Heimurinn er stútfullur af menningu. Góðri menningu og vondri, splunkunýrri og ævafornri. Og ef maður vandar sig þá eru jafnvel verstu árin frábær menningarár – hversu leiðinleg sem þau voru að öðru leyti. Heimurinn er líka stútfullur af manneskjum og 2014 var oft skemmtilegt, en það er eitthvað sem má þakka bæði skemmtilega fólkinu og sköpunarverkum sem skiptu máli. Sum þeirra voru sjálfsagt líka sköpuð af skemmtilegu fólki en önnur af vondum fólum sem við reynum máski að fyrirgefa ef þeir voru ekki alltof miklir skúrkar.
En ég skal segja ykkur frá skemmtilegasta og fallegasta og gáfaðasta fólkinu í ævisögunni (og kannski nokkrum skúrkum líka) – þangað til verðið þið að láta þennan langa og ískyggilega persónulega menningarannál duga (og verandi í útlöndum seinni hluta árs fór jólabókaflóðið og leikhúsárið að mestu framhjá mér).
Menningarárið byrjaði á því að Amiri Baraka dó. Það var sorglegt – en góð afsökun fyrir að skrifa um hann og hlusta á „Somebody Blew Up America“.
Árið áður hafði pabbi Hermanns Stefánssonar dáið. Pabbann þekkti ég aldrei – eða öllu heldur; ég kynntist honum ekki fyrr en ég las fallegustu bók ársins, Tunglbókina Spennustöðina eftir áðurnefndan Hermann. Það var bók sem var sáluhjálp og kom í hendurnar á mér einmitt þegar ég þurfti á henni að halda. Núna þarf ég bráðum að lesa hana aftur – en vandinn er að þetta er bók sem maður vill lesa reglulega en svo er maður líka alltaf að asnast til þess að lána hana. Spennustöðin var örstutt bók – en hún ómaði í heilaberkinum eins og blúslag sem maður fær á heilann í nokkrar vikur í febrúarskammdeginu. Bók sem heldur á manni hita í gegnum íslenskar febrúarnætur er ómetanlegur fjársjóður sem er til í alltof fáum eintökum. Það þurfa nefnilega allir sína spennustöð. Til þess eru þessar listir, til þess að halda á okkur hita svo við króknum ekki úr andlegum kulda á þessari kaldranalegu plánetu.
Um svipað leyti kom Inside Llewyn Davis í bíó og mér leið eiginlega alveg eins og honum Llewyn, blautur í fæturna að reyna að láta draumana rætast í kulda og trekki. Á meðan allir hinir fóru á Justin Timberlake og við trúbadorarnir spiluðum fyrir tómum sal.
Um sumarið sá ég svo Boyhood í fyrsta sinn. Um haustið sá ég hana svo aftur og um veturinn í þriðja skipti. Ég var búinn að bíða eftir henni í mörg ár – ekki bara í þessi ár síðan ég heyrði fyrst af henni heldur frá því ég var sjálfur lítill strákur og dreymdi um að einhver myndi gera einmitt þessa bíómynd. Bíómynd um þennan óbærilega léttleika sem fylgir því að vera til, bíómynd um tímann og það hvernig við eldumst á ógnarhraða og gleymum og reynum að muna og öll augnablikin sem eru frábær rétt áður en þau hverfa í óminnið. Bíómynd um það að vera faðir sem er að reyna að verða að manni á sama tíma og börnin manns eru að læra á lífið og líka um að vera mamma og læra að láta lífið rætast með barnauppeldi og skuldum og vondum kærustum og verða svo skyndilega miðaldra og lítil í sér þegar börnin flytja af heiman og galtómt húsið starir á þig og minnir þig á að einhvern tímann muntu deyja. Loks er þetta bíómynd sem endar á fallegu en vandræðalegu augnabliki sem ég og tékknesk stelpa lékum alveg óvart saman stuttu eftir að myndin var búin áður en við hurfum bæði aftur inn í okkar eigin þroskasögu.
