Kierkegaard um spjall, almenning og internetið  

Umræðan um umræðuna er mjög vinsæl þessa dagana. Oftast er sú umræða hafin af fólki sem telur sig eiga undir högg að sækja og hefur lent í gagnrýni, oft heiftarlegri, vegna einhvers sem það hefur sagt eða gert. Umræðan um umræðuna er þó vissulega mikilvæg, sérstaklega í ljósi þess að við erum tiltölulega nýbyrjuð að sigla inn í nýjan samskiptamáta hvers afleiðingar eru langt frá því að vera fullrannsakaðar. En þótt að internetið og samskiptamiðlar séu sögulega glæný fyrirbæri, þá má finna djúpa greiningu hjá heimspekingum síðari tíma sem við getum enn lært af. Nítjándu aldar trúarspekingurinn Søren Kierkegaard er líklega ekki almennt hátt á listanum yfir hugsuði sem leitað er til til að skilja samskipti á internetinu. En það vill þó svo til að hann, í einu af ritum sínum, kemur einmitt með hnífskarpa gagnrýni sem á virkilega vel við í dag.

Ég á við þá greiningu Kierkegaards á samtíma sínum sem finna má í einu af síður þekktu ritum hans En literair anmeldelse.

En literair anmeldelse átti upphaflega að vera gagnrýni á skáldsögu danska skáldsins Thomasine Christine Gyllembourg-Ehrensvärd, To tidsaldre. [1] Frú Gyllemborg, eins og hún var jafnan kölluð, skrifaði ætíð undir dulnefni en höfundurinn tengdist þó Kierkegaard persónulega þar sem hún var móðir hins fræga ljóðskálds og heimspekings Johan Ludwig Heiberg. Þrátt fyrir að Kierkegaard hafði litið upp til Heibergs á yngri árum hafði hann lítið jákvætt um hann að segja á síðari hluta ævi sinnar vegna persónulegs ágreinings og dálætis Heibergs á kerfisheimspeki Hegels. Heiberg var einn helsti boðberi hennar í Kaupmannahöfn á nítjándu öld og ein aðalástæða þess að Hegel gegnsýrði alla menningarumræðu þess tíma – eitthvað sem Kierkegaard gramdist mjög.[2]

En Literair anmeldelse sprengdi fljótt utan af sér þann ramma sem verkinu hafði verið gefin og var Kierkegaard fljótlega farinn að gagnrýna hugmyndaheim skáldsögunnar og þá lífssýn sem í henni birtist, og gekk síðan enn lengra þar til verkið umturnaðist í gagnrýni á samtíma sinn og þá hugmyndafræðilegu fátækt og ástríðuleysi sem hann vildi meina að öldin einkenndist af. En það er einmitt þessi samtímagagnrýni hans sem við ætlum að kafa aðeins dýpra í.

Samkvæmt Kierkegaard var nítjánda öldin – í samanburði við þá átjándu sem gerð er skil í verki Frú Gyllemborg – öld íhugunar og ástríðuleysis. [3]   Átjánda öldin var öld gjörða og byltinga. Tími þar sem fólk tók málin í sínar eigin hendur og breytti gangi sögunnar. Þessi möguleiki, er að mati Kierkegaards orðinn verulega skertur, ef ekki útilokaður, þegar komið er fram á nítjándu öldina. Helsta ástæðan fyrir þessari breytingu er viss ofurtrú á mátt íhugunarinnar sem hefur slíkt tangarhald á almenningi að hún kæfir allar merkingarbærar athafnir. Þar af leiðandi opnast gjá milli íhugunar og gjörða sem leiðir til þess að menn þykjast skilja ýmis fyrirbæri í íhugun sem myndi vera þeim algjörlega framandi ef þeir ættu að reyna að koma hinu sama í verk (SKS 8:71). 

Það er því stór greinarmunur sem Kierkegaard gerir hér á milli þess að skilja eitthvað í krafti íhugunar, s.s. að lesa sér til um byltingu og skilja hana á fræðilegan máta, og hins að virkilega hrinda hinu sama í verk og skilja það í krafti gjörða, s.s. að taka þátt í byltingu. Vandamálið á öld Kierkegaards var að fólk virtist ekki gera sér grein fyrir þessum mun. Það taldi sig skilja allt milli himins og jarðar í krafti íhugunar, t.d. með því að lesa sér til um viðfangsefnið og ræða það fram og aftur á kaffihúsum, án þess að nokkurs konar raunveruleg, merkingarbær þáttaka í neinni athöfn lægi þar að baki.

