Skepnan er löt eins og fallegt karldýr
og þrjósk eins og frumstætt kvendýr.
Sannast sagna fer skepnan daglega um óreiðuaugnablikin fjögur,
augnablikin fjögur þegar hægt er að virða hana fyrir sér
þar sem hún stendur – með höfuðið milli lappanna – og rýnir í sjóndeildarhringinn með grimmdarlegu auga,
augnablikin fjögur þegar krabbinn opnast:
dögun, hádegi, rökkur og nótt.
Fyrstu dropar steypiregnsins lemja bak hennar
þar til það dynur í húðinni eins og tveimur taktföstum hristum.
Á þessari stundu mætti hefja á loft ánægjulega ráðgátu,
líkt og lak eða friðarfána,
en flóð nautnalegrar grænku drekkir blautum hljóðunum
og tilbreytingarleysið ræðst inn í alltumlykjandi laufgöngin.
Lýsandi slóð hálfkaraðs draums,
kjötkveðjuhátíð sem hefst þegar haninn galar,
þokan sem hylur með ísgrímu sinni hneykslið á hitabeltisgresjunni,
hver einasti pálmi sem streymir blygðunarlaust fram í grænum vatnastrók;
þau bora sig með glóandi þríhyrningi inn í brjóstið á fyrstu vatnsberunum
og vatnssúlan þeytir gufum sínum í andlit sólarinnar, útsaumað af hana.
Þetta er hin hræðilega stund.
Þokugleyparnir hverfa
ofan í djúp fenjamýrinnar
og krókódíll gefur þeim ljúflega auga.
Þetta er hin hræðilega stund.
Síðasta skíma ljóssins í Yara
rekur hestana út í eðjuna.
Þetta er hin hræðilega stund.
Hænan geigvænlega fellur eins og loftsteinn
og allir drekka kaffið sitt.
Hvers megnug er sólin í þessu guðsvolaða þorpi?
Dagsverkin vefjast um hálsinn á mönnunum
meðan mjólkin drýpur í örvæntingu.
Hvers megnug er sólin í þessu guðsvolaða þorpi?
Sláttumennirnir sveifla sveðjunum af ofsafenginni nautn og höggva rjóður í skóginn,
græneðlan raunamædda stekkur með tilþrifum í blóðgusu,
sláttumennirnir bera með sér hlass af ljósi, og dökkna
uns þeir hafa tekið á sig litblæ egypskrar neðanjarðarhvelfingar.
Hver getur vænst miskunnar á slíkri stundu?
„Þungi eyjunnar“ (La isla en peso), í þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur, kemur út innan tíðar.