Svo urðum við reið í vor og skunduðum á Austurvöll að mótmæla og þar kynnti Sigurður Pálsson þúsundi mótmælagesta fyrir Gertrude Stein. Sú menningarbylting sem þarna fæddist hefur ekki ræst enn en leyfum okkur að vona á meðan fólk strengir enn áramótaheit um að berjast fyrir menningunni og mennskunni.
Það stríð getur samt tapast. Robin Wright tapaði því í The Congress, þar sem hún seldi ekki sálina heldur bara líkamann – og reynir svo að endurheimta skrokkinn í teiknimyndaveröld sem minnir okkur á að þessir ótrúlegu líkamar með allri sinni fegurð og öllum sínum hrukkum og ljótleika eru ekkert síðra kraftaverk en þessi sál sem við sjáum aldrei berum augum. Robin sannaði líka að hún er frábær söngkona og söng Leonard Cohen betur en nokkur annar maður, já, betur en Jeff Buckley, það er einhver sjaldgæfur galdur og tregi í túlkun hennar á „If It Be Your Will“, þetta er kona að berjast við djöfla og róbóta í fjarlægri framtíð og getur aðeins lumbrað á þeim með síðustu leifunum af mennskunni, sem verður bráðum maskínunum að bráð.
En talandi um ábreiður. Árinu lauk degi á undan áætlun, á litlum goðsagnakenndum samkomustað á Akureyri þar sem tæplega sextugur karl studdist við staf og söng Tom Waits fyrir hlé og Nick Cave eftir hlé. Með örlítilli viðkomu í tröllvaxna sænska hjartaknúsaranum Cornelis Vreeswijk. Árin sáust utan á honum Kristjáni Pétri en þegar hann gleymdi sér og notaði stafinn í stað luftgítars í dramatískustu köflunum fann maður að hjartað barðist enn jafn hratt og í táningspilti sem elskar ekkert heitar en að læra utan af lög uppáhaldstónlistarmannana og syngja fyrir troðfullum sal af fólki. Annars hafði ég farið til Akureyrar til þess að lesa þar Stundarfró, sögulega skáldsögu um árið sem ég varð þrettán ára, árið þegar átján ára stelpa sat í eldhúskrók í Innbænum á Akureyri og reykti sígarettur og drakk kaffi og kjaftaði við ömmu sína út af því hún hafði engan snjallsíma til þess að tala við. Þetta var líka árið sem þessi sama stelpa varð ástfanginn af ungu ljóðskáldi frá Reykjavík en vissi ekki hvernig átti að finna það aftur út af því að hún gat ekki gúglað hann, hún gat ekki leitað af honum á Facebook og fann hann ekki í símaskránni.
En afsakið mig, ég var að tala um Nick Cave rétt áðan. Sjálfur heyrði ég hann nefnilega syngja inná plötuna Push the Sky Away fyrr um árið. Hann er sjálfur tæplega sextugur núna – en þegar hann varð 20 þúsund daga gamall nýlega þá gerði hann myndina 20.000 Days on Earth með nokkrum heimildamyndagerðarmönnum. Cave finnst gaman að keyra og hann rúntar um með Kylie Minogue og Ray Winstone á milli þess sem hann dásamar tónleika Patti Smith. Þar verður rokkstjarnan bláeygur aðdáandi annarar rokkstjörnu, galdramaður dáist af galdrakonu fyrir að brugga seið sem ekki einu sinni hann kann að sjóða. En það sem ég man samt best er þetta: Rokkstjarnan Nick Cave er hræddur við nákvæmlega það sama og ég. Að eldast og gleyma. Við Nick viljum halda áfram að muna fram í rauðan dauðann, alla vega næstu 20 þúsund daga. Kannski á hann líka pabba sem er farinn að gleyma, kannski veit hann líka að þegar 20 þúsund dagar eru liðnir þá er alls ekkert víst að við eigum 20 þúsund daga í viðbót á þessari jörðu.
