„Crush humanity out of shape once more, under similar hammers, and it will twist itself into the same tortured forms. Sow the same seeds of rapacious licence and oppression over again, and it will surely yield the same fruit according to its kind.“
Einhvern veginn finnst mér alltaf eins og hver bókaumfjöllun sem ég skrifa hérna sé beint framhald af síðustu. Eða a.m.k. síðasta ár eða tvö. Í þessu tilfelli fjallaði t.d. ég síðast um þýðinguna á verki Dostojevskí, Hinir smánuðu og svívirtu. Þar ræddi ég einmitt Dickens og tengslin við Dostojevskí. Sem er einnig áhugavert að því leyti að ólíkt því sem ég ræði þar, er hér eitt af stærstu og vinsælustu verkum Dickens sem er til umfjöllunar – í íslenskri þýðingu Þórdísar Bachman sem kom út fyrir síðustu jól hjá Uglu forlagi.
Er ég kominn út í einhverja bókmenntadulspeki? Eða bara almennt að missa vitið?
Dickens og viðtökurnar í gegnum tíðina
Hvort sem er þá er Dostojevskí svosem bara fínasti útgangspunktur. En það nítjándu aldar raunsæi sem hann og Dickens buðu uppá svo til á sama tíma eru líklega eins miklir andstæðir pólar og mögulega er hægt að og samt teljast til sömu stefnu. Dickens býður ekki uppá neitt í líkingu við brútal sjálfssálgreiningu, martraðarkenndar sýnir og dark night of the soul persóna Dostojevskís. Dickens einkennist öllu heldur af þessari umfangsmiklu og hlýju mannúð öðru fremur – sem er auðvitað undirliggjandi drifkraftur hinnar frægu og skörpu samfélagsgagnrýni og fordæmingu á félagslegu óréttlæti. Til að undirstrika þennan mikla mun er bara hægt að reyna að ímynda sér Dostojevskí skrifa verk eins og The Pickwick Papers og sjá hversu absúrd það er. Þrátt fyrir að vera fyrsta skáldsaga Dickens, og mun minna lesin og þekkt en þær stærstu, er hún að mati þessa gagnrýnanda annað besta verk hans á eftir Bleak House. Hún er einfaldlega frábær.
Þrátt fyrir gríðarlegar almennar vinsældar, sem ná alveg sleitulaust frá hans tíma til okkar, þá hefur Dickens þó fengið alls konar viðtökur í gegnum tíðina hjá gagnrýnendum og öðrum rithöfundum. Rennum aðeins yfir eitthvað af því.
Ef við byrjum á Orwell þá er hann fyrir það fyrsta töluvert gagnrýninn á hann, sérstaklega framsetningu hans á aristókrata- og borgarastéttinni (sem við komum betur að neðar). Heldur einnig fram að ást á Dickens hljóti alltaf að einhverju leyti einnig að vera æsku nostalgía, og segir að engin fullorðin manneskja geti lesið Dickens án þess að finna fyrir takmörkunum sínum. Hinsvegar kemur hann með betri lýsingunum á Dickens sem ég hef rekist á þegar hann hrósar einnig „naive generosity of mind“ hans, eitthvað sem hann vill meina að virki eins og akkeri fyrir hann, heldur honum ávallt við efnið í öllum verkum sínum. Michael Schmidt hefur einnig sagt samfélagsgagnrýni hans, ástríðu fyrir félagslegu réttlæti og samúð með hinum fátæku og undirokuðu stafa af gjafmildri reiði eins og hann kallar það. Reiði sem er í stöðugum vonbrigðum án þess þó að missa vonina. Harold Bloom segir hann keppa við Jane Austen um titilinn „the peopler of the world“ (sem er einnig ein af sárafáum kanónuhöfundum sem getur keppt við hann í almennum vinsældum). Því það eru einungis verk höfunda eins og Shakespeare og Chaucer sem bjóða uppá meiri víðáttu í verkum sínum: yfir persónur, mannlegt líf og samfélagið. Verk hans reiða fram heilan heim þar sem allt virðist geta gerst – oftast af tilviljun sem eins og allir lesendur hans kannast við er áberandi og fyrirferðamikil frásagnartækni sem gengur þó oftast (kannski ekki alveg alltaf) fullkomlega upp vegna þeirrar ítarlegu vinnu sem hann leggur í smíði þess heims. Heim með öllum sínum smáatriðum og ekki síst persónum.
