Að vera eins og aðrir


Ég ætti ekki að vera svona eins og ég er.
Ég get ekki látið fólk sjá mig svona.
Ég get ekki hagað mér svona.
Ég ætti að reyna að drulla mér
að vera eins og aðrir.
Það er nú ekki hægt að láta svona eins og ég læt.
Það virðist ekki falla vel hjá öðrum
að ég skuli vera svona eins og ég er.

Að þú skulir ekki skammast þín
þvílíkt og annað eins
hef ég ekki séð um dagana

Það þarf að vera rétt mynd af þér.
Maður hagar sér almennilega
eins og aðrir.
Maður bara hagar sér ekki svona eins og þú gerir
því í ósköpunum þarft þú alltaf
að vera öðruvísi en aðrir.
Því getur þú ekki druslast til
að vera almennileg manneskja.
Þegar allir eru eins
þá gengur lífið betur fyrir sér
þá ganga hlutirnir upp
þá líður fólki betur þegar allir eru eins.

Ó þvílíkt og annað eins
hvernig fer ég að því ?

Þú gerir eins og aðrir gera
það getur nú ekki verið auðveldara en það.
Þú hermir eftir
í einu og öllu sem fólkið í kringum þig gerir.
Þú lest sömu sögurnar
og lætur sömu sögu gerast aftur og aftur.
Sömu söguna
aftur og aftur
Sama sagan
aftur og aftur.