Kaflinn um það sem ég ætla að fjalla um
Þetta er plötudómur um Constant movement frá kvintett Þorgríms Jónssonar. En fyrst verður fjallað um aðra hluti.
Kaflinn um tölvur og tónlistarneyslu
Leyfðu mér að hlusta á Discover Weekly-lagalistann þinn og ég skal segja þér hver þú ert.
Ég hef aldrei borgað meira fyrir tónlist en og ég geri eftir að ég byrjaði að borga fyrir Spotify fyrir fimm árum síðan. Plötur hafði ég sárasjaldan keypt þar á undan, núna borga ég tvöþúsundkall á mánuði allt árið um kring. Ég veit ekkert hvert þessi peningur fer. Ég vissi það svosem ekki heldur þegar ég keypti geisladiska. En hann er allavega einhversstaðar inní tónlistarhítinni.
Og núna get ég ekki skrifað plötudóm nema hann þurfi að fjalla fyrst um forrit og hagræna hvata. Takk nútími. Við lifum kannski lengur og við erum sjaldnar með tannpínu en forfeður okkar, en nútíminn er ekki sérlega estetískur.
En forritið hefur áhrif á það hvernig ég hlusta á tónlist. Ef ég væri ekki kapítalisti gæti ég sagt með fyrirlitningu í tóninum að tónlist væri „neysluvara“. Þú veist, eins og bómullarbolirnir í H&M sem verpast í fyrsta þvotti.
Ég hlusta semsagt á tónlist þegar ég er að bauka í tölvunni. Skrifa. Reikna. Hanga á netinu. Ég hlusta mest á djass en líka klassík, helst þar sem lítið er sungið eða sungið er á tungumáli sem ég skil ekki. Einkum finnst mér rólyndisdjass notalegur. Stundum er hann kallaður „mellow jazz“, stundum miðnæturdjass. (Hér er nákvæmni í orðavali mikilvægt; tónlistarsagan má stinga „smooth jazz“ upp í sópransaxófóninn á sér.)
Og svo er það norræni djassinn, sem stundum er rólyndistónlist en getur einnig verið hraður og svipsterkari. Þó hann sé um margt ólíkur innbyrðis hefur hann ýmsa sameiginlega þræði sem tengja angurværðina hjá Tingvall Trio við gáskann í K Tríó, sem bæði eru að mínu viti ágæt dæmi um einhverja norræna djasshefð sem ég get samt ekki alveg útskýrt almennilega.
Platan sem ég hef nú síðast verið að hlusta á og þessi pistill á að fjalla um er ekki á Spotify. Hún er að vísu á Bandcamp, en ekki á Spotify. Ég fékk eintak af disknum sent í pósti (gagnrýnendur fá frítt). Þurfti að rippa hana í gömlu tölvunni minni og deila með mér sjálfum yfir Dropbox til að hlusta í nýju tölvunni því nýja tölvan er ekki með geisladrif. Og samt er hún ekkert sérlega ný heldur tveggja ára gömul. Það er samt hægt að kaupa plötuna á Bandcamp. Það er gott.
Kaflinn um plötuna sjálfa
Kvintett Þorgríms Jónssonar (Toggi Jónsson Quintet) sendi nýverið frá sér plötuna Constant Movement. Kvintettinn leiðir Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og rafbassa, Ari Bragi Kárason á trompet og flugelhorn, Ólafur Jónsson á tenórsaxófón, Kjartan Valdemarsson á píanó og rhodes og Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur.
Mér finnst platan frábær.
En—vel að merkja—það segi ég sem áhugamaður um djass og þá sér í lagi norrænan djass.
Platan er skemmtileg, vel spiluð og í jafnvægi. Hún er ekki ýkja frumleg, en spilar inn í ákveðna hefð. Tónlistin er ekki ósvipuð mörgu því sem komið hefur frá Jóel Páls og fleiri íslenskum tónlistarmönnum, ADHD á köflum, Esbjörn Svensson, Steinar Aadnekvam og Helge Lien.
Þrátt fyrir að bassaleikarinn leiði bandið heldur hann sig fremur til baka og leyfir blásurunum og píanistanum að eiga sviðið að mestu. Það er helst í sólóum og byrjun laga sem Þorgrímur stígur fram og gerir það vel.
Sérstaklega grúvar fyrsta lagið, Humble, í einfaldleik sínum.
Lagið From above er yndislega letilegt og melódískt með skemmtilegu samspili píanós og saxófóns. Með svo færa hljóðfæraleikara um borð er engan snöggan blett að finna. Í heild er platan léttleikandi, engin loðmulla en heldur ekki of aggresív, þétt en ekki niðurnjörvuð. Eins og nafnið gefur til kynna er hún á stöðugri ferð. Ég myndi hæla hönnuninni á plötuumslaginu ef mér væri ekki slétt sama um plötuumslög.
Kaflinn þar sem ég dreg niðurstöðuna saman.
Platan gengur bæði ein og sér og sem lífsgæðaukandi viðbót í vinnudag fyrir framan tölvuna, eins og ein og hálf flaska af rauðvíni.
Semsagt. Ég mæli með Constant movement. Ef hún væri komin á Spotify myndi ég hlusta miklu meira á hana.
Gylfi Ólafsson (f. 1983) hefur verið í einni djasshljómsveit en var rekinn fyrir að vera ekki nógu góður píanisti.