Besta lýsingin á kraftinum og töfrunum sem finna má í verkum Dickens kemur þó frá John Ruskin. Ég gat ekki fundið uppá neinni íslenskri þýðingu sem hljómaði nógu vel að mínu mati. Hann kallaði þetta stage fire.
Persónur Dickens eru svo alveg sér á báti og allir lesendur hans eiga sér sína uppáhalds eða eftirminnilegustu. Í mínu tilfelli myndi ég segja Samuel Pickwick og Sam Weller í áðurnefndri bók, Thomas Gradgrinde í Hard Times (sem ég hef einnig skrifað um hér), John Jarndyce og Harold Skimpole í Bleak House, svo einhverjar séu nefndar en ég læt þetta duga. Ástæðan fyrir því að engin spurning sé hver mesti karlkyns skáldsagnahöfundur Englands allra tíma sé liggur fyrst og fremst í þessari snilligáfu þegar kemur að persónusköpun. Persónur hans hoppa hreinlega út eins og um einhverja flipabók sé að ræða. Lesandinn heyrir einstakar raddir þeirra og jafnvel talsmáta í minnstu smáatriðum. Persónurnar eru lifandi á einhvern einstakan dickensian hátt. Það hugtak sem oftast er notað yfir bágbornar félagslegar aðstæður óréttlæti verka hans en hann kæmi þó auðvitað aldrei nærri því eins vel til skila án persónanna sem skipta þannig öllu máli í því samhengi. Í mörgum tilfellum er þó auðvitað um karikatúr að ræða (t.d. Gradgrinde) en ávallt er þó haldið einhverjum hárfínum, meistaralegum balans.
Dickens hefur þó fengið á sig ýmis konar gagnrýni af (mis)réttmætu tagi. Vinsældir hans einar og sér hafa löngum þótt ástæða til tortryggni á ýmsum stöðum – gagnvart því að svo vinsæll rithöfundur gæti í raun og sanni verið slíkur listamaður á sama tíma. Hann getur auðvitað leiðst útí nokkuð yfirdrifna væmni, sentimentalisma og melódramatík á tíðum, sem bent hefur verið á til útskýringar á þessum vinsældum meðal almennra lesenda (Oscar Wilde sagði t.d. að það þyrfti að hafa hjarta úr steini til að geta lesið um dauða Little Nell í The Old Curiosity Shop án þess að hlæja). Margar af kvenkynspersónum hans, eins og t.d. Esther Summerson í Bleak House, hafa einnig verið gagnrýndar fyrir að vera byggðar á flötu og klisjukenndu módeli (fátækar ungar konur sem hafa gengið í gegnum traumatiserandi erfiðleika en eru þó fullkomlega hjartahreinar og góðmennskan uppmáluð). F.R. Leavis t.d. sagði hann skorta „total significance of a profoundly serious kind“. Nabokov – með sína sérstöku fagurfræðikenningu – úthúðar allri samfélagsgagnrýni sem hann hefur uppá að bjóða, og þar með flest öllum verkum sínum. En í frægu fyrirlestrum sínum um bókmenntir tekur hann þó fyrir Bleak House sem hann vill meina að sé raunverulegt og stórfenglegt meistaraverk.
Endurlífgun
Saga tveggja borga, eða A Tale of Two Cities á frummálinu, kom upprunalega út árið 1859 og er sérstæð í höfundarverki Dickens að því leyti að hún er ein af einungis tveim sögulegum skáldsögum (e. historical novel) sem enski meistarinn lét eftir sig (hin er Barnaby Rudge).
