Mynd: Sigga Björg Sigurðardóttir

Skáldskapur

Þetta hótel er búið að valda mér vonbrigðum frá því að ég elti gamla manninn sem bar töskuna mína upp marmarastigana.

Ég hef ekki gist á svona lélegum stað frá því að bók númer tvö um samíska rannsóknarlögreglumanninn Roger kom út. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir að húsið er gamalt, öll hús í þessu hverfi eru gömul, en ég átti ekki von á þessum kæfandi verksmiðjufjóluilmi, að lyftan væri yfirleitt biluð og herbergið svona slitið. Það eru sprungur í tveimur af gólfflísunum baðherbergisins sem lyktar af klór og salmíaki, húsgögnin eru dökk og gömul og glugginn snýr að portinu á bak við hótelið, ekki gosbrunninum eins og mér hafði verið lofað. 

En, þarna er lítið snyrtiborð sem ég get skrifað við og það verður að duga því ég er að brenna inni á tíma með næstu bók um áðurnefndan Roger.

Rúmið er líka bara þokkalegt og sjónvarpið í góðu lagi, svo ég byrja á að fá mér drykk úr minibarnum og horfa á myndskeið af kínverjum með grímur fyrir vitunum sem streyma  niður kínverska götu, allir í sömu átt. Þeir flæða í endalausum straumi út úr myrku anddyri byggingar sem skyggir á himininn og æst rödd segir eitthvað á kínversku. Fréttin er textuð á ítölsku en það segir mér ekki neitt.

Allt snýst um Kína þessa dagana og ég beini fjarstýringunni eins og vopni að skjánum. Gott að maður er ekki þar. 

Þetta er bara notalegt og mér rennur í brjóst, líklega dotta ég í einhverja klukkutíma, enda lítið sofið síðastliðin sólarhring.

Þá hringir móttökustjórinn og heimtar að ég komi strax niður á fund. We have a meeting, segir hann ábúðarfullur. Eins og hann sé að kalla fólk á stjórnarfund hjá Ericsson.

Við erum í sóttkví, tilkynnir hann okkur um leið og ég kem inn í móttökuna.  

Þegar ég lít í kringum mig blasa við mér gapandi samgestir mínir og alvara málsins síast inn í dofinn hugann. 

Mín fyrstu viðbrögð eru að þreifa eftir símanum í jakkavasanum, en hann er ekki þar. Líklega hef ég gleymt honum í herberginu. 

Ég reyni að útskýra fyrir tornæmum móttökustjóranum að ég er ekki smitandi. Að ég setti grímuna upp strax á Arlanda, að ég kom í einkabíl á hótelið, að ég er eldhress og að ég verð að komast á mikilvægan fund á morgun hjá forlaginu sem ætlar að láta þýða bókina mína.

En maðurinn tekur engum sönsum, þarna er kæfandi ilmvatnslykt, allir tala hver upp í annan og lyftan er enn biluð. Mér er þungt þegar ég geng upp stigana. Er ég vanur að vera svona móður? 

Þegar ég kem upp í herbergið leita ég allstaðar að símanum en hann er ekki þar. Þá man ég að hann var í töskunni með hleðslutækjunum og uppgötva mér til skelfingar að hún er heldur ekki í herberginu. Líklega hef ég gleymt henni í leigubílnum.

Mér dettur í hug að bílstjórinn hafi skilað töskunni í móttökuna en þar kannast enginn við það og þegar ég ætla að snarast út til að gera eitthvað í málinu mæti ég manni sem lítur út eins og hermaður úr fyrri heimsstyrjöldinni og otar að mér eldgamalli byssu um leið og hann æpir eitthvað á ítölsku.

Ég er ekki bara innilokaður, ég mun ekki geta hlaðið tölvuna og er auk þess símalaus. Ég sem er alltaf með síma. Sef með hann við koddann. Andardrátturinn verður hraður, ég ræð ekki við hann og skjálfhentur helli ég úr lítilli rauðvínsflösku í glas, sé eftir gusunni sem lendir á borðinu og heiti sjálfum mér að drekka minna þegar ástandið verður aftur eðlilegt. Taka kannski pásu? Hætta kannski alveg?

Svo róast ég, man eftir að ég hlóð tölvuna á flugvellinum og þegar ég athuga málið reynist hún vera með 17% hleðslu. 

Í vasabókinni minni eru samskiptaupplýsingar Lunu, tengiliðsins sem ítalska útgáfufyrirtækið skaffaði mér, og ég sendi henni póst. 

