Við tók einhver hlýjasti vetur í manna minnum. Með öðrum orðum: það rigndi. Flesta daga fossaði vatnsflaumurinn eftir götunum og rennbleytti allt sem fyrir varð áður en hann hvarf ofan í göturæsin og þaðan aftur til sjávar. Allt virtist hafa lagst á eitt um að drekkja ísbjörnum heimsins – og mér með, það hvarflaði að mér að smíða örk. Og í takt við leysingarnar í náttúrunni var engu líkara en innra með mér ættu sér stað einhvers konar ljóðaleysingar; ég skrifaði ljóð dag sem nótt og hvar sem ég var stödd; ljóð sem söfnuðust fyrir í buxnavösum og handtöskum og peningabuddum þaðan sem þau ultu gjarnan þegar síst skyldi og höfnuðu á gangstéttarhellum og gólfflísum og lágu þar líkt og óvæntar játningar sem enginn hafði áhuga á að heyra:
Nálægð/Fjarlægð
færa mig fjær þér eða færa mig nær þér
aðeins þetta gefur tímanum merkingu
skrifa þér ástarbréf
fel það í brjóstahaldaranum
fylgist með þér velta sælgætisbréfi milli
fingranna
tíni vörurnar í innkaupakerru
finn að ég er að tærast upp
elda ragú
nær dauða en lífi
tæmi flösku af rauðvíni í sósuna
finn að ég er að svelta í hel
Textinn er úr ljóðasögunni Saltvatnaskil eftir Hrafnhildi Þórhallsdóttur, sem kemur út á morgun, miðvikudaginn 13. ágúst, frá forlaginu Nikka. Saltvatnaskil er fyrsta verk Hrafnhildar.