Tónleikar PJ Harvey á Iceland-Airwaves á sunnudagskvöld hófust á trommuslætti. Sviðið var þó enn autt og eftirvæntingin mikil; áhorfendur blístruðu og kölluðu þegar fyrstu tónarnir bárust út í salinn, klöppuðu saman lófum, fögnuðu. Svo gekk hljómsveit inn á sviðið í einfaldri röð, svartklædd, meðal annars blásarar með glampandi horn og þegar þau tóku að hljóma rann upp fyrir manni að þetta var sorgar- en ekki sigurmars: „Chain of Keys“. Lagið er af nýjustu plötu Harvey The Hope Six Demolition Project sem kom út fyrr á þessu ári, þar heldur hún áfram að rannsaka pólitískan veruleika samtímans líkt og hún gerði á meistaraverkinu Let England Shake frá árinu 2011. Nýja platan er ávöxtur af samstarfi Harvey og ljósmyndarans Seamus Murphy en þau ferðuðust um Kosovo, Afganistan og Washington til að safna efni í bókina The Hallow of the hand (2015) sem hefur að geyma ljósmyndir og ljóð. „Chain of Keys“ kallast einmitt á við ljóð úr bókinni þar sem brugðið er upp mynd af svartklæddri konu fyrir utan kirkju í Kosovo þar kemur líka fyrir eitt af stefjum bókarinnar, hvaða hörmungar hafa sjónarvottar á þessum stöðum upplifað. Og hvaða möguleika/hæfileika hefur ljóðmælandinn, túristi á ferð um glæpi stundina, til að setja sig í þeirra spor: „Imagine what / Imagine what her eyes have seen“.
Í viðtali á BBC greindi PJ Harvey frá því að hún og Seamus Murphy hafi fyrst tekið ákvörðun um að fara til Afganistan og Kosovo; Washington hafi síðar orðið fyrir valinu vegna þess að hún tengdi þessa tvo staði, það hafi verið þar sem örlög þessara svæða réðust að verulegu leyti og ákvarðanir um hernaðaríhlutun Bandaríkjanna og samherja þeirra voru teknar. Harvey þræddi samt sem áður ekki stjórnsýslubyggingarnar í Washington í leit að yrkisefnum heldur fór hún út í fátækrahverfi borgarinnar og þar blöstu við henni líkindi þegar hún kannaði aðstæður fólksins fremur en andstæður. Þegar hlustað er á tónlistina sem finna má á plötunni er ekki alltaf hlaupið að því að átta sig á því hvar ljóðmælandinn er staddur, þannig er ekkert órökrétt að hlustandi geri ráð fyrir að lagið „The Ministry of Defence“ eigi sér stað í Bandaríkjunum. Fljótlega hljóta samt að renna á hann tvær grímur: „This is the Ministry of Defence / Stairs and walls are all that’s left // The’ve sprayed graffiti in Arabic / And balanced sticks in human shit“. Ef hlustandinn hefur upphaflega gert sér staðhætti í Bandaríkjunum í hugarlund hlýtur honum að bregða í brún þegar sú mynd fer að taka mið af veruleikanum í Afganistan, kannski verður honum fyrst ljós hryllingur eyðileggingarinnar þegar hið „kunnuglega“ og hið „framandlega“ rennur saman. Og lokalínurnar: „This is how the world will end.“ Fá hárin til að rísa.
Nafn plötunnar The Hope Six Demolition Project og hljóðheimur skírskotar til Bandaríkjanna bæði leynt og ljóst og hún vekur upp fjölmargar spurningar um þetta land sem við teljum okkur þekkja svo vel en kemur okkur sífellt á óvart. Ein af þeim spurningum sem platan vekur líka varðar þá staðreynd að Bandaríkjamenn skuli leiða árásarstríð í öðrum löndum meðan fátækt, glæpir og eymd blasa við í höfuðborg þeirra eigin lands. Með Harvey á sviðinu á sunnudagskvöld var níu manna hljómsveit, m.a. tveir nánir samverkamenn hennar síðustu ár John Parish og Mick Harvey. Öll framganga þeirra var fumlaus og fagmannleg, samsöngur var oft og tíðum áhrifaríkur ekki síst söngl betlarans „Dollar, Dollar“ í samnefndu lagi. Það var harmræn fegurð sem einkenndi tónleika PJ Harvey, kannski litaðist upplifunin af forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem stóðu fyrir dyrum, í öllu falli er minningin orðin samslungin úrslitunum.