Og alla þessa 365 daga ársins gerðist líka ýmislegt smálegt. Ég fann gamla mynd af pabba að dansa skoska þjóðdansa, ég fór úr axlarlið til heiðurs Mel Gibson, ég átti í hatrammri ritdeilu um Andrés Önd, ég las hversdagsmyndir myndasöguhetjunnar Lóu Hjálmtýsdóttur og fagnaði því þegar orðið hroðbjóður var loksins notað í pontu á hinu háa Alþingi. Svo sá ég frábærar stuttmyndir eins og Leitina að Livingstone og klassíkina The Private Life of a Cat. Kattavídjó gerð af slíku listfengi og næmni að hver einasti meistari kvikmyndasögunnar hefði verið fullsæmdur af.
Svo gerðust ýmsir lágstemmdir stórviðburðir líka. Ég varð samferða Kasmírbúa í bókabúð að kaupa eintak af Vefaranum mikla frá Kasmír. Donnie Darko var loksins sýnd í íslensku kvikmyndahúsi, þrettán árum of seint. Facebook-próf sagði mér að við Ernest Hemingway værum sálufélagar og ég samdi Facebook-ljóð með bónda á Öxará um snjóinn og byltinguna á meðan snjórinn lamdi glugga. Síðan seldi ég meirihlutann af bókunum mínum og flúði land. Kom svo við í Búlgaríu þar sem matargerðarlist veraldarinnar reis hæst þetta árið með ljúffengum korma-kjúklingi sem hefði getað fætt heila fjölskyldu sem og alla útigangskettina sem betluðu bita.
En það var ekki bara Amiri Baraka sem dó. Philip Seymour Hoffman dó líka og ég rifjaði upp að hann lék einu sinni í bestu mynd sem ég hef séð um dauðann. Robin Williams dó og ég rifjaði upp þegar hann var fimm árum yngri en ég og nýlentur í Ameríku. Vegna þess að í listinni geturðu leikið Rússa og séð þína fæðingarsveit með splunkunýjum gestsaugum. Malik Bendjelloul þekktu færri en hann dó eftir að hann hafði reist annan mann upp frá dauðum. Malik fann nefnilega Sixto Rodriguez í Searching for Sugar Man þegar allir höfðu talið hann af. Hann gerði listaverk um það að uppgötva listaverk, þessa ægifögru tónlist sem er jafn mögnuð og allt sem Dylan og Cave og Waits og Patti Smith og P.J. Harvey hafa sungið en engir þekktu nema byltingarsinnaðir Suður-Afríkubúar. Þótt söngfuglinn væri aldraður mexíkóskur indjáni í Detroit. Svo dó Lauren Bacall sem kenndi Bogart að blístra og P.D. James sem samdi krimma en líka bók sem ég hef ekki lesið en varð seinna af einni fallegustu bíómynd sem ég hef séð, Children of Men. Börn mannana. Ég man þegar bíómynd tókst loksins að sýna hvað barnsfæðing getur verið mikið kraftaverk. Samt sást ekki fæðingin. En í myrkvuðum bíósal á Patreksfirði þá vorum við leidd inní rússneskan spítala í Pétursborg. Þar fáum við að sjá fæðingu í allri sinni skelfilegu fegurð en ekki síður með öllu blóðinu og öskrunum og þjáningunni. Við sjáum fæðingu sem virðist hafa endað með barnsdauða – og þegar móðirin lítur beint í augu heimildamyndargerðarmannsins og spyr hvernig barninu líði þá getur hann ekki svarað – myndavélin skelfur og augu eru full af tárum.
En þegar út var komið var veröldin björt og fögur. Enda fór þarna saman það tvennt sem gefur lífinu gildi – gott fólk og alvöru listaverk. Við vorum stödd á Skjaldborg og um kvöldið vorum við hundrað saman að kveikja í meira en fjörtíu kínverskum luktarblöðrum á strönd á Vestfjörðum á bjartri sumarnótt. Við horfðum á þá fljúga út í fjarskann og vissum að augnablikin verða ekki magískari en akkúrat þarna, þar sem rauðar luktirnar fljúga framhjá voldugum fjöllunum í fjarskanum og bíódrukkið fólkið horfir á og slær svo upp strandpartíi sem stendur langt inní vestfirska nóttina.