Þú verður að finna þessa tösku. Þar eru hleðslutækin og síminn, leigubílstjórinn er örugglega með hana.

Ég er næstum búinn að slökkva á tölvunni þegar Luna loksins svarar og hún virðist fjarræn og upptekin. Segist geta hringt í mig seinna í dag, sem er fáránlegt í ljósi aðstæðna, og ég læt hana ekki sleppa. 

Þetta er áríðandi! Og ég er ekki með síma, manstu? segi ég.

Luna er ekki sammála. Svonasvona, Æsingur er þetta. Ég er önnum kafin og þú átt nú sök á þessu sjálfur. Satt að segja finnst mér ólíklegt að þessi taska finnist, hér eru allir alltaf að týna einhverju og oftast finnst það aldrei aftur. Róm er stórborg, ekki einhver sænskur smábær. 

Manneskjan er bæði löt og móðgandi.

En ég er í sóttkví hér! Tölvan er minn vinnustaður og í símanum eru öll númerin sem ég þarf að nota, öll samböndin! Ég get ekki verið án hans.

Ok ok ok, segir Luna, rólegur.

Mig grunar að hún sé að gera eitthvað annað á meðan þessi samskipti eiga sér stað.

Þú verður líka að leiðrétta þennan misskilning hjá hótelmóttökunni varðandi sóttkvína. Ég reyni að hljóma mynduglega. Ég á erfitt með svona stress, það truflar mig. Og eins og þú hefur kannski heyrt, þá á ég að skila handriti eftir tvo mánuði. Ég get ekki skrifað undir þessum kringumstæðum.

Luna virðist annars hugar þegar hún lofar að reyna að bjarga þessu og þó samtalið gefi ekki tilefni til bjartsýni verð ég að sætta mig við það.

Ég slekk á tölvunni til að spara hleðsluna, geng um gólf, kveiki bara á henni við og við örstutt á meðan ég bíð eftir skilaboðum frá Lunu sem láta á sér standa. 

Það er gömul áfengislykt af mér, lófarnir eru sveittir og mér er óglatt. Þegar ég sé sjálfan mig í speglinum fyrir ofan snyrtiborðið hvarflar að mér að ég sé að fá þessa pest og það fer um mig. Ég þarf að komast út úr herberginu og ná í eitthvað að borða svo ég vind mér í jakkann, bursta tennurnar og set gel í hárið áður en ég fer á veitingastað hótelsins. 

Inni í hálfmyrkri setustofunnar situr gamall og virðulegur karl í snjáðum svörtum jakkafötum og hvítri skyrtu og við þetta skartar hann breiðu dökkrauðu bindi. Hann horfir spenntur á stóran skjá sem sýnir úrslitaleik frá heimsmeistaramótinu í fótbolta 1982 þar sem ítalir sigruðu þjóðverja og

það hlakkar í karlinum í hvert skipti sem heimamönnum gengur vel. Þegar ég kem inn, bendir hann glaður á skerminn og ávarpar mig á ensku. 

Loksins höfðu þeir vit á að ná aftur í alvöru fótboltamenn! hrópar hann hrifinn. Þessir strákar sem þeir hafa sett inn á völlinn undanfarið eru eitthvað svo slappir. Og búningarnir þeirra voru ljótir. 

Karlinn snýr sér aftur að sjónvarpsskjánum. 

Þeir halda sér alveg merkilega vel við, bætir hann svo við og það er undrun í röddinni. Sjálfsagt allar þessar æfingar.

Ég hika, veit ekki hvort hann er að bíða eftir svari. Kannski horfir hann aftur og aftur á þennan leik?  Kannski er þetta bara eins og að lesa sömu bókina aftur og aftur?

Tautandi forða ég mér út í dagsbirtuna, á snotra útiverönd með útsýni yfir Trevi gosbrunninn. Einhver hefur límt teip á gólfflísarnar, búið til ferhyrninga í kringum borðin, en límbandið er strax farið að losa á endunum og krullast upp í sólinni. Ég vel borðið með besta útsýninu, set upp sólgleraugun og halla mér aftur með andlitið á móti sólinni sem er svo miklu hlýrri hér en heima í Svíþjóð. Ef ég hefði ekki lent í þessu bölvuðu veseni, þá liði mér vel.

Allt í einu er potað í öxlina og ég hrekk upp. Það er þjónninn sem hefur læðst aftan að mér. 

Má bjóða þér drykk fyrir matinn? spyr hann og ég panta campari.

