannst mér ég hálfpartinn svikinn um að kynnast tónlist með Bjartmari. Heyra með honum í Bítlunum í fyrsta sinn. Hvað honum finnst skemmtilegt og (alls ekki síður) hvað leiðinlegt. Hvort hann viðurkenni einhverja skýra áhrifavalda. Þó dágóðu plássi sé varið í að lýsa tveimur kostulegum hljómsveitum þá er hann í hvorugri og engum sögum fer af fyrstu skrefunum á þeim ferli ef frá er talinn skemmtileg saga af þöglu teppabankarabandi. Samt er greinilegt að eyrun hafa opnast snemma, Bjartmar er ekki hár í loftinu þegar hann vill helst vera á kórsvölunum í kirkjunni. „Þá var ég í eins nánu sambandi við orgelið og kórinn og unnt var“ (74).
Fleira er hægt að sakna. Meira um smekk á bíómyndum og bókum. Og myndlist reyndar. Á móti kemur að myndlistarnámsferillinn er fyrirferðarmikill undir lokin. Söngvaskáldið Bjartmar bíður trúlega næstu bókar.
Þannig týnist tíminn er falleg og eiguleg bók. Full af hlýju og skemmtun og ánægjulegum myndum af heimi sem er við það að týnast. Þeir sem á annað borð kunna að meta Bjartmar Guðlaugsson munu finna þar eitthvað fyrir sig.
Og kunnum við það ekki öll?