Efnistökin eru ekki beint einföld eða ómetnaðarfull. Hér er það engin önnur en franska byltingin sem er í bakgrunni og í raun strúktúrar allt verkið og frásögnina. Þó ekki sé endilega hægt að segja að Saga tveggja borga fjalli endilega beinlínis um byltinguna sem slíka. Þetta er engin Ten Days That Shook The World sem við erum að tala um. Frásögnin er þó samofin henni, symbólisma verksins og þemum og þannig segir Dickens vissulega töluvert um og tekur afstöðu til byltingarinnar á sama tíma. Fyrst aðeins almennt um verkið.
Ég fer vanalega alltaf aðeins yfir söguþráðinn í svona umfjöllunum. Sem er ávallt grútleiðinlegasti hlutinn að skrifa, hvað þá í 19. aldar skáldsögum vel á leið í þúsund síður (Saga tveggja borga er þó einungis um 600 bls.) Ég ætla hreinlega bara að sleppa því hérna. Söguþráðurinn eða plottið sem slíkt er auðvitað ekki þar sem flugeldarnir liggja í slíkum verkum, sé ekki tilganginn og nenni því hreinlega ekki. Vona að mér sé fyrirgefið það. Eða í rauninni ekki. Er alveg sama.
Grundvallarþema Dickens hér er einfaldlega hið sama og titill fyrstu bókarinnar: endurlífgun. Sem má þó benda á að er Recalled to Life á frummálinu en ekki Resurrected eins og „Endurlífgaður“ gefur til kynna. Þetta er þó engin gagnrýni á þýðinguna í sjálfu sér, er vandséð hvernig hægt væri að gera betur. En mikilvægur díteil sem ætti að hafa í huga í ljósi þess að Recalled to Life var upprunalegur titill verksins í heild. Dickens breytti því svo á endanum í A Tale of Two Cities.
Dickens rannsakar þetta þema á ýmsan flókinn og meistaralegan hátt sem þræðir sig í gegnum allt verkið. Hér gefst ekki rúm til að ræða meira en þrjár mikilvægustu birtingarmyndir þess. Í fyrsta lagi er það augljóslega Manette, sem titill fyrstu bókarinnar vísar í – læknisins sem er kominn aftur til lífs eftir 18 ára fangelsisvist. Hið seinna má finna i frægu lokasenunni, þegar Sidney Carton fórnar sér öðlast þannig endurlausn fyrir sóað líf sitt og töpuðu tækifærin. Lokaorðin eru tjáning á endurlífgun hans sem hetja og píslavottur. Þriðja vísar svo auðvitað til byltingarinnar sjálfrar og hvernig hún fór út af sporinu og endar svo gjörsamlega úr böndunum að Dickens gefur að vissu leyti hreinsunareld til kynna. Því París er borgin sem steypist í glötun, étin upp til agna af borgurum sínum sem vissulega var ýtt alltof of langt – en mótspyrnan ýtti borginni allri fram af bjargbrúninni. Eitthvað sem Dickens skilur þó sem einhvers konar mikilvæga framþróun sögunnar, þar sem hún mun rísa aftur upp og öðlast nýtt líf og bjartari framtíð – eitthvað sem hann vonast þó eftir hin borgin sleppi við.
Hér vandast aðeins málin. Þrátt fyrir að með engu móti sé hægt að segja að Dickens beri blak af stétt aristókrata, þvert á móti, eins og hann tjáir í gegnum persónuna sem nefnist Monsigneur: einhvers konar andlaust og slímugt kvikindi, hvers kerti brann út fyrir löngu. Að binda enda á tíma hans og yfirráð stéttar hans, og lyfta þar með bændakúguninni, er eitthvað sem ekki er hægt að skilja Dickens öðruvísi en að sé bráðnauðsynlegt verkefni. Jafnvel bara eitthvað sem snúa þarf úr hálsliðnum af miskunn líkt og um særðan fugl væri að ræða.