Þegar þjónninn kemur með glasið og hnetur í skál brosir hann smeðjulega og ég velti fyrir mér hvort hann ætlist til að fá þjórfé.  En þar sem ég er ekki með neitt á mér nema kortið er ég löglega afsakaður, fæ mér sopa af drykknum og kveiki í sígarettu

Fljótlega koma hinir gestirnir, einn og tveir í einu. Þarna er enginn sem mig langar að eiga samræður við en asísk kona sest við borðið hjá mér. Ekki ólagleg. Ég brosi til hennar, við kynnum okkur og það örlar á áhuga í augnaráði konunnar. Hún heitir Paula en segir ekki meira við mig. Malar bara eitthvað við þjóninn á ítölsku sem ég skil ekki. 

Þegar ég lygni aftur augunum, sé ég fyrir mér kínverjana í sjónvarpinu og það flögrar að mér að þessi Paula gæti verið smituð af veirunni. Tilhugsunin er svo þrálát að það endar með að ég dreg stólinn aftur, sný mér frá konunni og þykist vera að skoða blómaskreytinguna við handriðið. 

Að loknum kvöldverðinum er okkur vísað í setustofuna og ég sest hjá gömlum þjóðverja. Þetta er reffilegur karl, flott klæddur og skemmtilegur, sem hafði rekið lúxushótel í New York í mörg góð ár, eða þar til Lehmanbræður fóru á hausinn og hann í kjölfarið. 

Þetta var skemmtilegur tími, segir hann og kinkar kolli aftur og aftur. Maður hitti áhugavert fólk. Og kynntist fallegum konum, ef maður er fyrir svoleiðis. Þjóðverjinn blikkar kankvíslega. 

Þarna umgekkst karlinn kvikmyndastjörnur eins og til dæmis Sharon Stone, sem er góð vinkona hans og ónefnda forsetafrú sem deildi með honum kaffibollum og bakkelsi á sunnudögum á meðan lífverðirnir biðu við dyrnar.

Tíminn líður hratt á meðan við spjöllum og manninum liggur greinilega ekkert á. 

Sambýlismaður minn er  kominn á sjúkrahús segir hann. Ég er einn eftir hér og er satt að segja mjög hræddur um hann. Angelo er nefnilega kominn með þessa veiru sem er að setja allt á annan endan.

Ég kveð manninn og stend upp.

Það þyrmir yfir mig þegar ég kem aftur í hótelherbergið. Vandamálið með töskuna, símann og hleðslutækin verður ekki umflúið og þegar ég athuga tölvuna til að sjá hvað Luna hefur verið að gera í málinu er þar ekkert að finna nema spam og facebookstatusa og aðeins 7% eftir af hleðslunni, svo ég skerpi tóninn. 

Luna mín, þú veist jafn vel og ég hvað þessi tími er mikilvægur fyrir mig og að ég get ekki verið símalaus, helst hefði ég þurft minn eigin. En ef hann finnst ekki verður þú að kaupa nýjan fyrir mig og koma honum til mín sem fyrst og auk þess verð ég svo að fá hleðslutæki fyrir Macbook air, Magsafe2.

Ég kveiki aftur á tölvunni um miðnættið sem nú sýnir 4% hleðslu, en þar er ekkert frá Lunu. Á meðan ég hátta mig og bursta tennurnar sem ég næsta bréf í huganum en þá kemur loksins lífsmark. 

Þú ert í sóttkví og ekkert hægt að gera í því. Sættu þig við það. Fann ekki töskuna og þú getur varla ætlast til að ég æði á milli leigubíla til að leita að henni fyrir þig, þó ég sé auðvitað reiðubúin að gera allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa þér. 

Ég get samt glatt þig með að ég keypti nýjan síma og lagði meira að segja út fyrir honum sjálf, en dyravörður með byssu bannar mér að koma inn í hótelið og neitar að taka  neitt til þín. Hann segir að það gætu verið veirur á þessu, að hann megi ekki hleypa neinu inn, að hann sé ekki sendill og að hans starf sé að verja gesti hótelsins fyrir ágangi auk þess að sjá til að þeir stingi ekki af og smiti annað fólk.

Það fer um mig. Þessi dyravörður er greinilega ekki alveg í lagi. 

Þú verður að koma þessu til mín eftir einhverjum leiðum. Ég er svo æstur þegar ég skrifa þetta að ég ríf óþarflega langan tannþráð úr boxinu.

Hvað viltu eiginlega að ég geri? Fórni lífinu svo þú fáir síma? Ha? Ég held að dyravörðinn blóðlangi til að prófa þessa gömlu byssu á einhverjum. Þetta er ekkert grín.

