Heilög Aðventa og illskæð meðvirkni

Desemberpistill um leikhús

Bók Gunnars Gunnarssonar um eftirleitamanninn Benedikt varð tvisvar á vegi mínum næstliðnar vikur. Fyrst á aðventukvöldi í Grensáskirkju þar sem Möguleikhúsið sýndi leikgerð Öldu Arnardóttur á Aðventu Gunnars. Alda leikstýrði þessum einleik Péturs Eggerz byggðum á sögunni um Fjalla-Bensa og saman eru þau Alda og Pétur Möguleikhúsið. Fyrir alllöngu síðan er nefnilega liðin sú tíð að Möguleikhúsið hafði sitt eigið leikhús við Hlemm og sýndi þar fjölda sýninga sem margar voru sérstaklega gerðar fyrir börn og annað ungviði. Skyndilega var skorið á opinbera fjárstyrki til þessarar merku leiklistarstarfsemi svo þurfti að sníða stakk Möguleikhússins að öðrum vexti en leikhúss þess við Hlemm hafði boðið upp á. En glóðin í mögulegu leikhúsi kulnaði ekki og hún blossaði upp í ferðaleikhúsi þar sem Alda og Pétur eru allt í senn, leikstjórar og leikarar, framkvæmdastjórar og blaðafulltrúar, dramatúrgar, hljóð- og ljósastjórnendur, sviðsmenn og bílstjórar.

Stjarnvíddir og ískristallar einfaldleikans

Þegar minnst er á meistaranóvellu Gunnars Gunnarssonar um öræfaleitir að týndum sauðum á aðventu er algengast að talað sé um hve einföld frásögn hans sé í þessari sögu. Túlkun Péturs Eggerz á texta Gunnars leiddi fljótt í ljós að Aðventa er ekki bara einföld og blátt áfram lýsing á þrautseigju og trúmennsku eins manns. Alheimurinn og undirdjúp sálarinnar sveima allt um kring í þessari sögu. Ógnarkraftur öræfanáttúrunnar, óskir og vonir ungs manns sem brugðust endurómuðu í hverju orði sem fór um munn leikara Möguleikhússins. Framsögn Péturs var einkar vel unnin og einkenndist af öryggi þar sem hann fetaði sig í gegnum sveitalífs- og mannlýsingar sögunnar og þaðan innst til dala, upp til fjalla og loks niður í jörðina. Hraða- og styrkleikabreytingar voru heyrðist mér þaulhugsaðar og dýnamískar.

Það er mikill vandi að setja upp sýningu af þessu tagi. Einfaldleikinn klæðir að vísu Aðventu Gunnars þótt sagan sé margbrotin. En einleikur er fremur erfitt form og ekki gerir það léttara fyrir að hin dramatíska framvinda er í þessu tilviki nær öll innra með aðalpersónunni á sviðinu. Það eru átökin í innra lífi Benedikts sem gera verkið áhugavert á sviði og mér fannst túlkun Péturs á eftirleitamanninum skila þeim þætti sögunnar á afar fallegan hátt.

Um leikmynd Aðventu og búning Péturs í sýningunni, hvort tveggja verk Messíönu Tómasdóttur, væri hægast að segja hið sama og oft er haft á orði um bók Gunnars. Leikmyndin var afskaplega einföld við fyrstu sýn en í henni mátti greina flesta tóna sögunnar, stjarnvíddir og ístinda, snjókristalla og freðnar klappir; allir litir, form og mynstur valin og unnin af sérstakri kostgæfni. Búningur Péturs, íslenskur og internasjónal í senn, var ekki bara smekklegur og smart heldur undirstrikaði þroska og styrk Benedikts sem ber ekki tilfinningar sínar á torg heldur tekst á við þær í óbyggðum. Pétur Eggerz er maður þrekinn á velli og sterkur á að sjá svo veruleg hætta myndaðist á því að hann bæri þessa litlu leikmynd ofurliði þegar hann steig á svið. Hið öndverða gerðist. Smám saman varð Benedikt hans eitt með fagurri leikmynd og andi fjallamanns og óbyggðirnar spiluðu ómsterkan konsert sem stöku sinnum fékk nýjar víddir með tónlist og hljóðmynd Kristjáns Guðjónssonar.