Senan þar sem keyrt er yfir bændastrákinn er auðvitað sláandi. En Dickens reiðir fram ýmis önnur áhugaverð smáatriði:
„Hvað lystisemdir Monsigneurs varðaði, almennar og sértækar, var hann á þeirri göfugu skoðun, að heimurinn hefði verið skapaður fyrir þær einar. Orðanna hljóðan í lífsreglum hans – breytingin á frumtextanum munaði aðeins einu fornafni, sem er nú ekki mikið: „Monsigneur tilheyrir jörðin og allt sem á henni er.“ Bls. 165.
Dickens lýsir því hvernig Monsigneur veit ekkert né skilur um fjármál, hvorki eigin né önnur, ásamt því að:
„Holdsveiki óraunveruleikans setti mark sitt á sérhvert andlit í stásstofum Monsigneurs.“ Bls.168.
Samúð hans og stuðningur liggur með skýrum hætti hjá sauðsvörtum almúganum, þ.e. stétt bláfátækra og kúgaðra bænda sem kveikti bál frönsku byltingarinnar. Finna má fjölda næmra og áhrifaríkra lýsinga og sena, jafnvel eftir að hryllingurinn er farinn af stað. Svo eitt dæmi sé tekið:
„Það var ekki fyrr en eftir myrkur að konur og menn sneru heim til svangra og gargandi barna sinna. Þá mynduðust langar biðraðir fólks hjá bakaranum, sem beið þess þolinmótt að geta keypt vont brauð og á meðan það beið með tóma maga, drap það tímann með því að faðma hvert annað vegna sigra dagsins og endurlifa hvert smáatriði. Smátt og smátt fækkaði í röðum þessa tötralega lýðs og svo kviknuðu ræfilsleg ljósin í gluggunum, eða litlir eldar voru kveiktir á götunum, svo fólk gæti eldað kvöldmatinn saman og neytt hans síðan fyrir utan hjá sér.
Maturinn var fátæklegur og ónógur og algerlega laus við allt kjöt, eða sósu með þurru brauðinu. Þó gerði félagsskapurinn matinn nærandi og kætti þau eilítið. Feður og mæður sem höfðu tekið þátt í ódæðisverkum dagsins, léku sér nú við grindhoruð börn sín og þrátt fyrir veröldina umhverfis og framundan, voru allir elskendur vongóðir.“ Bls. 353.
Defarge hjónin eru mjög áhugavert dæmi. Af sumum er Dickens þar gagnrýndur fyrir ofannefndan karikatúr og yfirdrifna illsku. Þau hjónin eru þó töluvert flóknari, þó vissulega reynir Dickens í gegnum þau að halda fram að leiðtogar byltingarinnar urðu á endanum engu skárri en harðstjórarnir sem þeir gerðu uppreisn gegn. Sem má auðvitað gagnrýna, ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þessu sjálfur. Læt þó vera að fara nánar útí það og leyfi lesendum (sem ég geri auðvitað ráð fyrir að muni verða sér út um bókina um leið og lestri þessarar greinar er lokið) að dæma sjálfir.
En áhugavert er að Frúin er töluvert verri og minnir á ákveðna illsku, og hatur svo sterkt að það er jafnvel á tilvistinni sjálfri, sem við þekkjum vel – en erum vön að kenna við 20. öld:
„Það er satt sem frúin segir,“ sagði Jacques þriðji.
Hvers vegna að hætta? Það sýnir styrk okkar. Hvers vegna að hætta?“
„Ja,“ sagði Defarge, „einhvers staðar verðum við að hætta. Spurningin er bara hvar?“
„Við algera útrýmingu,“ sagði frúin.
„Stórkostlegt!“ krunkaði Jacques þriðji. Einnig Hefndin var stórhrifin.
„Útrýming er ágætis kennisetning, frú mín góð,“ sagði Defarge, fullur efasemda, „og almennt hef ég ekkert á móti henni…“ Bls. 533-534.