Lesendur annarra rita Kierkegaards, svo sem Afsluttende Uvidenskabelig Efterskrift, ættu að kannast vel við þessa gagnrýni þar sem hún rímar vel við það sem hann hafði áður látið frá sér, sérstaklega gagnrýni hans á heimspeki Hegels sem þóttist fella einstaklinginn og huglægni hans inn í allsherjar kerfi sem knúið var áfram af díalektík – eitthvað sem Kierkegaard neitaði að væri hægt eins og frægt er. Það sem gerir verkið sem hér um ræðir sérstætt er að Kierkegaard fer nánar út í hvernig þessi oftrú á mátt íhugunar og ástríðuleysi birtist í samfélaginu, í hversdagslegu lífi fólks.

Það er í þessu samhengi sem Kierkegaard notar hugtakið jöfnun (nivellering) [4] til að útskýra neikvætt samfélagslegt fyrirbæri sem einkennir öldina og hann telur að hafi mikil áhrif á daglegt líf fólks og huglæga reynslu þess af sjálfum sér og öðrum. Fyrir Kierkegaard er jöfnun tengd öfund og birtist í því að allir eiginleikar og öll gildi eru brengluð og sett á sama stall. Hann lýsir því sem „þögulli, stærðfræðilegri og abstrakt athöfn“ sem eigi sér lúmskt stað án meðvitaðrar athafnar (SKS 8:80). Vegna þessa fyrirbæris er allt metið sem jafngilt, bæði gildi og fólk. Erfitt er að öðlast veigamikinn sess í samfélaginu, t.d. sem fræðimaður eða sérfræðingur um tiltekið málefni sem hefur eitthvað merkilegt fram að færa, vegna þess að jöfnunarferlið, með lúmskum hætti, fletur alla umræðu út. Það sem einn hefur að segja er ekkert merkilegra en hvað annað, allir standa jafnfætis og hafa jafnmikinn rétt á að tjá sig um hvað sem er og hver annar.

Ein helsta ástæðan fyrir þessu jöfnunarferli er áhersla aldarinnar á það sem Kierkegaard kallar mergðina (mængd) (SKS 8:81). Með því á hann við fjöldann, almenninginn sem er tekinn fram yfir einstaklinginn og hefur mun meira vægi. Hann segir að: „Almenningurinn er allt og ekkert, hið hættulegasta allra afla og það sem segir minnst.“ (SKS 8:89).   Ef skoðanir og hugsanir einstaklingsins eru ekki í samræmi við almenningsálitið þá eru þær fljótt afskrifaðar. En þetta fyrirbæri er ekki nýtt af nálinni, frumlegar hugmyndir hafa alltaf átt erfitt með að ná fótfestu í öllum samfélögum á öllum tímum. Það er í rauninni ekki það sem Kierkegaard hafði mestar áhyggjur af. Mun brýnni hætta er sú að einstaklingurinn samsami sig svo órjúfanlega með fjöldanum – þar sem hann vill vera eins og allir hinir og taka þátt í því sem allir aðrir eru að gera – að skoðanir fjöldans verða skoðanir hans. Hann innlimar þær inn í eigin vitund og hugsun og sjálfsvera hans ræðst þannig af duttlungum almennings. Samsömunin verður svo mikil að engar frumlegar eða sjálfstæðar hugsanir eru færar um að myndast í vitund hans og brjóta sér leið út. Þetta ferli útrýmir þannig allri sjálfstæðri, frumlegri hugsun. Við viljum vera eins og aðrir og því gerum við okkar besta til að bæla niður allt sem gæti staðið uppúr. Þetta jöfnunarferli er ekki eitthvað sem gerist meðvitað. Flestir telja sig hugsa sjálfstætt og hafa sínar eigin skoðanir á málum á meðan það er í raun aðeins að tjá hugmyndir og skoðanir sem það hefur fengið annars staðar frá. Þetta er stór hætta fyrir sjálfið. Með því að samsama sig fjöldanum, sem er abstrakt fyrirbæri, verður huglægni sjálfsins abstrakt og tapar frumleika og sérstöðu sinni (SKS 8:81). Almenningsálitið er ekki álit neins þar sem almenningur er á sama tíma allir og enginn (SKS 8:82).