Þetta var atriði sem var eins og klippt út úr bíómynd sem var samt ekki alveg nógu trúverðug – nema af því þetta gerðist í alvörunni. Sama átti við um kvöldið þegar ég var nýkominn heim í jólafrí eftir fjóra mánuði í útlöndum. Á lítilli knæpu brustu skyndilega allir í söng og sungu „Ég er kominn heim“ og ég skyldi ekki hver var að semja handritið og svo lokaði barinn og við fórum öll heim nema hvað, í vetrarnóttinni þá gengum við fram á sextíu manna kór syngja jólalög í húsasundi og þeir sem gengu fram hjá voru vígðir samstundis inn í kórinn og hjálpuðu til við að syngja jólin inní helga vetrarnóttina.
Tveimur vetrarnóttum áður hafði ég verið sunnar í álfunni, nánar tiltekið á ljóðakvöldi á suðurströnd Englands. Og þar var ég með Nei, ljóðabókina sem varð mótmælatákn orðsins gegn deyðandi hendi menningarsnauðrar ríkisstjórnar. En Nei fjallar líka um drauga sem skera heilu fjölskyldurnar á háls og galdurinn í textanum er slíkur að ef maður flytur hann fyrir herbergi fullt af útlendingum þá skilja allir íslensku í fáeinar mínútur. Um Ara mun ég yrkja betur seinna – Ari er nefnilega of stór fyrir þennan pistil, hann er draugur liðinna skálda sem hvíslar í eyrað á mér sárum en fallegum sannleiksorðum.
En eitt má hann eiga. Hann orti um framtíðina og nú er hún komin. Ég horfði aftur á Back to the Future í fyrra til að undirbúa mig fyrir þessa framtíð. Nú er 2015 gengið í garð og ég er andlega tilbúinn fyrir svifbrettin og flugbílana sem munu birtast okkur einhvern tímann á næstu tíu mánuðum. Framtíðin birtist okkur líka þar sem jörðin er að leggjast í eyði í geimóperunni Interstellar og eina lausnin er að finna aðra plánetu til að halda partíinu gangandi. Vandinn er bara sá að nýja plánetan er Ísland þar sem partíið er orðið gaddfreðið og Matt Damon er orðinn geðveikur af einveru og kulda, eða eins og segir í laglínum Steins Steinars af þessu tilefni:
Kvenmannslaus í kuldatrekki kúri ég volandi
Þetta er ekki, ekki, ekki þolandi
Þannig að partíið endar í svartholi þar sem Matthew McConaughey verður draugurinn sem ásækir sína eigin dóttur í öðru sólkerfi. En á kulnuðu Íslandi er enn von – þar er örlítil gata sem heitir Vonarstræti og er full af rónum og ógæfukonum og harðsvíruðum banksterum sem einskis svífast. En samt er þar von og hún rætist, eilífðarlúserar geta líka stundum unnið og lífið getur ræst fyrir okkur öll ef við finnum einhvers staðar vonina aftur.
Stundum er vonin meira að segja í klisjukenndum Hollywood-myndum með hjartað á réttum stað. Á heitum sumardegi í Belgrad sat ungur maður sem vissi ekki lengur hvað hann ætti að verða þegar hann yrði stór. Svo horfði hann á Chef þar sem fínn kokkur er rekinn og finnur hamingjuna aftur í ódýrum kúbönskum samlokum og matartrukk sem hann keyrir þvert yfir Bandaríkin með syni sínum og vini. Og núna er ungur Bandaríkjamaður týndur á Evrópuflakki en dreymir um að koma aftur heim og týnast í eigin landi við það að selja kúbanskar samlokur. Kannski borðaði Obama þessar samlokur líka, kannski hlustaði Fídel á Elvis og kannski féllust þeir í faðma með Havana-vindla og gleymdu Guantanamo því sumt hvíslar fólk bara um á myrkum kvöldum þegar enginn heyrir.