Frá því ég sá og heyrði Aðventu á aðventukvöldi í Grensáskirkju hef ég orðið þess var að fleiri kirkjur hafa tekið framtak klerks og sóknarnefndar þar sér til eftirbreytni og auglýst sýningar á verkinu endurgjaldslaust fyrir þá sem njóta vilja. Góður kostur það og ég hvet alla sem unna góðum flutningi á merkum skáldskap að láta Aðventu Gunnars, Péturs, Öldu, Messíönu og Kristjáns ekki framhjá sér fara auglýsi kirkjurnar í nágrenni við þá sýningu Möguleikhússins.

Ís og snjór í fjólubláum aðventuskrúða

Aðventa Gunnars Gunnarssonar vitjaði mín á ný þegar mér barst í pósti frá norskum útgefanda þýðing Oskars Vistdal á bókinni um Fjalla-Bensa. Það er Samlaget sem gefur út, hét áður Det Norske Samlaget, og hefur um áralangt skeið einbeitt sér að því að láta prenta og dreifa bókum á nýnorsku. Útgáfan er prýdd teikningum Gunnars yngri Gunnarssonar, myndlistarmanns og teiknara.

Þýðing Oskars mun vera fyrsta norska versjónin sem út kemur af þessari miklu metsölubók. Má kannski skýra þann seinagang með því að Norðmenn eru margir allvel læsir á dönsku en á því máli birtist Aðventa sem fullunnin saga árið 1937. Frumútgáfa bókarinnar var hins vegar á þýsku árið áður þegar hún kom út í bókaflokknum Meisternovellen hjá Reclam Universal-Bibliothek í Leipzig. Í þeirri útgáfu hét hún Advent im Hochgebirge og hvert þýskt mannsbarn næstu áratugi þekkti þennan titil og margir þýskir menn og konur höfðu lesið bókina. Mér finnst sterkur hljómur í þýska titlinum og sakna svolítið öræfakraftsins í Aðventu einni og sér eins og bókin kallast á norrænum tungum. Og þegar sagan um Fjalla-Bensa var bók aprílmánaðar í Bandaríkjunum árið 1941 hafði hún fengið titilinn The Good Shepherd. Góður hirðir er Benedikt vissulega og allegóría Krists þar um nærtæk til að líkja frásögn Aðventu við. En í amríska titilinn skortir alla öræfatign og ógn og því gerði Hemingway sér grein fyrir þegar hann hafði sögu Gunnars að fyrirmynd og kallaði bók sína ekki bara Gamli maðurinn heldur Gamli maðurinn og hafið. Áður en ég skil alveg við Amríku get ég ekki stillt mig um að segja að mér finnst eitthvað ótrúlega írónískt við það að í sama mánuði og litterer Bandaríkjamenn kepptust við að lesa um góða hirðinn fengu þýskir dátar á leið á austurvígstöðvarnar eintak af Advent im Hochgebirge í bakpokann sinn þar sem bókin var lögð við hlið Mein Kampf.

Eins og leikmynd Messíönu í sýningu Möguleikhússins á Aðventu nær bókarkápa Advent í útgáfu Samlaget að fanga öræfa- og helgianda sögunnar. Ísinn, snjórinn og óbyggðirnar eru sveipaðar fjólubláum aðventukili og letrið á forsíðunni er gyllt. Bókin birtist semsé í viðeigandi helgiklæðum því að texti hennar ber mörg merki helgisagnar. Þýðing Oskars er látlaus en hljómfögur svo af ber og hann hefur ritað Eftirmála í þessa bók þar sem hann gerir góða grein fyrir ferli Gunnars Gunnarssonar og einkum þó sögu Aðventu. Að þessum orðum Oskars er mikill fengur fyrir norska lesendur því að verk Gunnars eru ekki neitt sérlega vel þekkt í Noregi. Hann stendur þar enn – eins og reyndar líka í Danmörku – í skugga meintrar nasískrar villu. Mér býður meira að segja í grun að Gunnar Gunnarsson njóti ekki enn þann dag í dag fulls sannmælis hérlendis af því að hann var á sínum tíma bendlaður við Hitler. Eða hvaða íslenskur höfundur léti hafa eftir sér það sem verðlaunaskáldið Jon Fosse segir í kynningarbréfi útgáfunnar um bókina; að trúlega hafi Gunnar Gunnarsson borið höfuð og herðar yfir aðra íslenska höfunda á sinni tíð?