Þetta jöfnunarferli sést, skv. Kierkegaard, hvað skýrast í prentmiðlum hans tíma (SKS 8:86). Almennt var litið svo á að prentmiðlar, dagblöð og tímarit, væru mjög jákvætt fyrirbæri þar sem þeir breiddu út þekkingu og gerði fleira fólki kleift að vita hvað væri að gerast í samfélaginu og heiminum. Þetta leiðir svo til þess að upplýstir borgarar geta með mun betra móti tekið þátt í ákvörðunum og daglegu lífi nútíma samfélags. En Kierkegaard vildi meina að þetta væri misskilningur og sama hvaða jákvæðu afleiðingar prentmiðlar hefðu leitt af sér fölnuðu þær í samanburði við þær neikvæðu. Neikvæðu afleiðingarnar eru þær að með því að gefa öllum tækifæri til að tjá sig um hvaða málefni sem er verður sú blekking ríkjandi að skoðun allra hafi sama vægi, eitthvað sem leiðir ekki til aukinnar og betri menntunar einstaklingsins heldur þvert á móti, hann verður fyrir áhrifum af alls kyns ómerkilegheitum og ranghugmyndum sem hann tileinkar sér og viðheldur (SKS 8:89-90). Prentmiðlarnir setja fram og halda uppi vissri almenningsorðræðu sem verður allsráðandi og einstaklingurinn eignar sér.

Orðræða prentmiðlanna, sem er í eðli sínu ópersónuleg og oft nafnlaus, á að höfða til allra og skiljanleg af öllum, leiðir svo ennfremur til þess að hún hefur áhrif á tjáningu einstaklinga og gerir samskipti þeirra mun fátæklegri. Í staðinn fyrir að eiga í raunverulegum, merkingarbærum samskiptum stunda flestir borgarar það sem Kierkegaard kallar spjall (SKS 8: 92). Spjall er ekki raunveruleg tjáning einstaklings heldur aðeins dauft bergmál af ýmsum illa ígrunduðum hugmyndum og skoðunum sem koma annars staðar frá. Fólk spjallar ótt og títt um alls kyns málefni en, vegna þess að þetta er ekkert sem þau hafa sjálf velt fyrir sér heldur tileinka sér gagnrýnislaust, þá er þetta mjög ómerkileg gerð af samskiptum sem þjónar því hlutverki að fela þá staðreynd að engin raunveruleg tjáning á sér stað. Eins og Kierkegaard kemst að orði, þá er spjall fyrirbæri sem þurrkar út skilin á milli þagnar og tals (SKS 8:89-90).

Það sem er undirliggjandi í þessari gagnrýni, eins og í mörgum öðrum ritum Kierkegaards, eru áhyggjur af stöðu einstaklingsins og innri veruleika (inderligheden) hans. Að mati Kierkegaards kemur sannleikurinn að innan, með því að maður raunverulega tileinki sér með ástríðu sannleika sem maður gerir að sínum eigin og sem hefur tilvistarlega þýðingu fyrir manni. Það verður ekki gert í gegnum fræðilega, hlutlæga íhugun eins og fylgjendur Hegels töldu. Eins og flestir kannast við var æðsta tilverustigið að mati Kierkegaards trúarstigið, þar sem einstaklingurinn ræktar sjálf sitt frammi fyrir Guði, en það er ekki þar með sagt að heimspeki hans hafi ekki víðari skírskotun. Það mikilvægasta fyrir honum, og skilyrði fyrir hvers konar sjálfsrækt og þroska, er ástríðan. Án hennar er ekki hægt að segja að einstaklingur lifi í heilindum og sé hann sjálfur. Það er einmitt þetta sem hann taldi öld sína skorta verulega þar sem allir öpuðu upp eftir öðrum og gerðu sitt besta til að forðast að rækta sinn innri veruleika. Hin mikla áhersla á almenning – sem er tekinn fram yfir einstaklinginn – og miðlar eins og dagblöð og tímarit eru stór hluti af ástæðunni fyrir því að svona er komið fyrir honum. Vegna þessa krefst það mikillar áreynslu af hálfu sjálfsverunnar ef lifa á í heilindum, verkefni sem aldrei er hægt að segja að sé lokið. Í ritinu sem hér er til umfjöllunar heldur Kierkegaard því fram að í þeim tilgangi verði einstaklingurinn að vera þögull þar sem innri veruleiki liggi í þögn og þannig tekur hann sér stöðu á móti hinu mikla offramboði af spjalli og innantómri orðræðu (SKS 8:92).