Ástandið er enn verra en ég hélt, tíminn rennur frá mér og á meðan ég flossa tennurnar fæ ég hugmynd. 

Ég er á þriðju hæð baka til, glugginn snýr að portinu og ruslatunnunum. Ef ég renni þarna niður tannþræði með stórum sokk í endanum getur þú sett þetta í hann.

Luna er alltaf jafn þver. Þú ert ekki í lagi. Ég læt ekki hafa mig út í svona vitleysu.

Ef þú gerir þetta ekki þá sé ég til að þú verðir rekin. Skjárinn verður svartur. Tölvan er dauð.

Um kvöldið sest ég við opinn gluggann og bíð eftir Lunu. Mér finnst ég vera að springa og langar að spangóla en læt mér nægja að laumast til að kveikja í sígarettu þrátt fyrir gulnaðan reykskynjarann yfir rúminu. Það eru bara fjórar eftir í pakkanum en ég hlýt að geta keypt meira á barnum. Kannski ætti ég að nota tækifærið og hætta að reykja? Þetta er auðvitað engin hollusta. 

En nú er ekki rétti tíminn.

Eftir langa bið birtist skuggi hjá ruslatunnunum. Konan er þybbnari en ég hélt og ég er reiður yfir seinagangnum. Luna hefur ekki verið að flýta sér hingað, hún er reikul í spori og hefur greinilega komið einhverstaðar við á leiðinni. 

En ég þori ekki að æpa á hana út um gluggann, svo ég slekk og kveiki á ljósinu til skiptis og hvísla nafnið hennar hátt út um gluggann. 

Loksins kemur hún auga á mig og hlær hátt og ruddalega.

Ég sussa á hana. Kæri mig ekki um að vekja eftirtekt dyravarðarins og flýti mér að renna niður þreföldum tannþræðinum með ullarsokkinn á endanum.

Flissandi treður Luna einhverju í sokkinn og ég dreg hann varlega upp.

Þegar hún fer ómar nístandi hlátur um portið og dyravörðurinn kemur aðvífandi. Ég slekk ljósið, loka glugganum hljóðlega og dreg kyrfilega fyrir.

 

Í sokknum er ekkert hleðslutæki fyrir tölvuna, bara lítill kínverskur sími af ódýrustu gerð ásamt hleðslutæki. Þetta er ekki einu sinni snjallsími heldur svona apparat sem lítil börn eru stundum með og mér sárnar nískan í konunni. En hún hefur  alla vega haft vit á að setja kort í hann og þetta er betra en ekkert. 

Verst bara með öll símanúmerin sem ég þarf að finna aftur. Ég veit ekki hvort ég er sár út í Lunu eða þakklátur þegar ég rúlla aftur saman tannþræðinum og set hann á hilluna í baðherberginu. Sokkurinn finnur félaga sinn og lendir í litlu skúffunni undir sjónvarpsskjánum, en síminn fer í hleðslu.

Þrátt fyrir alla þessa erfiðleika sef ég eins og steinn alla nóttina og morguninn eftir er ég eins og nýr maður.

Svona ástand getur nýst mér og ég þarf að vinna. Bækurnar mínar seljast vel og sú næstsíðasta Fimbulvetur var meira að segja tilnefnd til verðlauna (sumir sögðu reyndar að það árið hefði verið vitlaust gefið og að konan sem fékk þau hafi ekki verið vel að þeim komin, en það er annað mál).

Alla vega. Ég er því miður ekki enn byrjaður á þessu handriti sem útgefandinn er alltaf að staglast á. 

Verkkvíði hrjáir mig, eða kannski er það ritstíflan sem svo margir tala um? Ég hallast samt helst að því að ástæðan sé oróleikinn sem er í loftinu þessa dagana. Og svo er ég líka hættur að þola rannsóknarlögreglumanninn Roger. Get ekki hugsað mér að skrifa orð í viðbót um þann mann.

En ég verð að skrifa bók og það hér og nú.

Eftir hálftíma æfingar á gólfinu fer ég í morgunmatinn, sem er reyndar ágætur, 

og á meðan ég borða lít ég í kringum mig. Skoða fólkið sem deilir prísundinni með mér.

Næst mér sitja tvær breskar konur. Þær eru svo gamlar að mér verður hugsað til Veru Lynn, líklega eru þær einmitt fæddar um að leyti.  Annars er ég er ekki viss, það er erfitt að reikna svona konur út. 

