Týndur sauður
Áður varstu fín og flott í sýn,
þá flæddi kampavín og gæfa þín var ógurleg.
Þig allir voru að fjalla um og skjalla,
undan fæti halla myndi varla á nokkurn veg.
Þú hlóst bæði hátt og snjallt
að hinum sem var ekki gefið allt.
En drambið nú þú deyða skalt,
það dugar skammt ef manni er kalt
og þarf að sníkja bæði brauð og næturstað.
Hvernig er það?
Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?
Alltaf vel til fara með aðdáendaskara,
eftirsótt vara, þú þekktir bara gleði og glaum.
Svo brugðust loks þinn eiginn máttur og megin,
nú máttu felmtri slegin þrauka einhvern veginn ein og aum.
Þú sórst þess eið í allmörg sinn
aldrei að fara milliveginn,
en nú er afslátturinn útrunninn.
Enginn er lengur vinur þinn,
nema fyrir greiða í greiða stað.
Hvernig er það?
Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?
Aldrei nokkurn tíma í brjálæðisins bríma
þú baksviðs máttir híma né leggja þig í líma, því er ver.
Í innantómum dofa hver draumur fékk að sofa
og daga uppi vofa, því aðrir höfðu ofan af fyrir þér.
Þó að þú umgengist þotulið,
þvælt væri og lúið gullkortið,
nú tekur ómæld einsemd við,
enginn sem stendur þér við hlið,
horfnir þeir sem þú taldir þig eiga að.
Hvernig er það?
Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?
Að rista svona grunnt er ekki mörgum unnt,
egósentrísk trunta, bara upp á punt að skemmta sér.
Þú hafðir skotið rótum á heldrimanna mótum
hjá harðsvíruðum þrjótum, en lukkan kippti fótunum undan þér.
Þú gerðir endalaust grín að því
ef gagnrýndu einhver nóboddí
þá gerviveröld sem varstu í.
Þú vissir ekki um neitt svínarí
og hafðir jú ekkert að fela, eða hvað?
Hvernig er það?
Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?