List er kapítal.
Tjáning, innra líf og sköpun er kapítal.
Samfélagskipan eins og við þekkjum hana byggist á verkaskiptingu sem byggist á arðráni og misskiptingu.
Sú verkaskipting þar sem sérstakir listamenn eru starfandi, framleiðandi tjáningu, innra líf og sköpun, á meðan hinir djöflast í verksmiðjunni – byggist á arðráni og misskiptingu.
Mýtan um listamanninn þrífst á því að að Jón og Gunna taki sig ekki til og haldi að þau séu einhverjir listamenn – að þau séu sjálf fullfær um að túlka sitt umhverfi og innra líf.
Mýtan um listamanninn þrífst á því að list sé háð forsendum fagþekkingar og hæfileika.
Mýtan um listamanninn þrífst á því að þau sem djöflast í verksmiðjunni trúi því sjálf að þau séu öðrum háð varðandi sköpun, tjáningu og ræktun innra lífs.
Það er þess vegna sem Sölvi Fannar er svo hættulegur. Það er þess vegna sem Sölvi Fannar er hættulegasta skáld á Íslandi í dag. Það er ekki bara af því að ljóðin hans eru ömurleg. Hallærisleg. Þó ömurlegheitin og hallærislegheitin og einlægnin spili vissulega sína rullu.
Sölvi Fannar er virtur þjóðfélagsþegn. Það breytist ekki sama hvað við hipsterarnir hlæjum að honum. Hann er einkaþjálfari fína fólksins. Hefur gefið út bækur og ábyggilega grætt einhverja peninga á því að þjálfa allt þetta fína fólk. Allaveganna ágætis mánaðarlaun. Örugglega.
En það var ekki nóg fyrir hann. Greinilega. Það var ekki nóg að vera virtur þjóðfélagsþegn, þjálfa fína fólkið, skrifa metsölubækur um megrunarkúra og fá fín mánaðarlaun.
Miracle er birtingarmynd skorts. Birtingarmynd sem grefur undan þjóðfélagsgerðinni. Grefur undan mýtunni að það sé nóg – til þess að vera lifandi, heilbrigð, hamingjusöm manneskja – að hafa fín mánaðarlaun og þægilega innivinnu.
Viðbrögð okkar eru birtingarmynd þess hve misskiptingin er rótgróin. Við undrumst hegðun hans, hlæjum að honum því hann áttar sig ekki á því að hann hefur ekki réttindi til þess að brúka fyrirbæri eins og tjáningu, sköpun og innra líf. Þessi fyrirbæri hafa fyrir löngu verið einkavædd og það er eins og helvítis hnakkinn sé of heimskur til þess að hafa átttað sig á því.
Hann á að vinna í verksmiðjunni og halda kjafti. Ef honum vantar svo einhverja lífsfyllingu á hann að borga fyrir hana í formi neysluvöru. Borga sig inn á tónleika, eða í leikhús eða kaupa bók.
Menning er ekki lengur eitthvað sem við gerum, heldur eitthvað sem við kaupum.
Undrunin á hegðun hans, sú staðreynd að við afgreiðum hann sem heimskingja, er ekki einungis birtingarmynd misskiptingarinnar, heldur birtingarmynd þess að hugmyndin um listamanninn sem eiganda atvinnutækjanna sköpunar, tjáningar og innra lífs hefur öðlast slíkast valdastöðu að okkur finnst beinlínis hlægilegt, ef ekki hættulegt, þegar einhver Kalli útí bæ lifir ekki eftir henni.
Vinna í verksmiðjunni á daginn. Neyta afþreyingar á kvöldin.
Áður fyrr.
Þegar sköpunin, rímurnar, sögurnar og kvæðin, var eitthvað sem fólk skapaði, og þar með átti. Áður en sköpun, tjáning og innra líf var bundin í styrkuumsóknir, eignarétt og fagfélög.
Áður fyrr.
Þegar rigningarvatnið var bara rigningarvatn.