Önnur lítur út eins og menntakona í enskri bíómynd. Ég held að hún gæti verið kennari í háskóla, kannski sálfræði eða jafnvel bókmenntir. Ég þarf að tala við hana, athuga þetta. Hin er villtari, hugsanlega gömul listakona? Rauðsokka?

Sú kínverska er reyndar flott. Nú er hún í selskinnsvesti, hefur hún sett upp hárið og er með eldrauðan varalit. En það er eitthvað við hreiminn sem stemmir ekki. Hann er of kunnuglegur, ég hef oft heyrt hann áður en kem honum ekki fyrir mig.

Áhugaverðust er kona með skrítinn hund, mjög ógeðslegan. Ég þarf að kynnast henni og svo þarf ég líka að fá fleiri sögur frá hóteleigandanum fyrrverandi.

Það má alveg nota þetta fólk.

Reyndar eru aðrir gestir ekki eins áhugaverðir, eins og til dæmis ungur síðhærður norðmaður. Norðmenn eru alltaf frekar óspennandi þó ég útiloki ekkert, og tvær kerlingar sem mér heyrist tala íslensku og hollensk fjölskylda með fýlulegan ungling kveikir ekki heldur í mér. 

Ef ég hefði ætlað að skrifa um Roger hefði náttúrlega mátt nota ruglaða karlinn við sjónvarpið sem fórnarlamb en það verður ekki af því.

Ég fæ að leita að símanúmerum í tölvunni í móttökunni undir vökulu auga móttökustjórans. Svo fer ég upp til mín og byrja að hringja í vini mína og samstarfsfólk. 

En ég kemst aldrei í gegn, fæ alltaf eitthvert svar á ítölsku.

Þegar ég fer aftur niður í móttökuna er maðurinn tregur til að lána mér síma en þegar ég loksins herja hann út hjá honum fæ ég sama ítalska svarið. Ég reyni að fá móttökustjórann til að hjálpa mér, en hann virðist undrandi á þessu og ypptir bara öxlum.

Áður en ég fer aftur í herbergið kem ég við á barnum í veitingahúsinu og kaupi sígarettupakka og viskíflösku á okurverði.

Hurðin lokast á eftir mér með smelli sem endurómar í dimmum ganginum. Ég hef aldrei verið svona einn.

Sitjandi á rúmbríkinni með drykk, dettur mér í hug að reyna að hringja í Lunu og viti menn, síminn virkar.

Þetta er Luna, segir hún á ensku og það er greinilegt að hún þekkir númerið.

Halló! hrópa ég ósjálfrátt, þessi sími er ekki í lagi ég næ ekki í neinn!

En þú ert að tala við mig, segir hún. Röddin er með þykkum ítölskum hreim, djúp og næstum sexí ef konan væri ekki svona óþolandi.

Halló! Þú ert að tala við mig, endurtekur hún.

En ég næ ekki í neinn annan.

Skrítið. Þú verður þá bara að hringja í mig ef þig vantar eitthvað, segir hún og ég fyllist vonleysi.

Við vitum líka bæði að þú hefur nóg annað að gera en að mala í símann, bætir hún glaðlega við. Þér þarf ekki að leiðast. Átt þú ekki að vera að skrifa?

Því ræð ég nú líklega sjálfur, segi ég reiður.

Já, segir hún og leggur á.

Þegar ég kveiki á sjónvarpinu blasir enn við mér fólk með grímur, gamalt fólk sem horfir út um glugga, veikt fólk liggjandi á börum, heilbrigt fólk á hlaupum með börur, líkkistur úti á götum og galtómar flughafnir.

Ég slekk á sjónvarpinu, tek fram tannþráðinn og strengi línur yfir gólfið með því að binda hann við stólfætur og borð og þegar ég finn ekki meira að hnýta í, legg ég þræði á gólfið þar til ég er kominn með tíu reiti.

Fyrst skrifa ég nafn asísku konunnar, Paulu, á síðu í vasabókinni minni, ríf hana út og legg í einn reitinn. Því næst skrifa ég nafn þjóðverjans og svona held ég áfram, koll af kolli, þar til ég er kominn með níu gesti, sem ég sný að eða frá hverjum öðrum. Þá er bara einn reitur eftir og eftir augnabliks hik skrifa ég nafnið mitt, ríf síðuna út og legg hana í síðasta reitinn, í hornið næst mér þannig að nafnið er á ská og snýr að öllum hinum miðunum. Roger er ekki með.

Svo sæki ég skrifblokkina sem er merkt hótelinu. Ég hef smágerða rithönd.

Úr óútgefnum sagnasveig, Hótel Aníta Ekberg.