En hatrið er víða. Muniði til dæmis eftir eyjunni grænu þar sem við sóttum okkur þræla í eldgamla daga? Fyrir bara 44 árum var hatrið svo þétt í Belfast-borg á þeirri fallegu eyju að ungur hermaður týndist þar og var í lífshættu fyrir það eitt að vera týndur í borg sem yfirboðarar hans höfðu kúgað og kynnt þannig hatursins eld af miklum móð. Saga þessa unga manns var sögð í ’71, nefnda eftir ártali, eftir ártali þar sem allir fögnuðu því að árið væri búið og kæmi vonandi aldrei aftur til baka.
Stundum verður nefnilega ósættið svo skelfilegt að það veldur stríði. En það þýðir samt ekki að það megi ekki rífast – stundum er nefnilega allt í lagi að vera ósammála. Ég skil til dæmis ekki alla vini mína sem grétu ekki af hlátri og tárum yfir örlögum grískrar vampíru í Aþenu æsku minnar árið 1984 í hinni skelfilega skemmtilegu Norway. Hún fjallar um vampíruna Zanó, danspíru sem kemur til Aþenu á köldum vetrardegi árið 1984 og gistir á kvistherbergjum gistiheimila sem bjóða upp á líkkistur og þess á milli yrkir hann svo fallega: „Ég þarf að halda ryþmanum, ég þarf að halda áfram að dansa, annars gæti hjartað stoppað. Síðan hvenær klæðast hinir dæmdu lökkuðum skóm? Síðan hvenær dansa þeir undir diskókúlum, á milli litríkra skúrka, undir neonljósum innan um reykinn af rústunum.“
Ég skildi hins vegar betur samnemendur mína sem skildu ekki hvað var svona undurfagurt við þá torræðu en dáleiðandi bók Housekeeping eftir Marylinne Robinson. Enda útskýrði pakistanski prófessorinn okkar það vel fyrir okkur þegar hann horfði á Íslendinginn í salnum og lýsti yfir: „þessi bók hefur auðvitað norræna sál.“
Nokkrar týndar norrænar sálir rákust á hver aðra í París norðursins fyrr um sumarið. Ég hitti nokkrar af þessum sálum þar sem þær höfðu villst alla leið til Tékklands á kvikmyndahátíð og þar fundum við saman leigubíl til þess að komast á áfangastað. En við fundum sálina í leigubílnum og laginu sem við sungum þar, óð til hótelsins sem var svo ljótt en samt svo fallegt og hét Hótel Thermal og nafnið var ljótt en það var samt fallegt ef það var sungið rétt.
Á Karlovy Vary hitti ég líka margar útlenskar sálir sem voru yndislegar enda langaði þeim á bíó eins og þessari íslensku sál. Þar las ég minningar sem klappaðar voru á kúrdíska blóði drifna steina, týndist í albanskri eyðimörk og hló að argentínumönnum í blóðugum hefndarhug. Þetta hef ég allt ort um áður – en þar minntist ég samt ekki á þegar ég sat í aftursæti bíls og keyrði í burtu, vansvefta en hamingjusamur út af því að ég vissi núna að draumar gætu ennþá ræst. Einhvern tímann í framtíðinni. Framtíðinni sem er núna.
Gleðilegt ár, kæru hlustendur, þetta er okkar framtíð. Það eru ennþá vampírur sem vilja mergsjúga þessa framtíð okkar. En það er hægt að stoppa þær. Það er hægt að leiða þær út í sólarljósið þar sem steinrenna eins og hver önnur nátttröll. En það verður bara gert með því að vera samtaka í að yrkja þessa framtíð saman. Við þurfum að vanda okkur og gera þetta almennilega. Fyrir okkur sjálf og fyrir börnin og fyrir jörðina. Ef ekki þurfum við enn og aftur að leita að nýrri plánetu til að halda partíinu gangandi og það er ekki hægt af því að bensínið er að verða búið, það er ekki nóg eftir á mælinum til þess að komast nema í mesta lagi til Plútó sem er ekki lengur pláneta. Þess vegna þurfum við að finna ljóðrænt bensín á þessa gömlu jörð svo hún haldist áfram á sporbaug sínum og við villumst ekki í ómælisvíddum geimsins.