Meðvirkni dauðans á eyju djöflanna

Allt frá því að Einar Kárason kynnti sitt persónugallerí ættað úr Thulekampi og sögur af lífinu þar fyrir um það bil þremur áratugum hefur Djöflaeyja hans notið ómældra vinsælda hjá íslenskri þjóð. Leiksýning Leikfélags Reykjavíkur í skemmunni á Melunum byggð á bókinni og sýnd árið 1987 jók enn á aðdáun fólks á verkinu enda var Djöflaeyjan í leikstjórn Kjartans Ragnarssonar fersk og framsækin á allan hátt. Í kjölfarið kom uppfærsla Kolbrúar Halldórsdóttur á leikritinu hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1995 og bíó Friðriks Þórs árið eftir.

Víst eru sögurnar af Línu spákonu og hennar hyski í braggahverfinu smáspaugilegar og fullar af hnyttni. Ég hef samt stundum furðað mig á því hve geysivinsælar Djöflaeyjubækur Einars Kárasonar hafa orðið vegna þess að ég skynja ekki mikla dýpt í persónulýsingum hans heldur eru flestir karakterarnir dálítið einlitir og fyrirsjáanlegir. Svarið við spurningu minni um vinsældir þessa verks kom óvænt til mín í Djöflaeyju Þjóðleikhússins sem ég loksins sá undir lok nóvember þótt frumsýnt  hafi verið í byrjun september og verður frá því sagt hér á eftir. Ég viðurkenni að ég fór fullur fordóma á þessa sýningu því að ég hef heyrt svo margt misjafnt um hana sagt; hún bætti engu við það sem áður hefði verið gert við þetta verk, handritið væri sundurlaust og illa unnið, kóreógrafían sérstaklega vond – og svo væri þetta náttúrlega ekki söngleikur heldur bara leikrit með söngvum, sem vissulega er dálítið annað form en ekta mjúsíkal eða Singspiel.

Í sem stystu máli sagt þá fannst mér sýningin sem ég sá afsanna fyrir mér allt þetta niðurdrepandi tal um meinta galla á vörunni. Handritið er vissulega byggt upp á því að bregða upp myndum fremur en að draga upp eina stórdramatíska línu en þessar myndir hverfast allar um eitt og hið sama. Meðvirkni Línu og dráp meðvirkninnar á Badda og Danna, dóttursonum spákonunnar. Í þessum meginsjúkdómi Íslendinga held ég líka að skýringin á vinsældum Djöflaeyjunnar sé fólgin. Meistaraleg lýsingin á meðvirkninni hittir þjóðina berskjaldaða fyrir sem einstaklinga og samfélag.

Mér fannst sýning Þjóðleikhússins fallega römmuð inn með örlögum Danna og Badda sem báðir deyja þótt annar tóri enn í leikslok. Leikararnir í hlutverkum þeirra, Arnmundur Ernst Bachman og Þórir Sæmundsson, voru líka báðir afburðagóðir, að því er mér þótti. Þeir syngja hvor öðrum betur og sköpuðu trúverðugar persónur þótt vissulega séu þær einlitar eins og aðrir sem hér koma við sögu. Ef eitthvað á að finna að frammistöðu þessara leikara – sem er ekkert endilega nauðsynlegt – þá get ég bent á það að leikstíll Þóris er nokkuð úr annarri átt en hinna leikaranna á sviðinu. Þórir leikur ekki jafn natúralískt og hinir leikararnir og byggir sína túlkun meira en aðrir á sviðinu á epísku fasi. En hann gerir þetta mjög vel – og aðrir leikarar umgangast sína karaktera af kærleika og samúð sem mér finnst oft skorta á hjá höfundi þeirra.

Ég er ekki sérfræðingur í kóreógrafíu en hópatriðin trufluðu mig ekki og mér fannst stundum að þau væru meðvitað dálítið endurtekningasöm og úrræðalítil eins og fólkið í verkinu. Og svo er það tónlistin. Kannski var það hún sem kom mér mest á óvart því að hún styrkti meginkonseptið í sýningunni; myndir af fólki með tilfinningar, vonir og þrár, en flækt í úrræðaleysi eigin meðvirkni og annarra.

Djöflaeyja Þjóðleikhússins fjallar því í mínum huga um þjóðarmein þjóðarinnar, drápvæna meðvirkni sem engu eirir af því að þjóðin umber allt sama hversu sárt hún er leikin. Og þetta gerir þjóð vor ekki af kærleika heldur af því að hún kann ekkert annað.