Þessi gagnrýni kann að hljóma einkennilega við fyrstu sýn. Það væri jafnvel auðveldlega hægt að túlka Kierkegaard sem róttækan afturhaldssinna sem vill hverfa aftur til eldri samfélagsgerðar. Það er vel þekkt að Kierkegaard var harður andstæðingur lýðræðis og taldi upplýst einræði vera skynsamlegasta stjórnskipulagið og það myndi styðja slíka túlkun. En eins og Joakim Garff bendir á væri þetta mjög fátæklegur skilningur sem tæki ekki hina flóknu og gríðarlega frumlegu hugsun Kierkegaards með í reikninginn.

Ég vil þó halda fram að þessi gagnrýni, sem gagnrýni á nítjándu öld og prentmiðla og samskipti þess tíma, sé eilítið langsótt og hún gangi full langt í neikvæðni sinni. En ef hún er heimfærð á okkar tíma, öld internetsins, þá virðist hún loksins hitta beint í mark. Umræðan nú til dags, með tilkomu internetsins, einkennist mun meira af nafnlausu „spjalli“, innantómu bergmáli endurunninna skoðana og hugmynda sem einstaklingar bera áfram hugsunarlaust. Það er þó auðvitað ekki þar með sagt að öll umræða og allar raddir á netinu séu merkingarlaust blaður. Vissulega má finna raddir sem hafa eitthvað að segja og ætti að vera hlustað á. En vandamálið er það að þessar raddir drukkna í hafsjó umræðunnar. Við höfum ruglað saman fullyrðingunni um að allir hafi rétt á sinni skoðun og allt annari fullyrðingu; þeirri að allar skoðanir hafi sama vægi.

Kierkgaard minnir okkur á að öll umræða er ekki endilega jákvæð. Þó svo að tækifærið sem internetið og félagslegir miðlar hafa gefið almenningi til að tjá sig sé ekki endilega í sjálfu sér neikvætt, getur umræðan verið það ef engin merkingarbær tjáning liggur þar að baki. Svo virðist sem Kierkegaard hafi náð að einangra og greina visst samfélagslegt fyrirbæri og neikvæðar afleiðingar þess sem var á byrjunarstigi þegar hann var uppi en hefur á okkar dögum náð fullum þroska. Ef við fylgjum ráðum hans er það sem helst er þörf á í nútímanum meiri þögn frekar en meiri umræða.


[1]                Ég reiði mig á verk Joakim Garff, SAK. Søren Aabye Kierkegaard, En biografi, í öllum upplýsingum um ævi Kierkegaard og Kaupmannahöfn á gullaldartímanum á nítjándu öld.

[2]               Jon Stewart hefur þó nýlega dregið á sannfærandi hátt í efa hinn viðtekna skilning að Kierkegaard hafi verið mjög á móti kerfisheimspeki Hegels og að rit hans beinist helst gegn honum. Hann heldur því fram að gagnrýni Kierkegaards sé dulbúin gagnrýni á danska samtímamenn sína sem voru miklir fylgjendur Hegels, eitthvað sem hefði að sögn ekki farið fram hjá neinum á sínum tíma en nútímalesendur hafa misst sjónar á vegna skorts á þekkingu á samtíma hans. Sjá: Stewart, Jon (2007). Kierkegaard’s Relation to Hegel Reconsidered. Cambridge University Press.

[3]                SKS 8:66. Allar tilvitnanir og þýðingar á tilvitnunum eru úr frummáli í upprunalegu verkum Kierkegaards sem finna má í gagnagrunninum Søren Kierkegaards Skrifter, á slóðinni: www.sks.dk.

[4]                Jöfnun er tilraun til þýðingar á danska orðinu en á ensku hefur hugtakið verið þýtt sem leveling. Kierkegaard var fyrstur til að nota hugtakið í þessu samhengi en það var síðar meir tekið upp af öðrum heimspekingum líkt og Heidegger sem notar það í Veru og Tíma í fyrirbærafræðilegri rannsókn sinni. Fyrir ítarlegan samanburð á Heidegger og Kierkegaard með sérstöku tilliti til þessa hugtaks sjá eftirmálan á verki Hubert Dreyfus, Being-in-the-World. A Commentary on Heidegger’s Being and Time, Division I (2001).