1. Asia Argento
Asia Argento er kona sem er margt til lista lagt. Hún hefur átt farsælan feril sem fyrirsæta, leikkona og leikstjóri og á ekki langt að sækja hæfileikana – foreldrar hennar, kvikmyndagerðarmaðurinn Dario Argento og leikkonan og handritahöfundurinn Daria Nicolodi eru þaulreynt kvikmyndagerðarfólk með meistaraverk eins og hrollvekjuna Suspiria á sameiginlegri ferilskrá.
Meðfram leik- og fyrirsætustörfum hefur Asia Argento unnið að tónlist og gaf árið 2013 út fyrstu stóru plötu sína, Total Entropy. Platan hlaut blendnar viðtökur gagnrýnenda, sem er kannski skiljanlegt í ljósi þess hvað hún fer út um víðan völl. Það er erfitt að skipa þessari frumraun á bás – það ægir saman tónstílum allt frá franskri kaffihúsarómantík, gegnum feedback-mettað skóglápsrokk yfir í svitastorkið og heiladautt teknó. Gæðin spanna frá hálfgerðum hortittum yfir í tímalausa fegurð. Óreiðan er alger: Total Entropy. Til að hnykkja á þessu sankar listakonan að sér samstarfsfólki úr öllum áttum, allt eftir því hvert stíllinn hjá henni leitar í það og það skiptið: Tim Burgess úr The Charlatans. Þýski elektróníkerinn Mathias Modica. Anton Newcombe úr The Brian Jonestown Massacre. Og svo framvegis.
Í einu laginu fær Argento með sér Hector Zazou, franskt tónskáld sem hneigist til ambient heimstónlistar og mystísks minimalisma. Kannski helst að fólk rámi í hann vegna túlkunar hans og Bjarkar Guðmundsdóttur á Vísum Vatnsenda-Rósu. Útkoman úr samstarfinu við hann, „Double Jeu,“ (sem hafði áður birst á sólóplötu hans, L’Absence) er einn af gimsteinunum á Total Entropy. Dreymin og glitch-skotin svölunartónlist til að hlusta á þegar komið er heim undir morgun. Smeygja sér úr háhælaskónum. Losa af sér bindishnútinn.
2. The Pop Group
The Pop Group er hljómsveit sem var stofnuð af fimm bristolskum táningspiltum í miðri bresku pönkbylgjunni árið 1977 . Nafnið var viljandi rangnefni – það var nákvæmlega ekkert poppað eða yfirhöfuð vinsældavænt við þessa popphljómsveit. Lögin voru drifin áfram af dub- og funk-skotnum spuna, oft gersneydd allri byggingu sem hafði að gera með erindi og viðlög, textarnir harðpólistískir og söngvarinn Mark Stewart öskraði þá í hljóðnemann án nokkurs vilja til að gæða kakófónískan spunann einhverri melódíu.
The Pop Group gaf út tvær plötur, Y (1979) og For How Much Longer Do We Tolerate Mass Murder? (1980) áður en hún leystist upp í vitleysu í miðri post-punk gerjuninni árið 1981 vegna missættis og sjálfbirgingslegra stæla.
Liðu nú þrjátíu ár.
Árið 2010 bárust þær fréttir að fjórir af fimm meðlimum sveitarinnar hefðu tekið saman höndum á nýjan leik og væru að vinna að nýju efni:
There was a lot left undone,…we were so young and volatile…. Let’s face it, things are probably even MORE fucked now than they were in the early 80’s…and WE are even more fucked off!
Í síðustu viku kom út Citizen Zombie, fyrsta stúdíóplata Popphljómsveitarinnar í 34 ár. Fyrir mánuði var jarðvegurinn fyrir hana plægður með útgáfu lagsins „Mad Truth“ og myndbandi við það. Sem engin önnur en Asia Argento leikstýrði.
Miðvikudagar til minimalisma eru stuttar hugleiðingar um minimalíska tónlist sem munu birtast á Starafugli á nokkurra vikna fresti. Umfjöllunin getur tengst klassískum minimalisma, dub, shoegazing, minimal techno, drone metal eða hverri þeirri tónlist sem hefur einhverja tengingu við minimalíska fagurfræði.