Jólaundirbúningur í Eldborg og dans á leiksviðum þjóðar

Góðborgarar rótgróinna evrópskra menningarþjóða gera það gjarna að gamni sínu í jólaundirbúningnum að bregða sér í næsta óperuhús að sjá klassíska uppfærslu af ballettinum Hnotubrjóturinn við tónlist eftir Tsjækovskíj. Nú er þetta einnig farið að eiga við hér á Ísalandinu því rétt í þann mund sem aðventan fór í hönd gat maður skellt sér í Hörpu og séð Hátíðaballettinn í Sankti Pétursborg dansa þetta sígilda verk á sviðinu í Eldborg. Hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands spiluðu niðri í gryfjunni og litadýrð í leikmynd, lýsingu og búningum blasti við á sviðinu þar sem fjöldi dansara sýndi fagra fótmennt og fágaðan limaburð.

Þetta var bæði falleg og skemmtileg sýning þó að þar sem ég sat heyrðist ekki nægilega vel í hljómsveitinni. Kannski var hún of fámenn en kannski eru líka einhverjir staðir í Eldborgarsalnum þar sem músíkin nær ekki þeim endurómi sem til þarf svo hún njóti sín til fulls. Þetta spillti þó ekki verulega ánægjunni af því að horfa á túlkun dansaranna á draumkenndri og fjölbreyttri sögu, en það er einn af kostum Hnotubrjótsins sem klassísks balletts hversu stutt og margbreytileg atriði hans eru hvert fyrir sig.

Salurinn í Eldborg var þéttsetinn á þeirri sýningu á Hnotubrjótinum sem ég sá. Samt eru miðarnir rándýrir, kosta í bestu sætin eitthvað svipað og leikhúskort á fjórar sýningar í Borgó eða Þjóðleikhúsinu. Tek það fram að ég borgaði sjálfur fullt verð fyrir mitt sæti en sérstakt barnamiðaverð fyrir unga dansmey sem ég bauð með mér á ballettinn. Eftir sem áður vekur það hjá mér spurningar um hvernig því víkur við að fimm eða sex þúsund manns eru tilbúnir til þess að borga allt að því dagslaun verkamanns fyrir miða til þess að sjá gestadansara frá Pétursborg sýna Hnotubrjótinn. Myndi þetta sama fólk greiða sama verð fyrir sýningu hjá Íslenska dansflokknum? Hið augljósa svar er nei. Engum dytti í hug að sóa peningum í svoleiðis vitleysu. Það er mjög miður því að í Íslenska dansflokknum og öðrum danskompaníum er fólgin von um frábært leikhús á Íslandi framtíðarinnar. Katrín Hall byggði upp öflugt listrænt starf hjá Íslenska dansflokknum meðan hún stýrði þar stefnumótun og annaðist daglegt amstur. Að því starfi býr listdansinn á Íslandi og sprotana mátti sjá víða í dansflórunni undanfarnar vikur þótt ég kæmist því miður ekki til að sækja allar þær sýningar.

Nú er orðið óralangt síðan íslenskir dansarar dönsuðu klassíska balletta á sviðinu í álfaborginni við Hverfisgötu. Mun sá tími nokkurn tímann renna upp á ný að við góð(u)borgarar þessa lands fáum tækifæri til þess að greiða, segjum 15.000 kall, fyrir miðann á svoleiðis sýningu? Menningin nefnilega kostar og hún er lífsnauðsynleg. Spurningin er bara hver og hvernig á að borga fyrir hana uppsett kostnaðarverð. Því að ballettinn, óperuna, sinfóníuna, leikhúsin og Improv Ísland viljum við hafa. Líka Rúv þrátt fyrir Eurovision og allt gaufið og úrsérgengna endurtekna bókaþætti sem alltaf eru um það sama og sömu höfundana svo maður gefst upp á að hlusta áður en útsending er hafin. Allavega er Edda skemmtileg á laugardagskvöldum og hún geymist vel í sarpinum sé maður upptekinn akkúrat á þeim útsendingartíma. Meira svoleiðis fútt elsku fólk. Og það sem ég hef heyrt af útvarpsleikritaröð um Geirfinns- og Guðmundarmál fannst mér takast vel. Takk fyrir það.