Byltingin étur góðar bókmenntir
Dickens lítur semsagt einhvern veginn svona á málin: bændastéttin og hinir undirokuðu, eftir svo langa og miskunnarlausa kúgun og hryllingaristókrata, hafði í raun hnignað á stig einhvers konar skepna – ástand sem er þó ekki því að kenna. Þegar allt flæðir loks yfir, þá er hún eins og einhvers konar hjörð af villidýrum – ófær um annað en að rífa allt í sig og tæta. Drekkja París í blóði í einhvers konar sjálfsmorðs frenzíu. Skilningur Dickens er þó engin hegelísk díalektík (þó marxískir bókmenntagagnrýnendur hafa vissulega fært fyrir því rök að Dickens reiði hér fram sögutúlkun að hætti díalektískrar efnishyggju – eitthvað sem er langt frá því að vera sannfærandi að mati þessa gagnrýnanda). Hér er semsagt ekki um neins konar sögulega nauðsyn að ræða – byltinguna hefði vel mátt koma í veg fyrir. En þegar hún var komin á visst stig, hinum lægst settu höfðu verið ýtt ákveðið langt útí horn, þá varð hún ekki umflúin. Hann virðist hafa ofurtrú á áhrifamátt einstaklinga – virðist ýja að því að efaristókratar hefðu einungis verið meira eins og Charles Darnay, þá hefði byltingin ekki þurft að eiga sér stað. Sýn Dickens einkennist því af vissri íhaldssemi, sem liggur auðvitað þá beinast við og væri áhugavert að bera saman við Edmund Burke í Reflections on the Revolution in France – eins og finna má eflaust ógrynni af og verður ekki farið í hér (fjallaði þó aðeins um íhaldssemi Burke hér).
Sem er afstaða sem auðvelt er að hafa samúð með, og jafnvel heillast af og fara að einhverju leyti á sveif með. Að minnsta kosti þegar þetta er Dickens sem reiðir hana fram. En máttur góðmennsku og persónudyggða, einfalda hversdags gæska litla mannsins, er auðvitað ein helsta ástæða þess að við lesum enska meistarann enn þann dag í dag.
Það problematíska við A Tale of Two Cities er kannski fyrst og fremst það hvernig Dickens skilur byltingar. Ekki einungis frönsku byltinguna, heldur byltingar yfirhöfuð. Því fyrir honum eru þær einfaldlega skrímsli sem honum hryllir við, eitthvað sem kemur úr Pandóruöskju með sömu afleiðingar. Og Dickens setur svo sannarlega fram á meistaralegan og einstaklega sannfærandi hátt – sem er einmitt vandamálið. Því verk hans er svo kraftmikið og býr yfir svo miklum áhrifamætti að framsetning hans á frönsku byltingunni stimplaði sig varanlega inní vestræna menningarvitund og hefur þar haft ráðandi áhrif sem ná allt til dagsins í dag.
Hér ætla ég einungis að taka eitt nýlegt dæmi: The Dark Knight Rises e. Christopher Nolan (sem ég hef einnig rætt hér – ég hef skrifað alltof mikið fyrir þetta vefrit). Undir augljósum áhrifum frá verki Dickens (Bane prjónar t.d. í einni senu eins og Frú Defarge) setur Nolan fram uppreisn og byltingu í Gotham – með augljósum vísunum í Occupy hreyfinguna einnig – sem einhvers konar absúrd sirkus í geðveikis spíral sem endar ávallt í dauða, glötun og tortímingu (þegar Batman er ekki til staðar þ.e.a.s.). Sem er í grunninn nokkurn veginn sýn Dickens á frönsku byltinguna, þó þessi tvö verk verða auðvitað á engan list- eða fagurfræðilegan hátt lögð að jöfnu. Meira í ólíkum sólkerfum. Eitthvað sem er hálf kjánalegt að þurfa að taka fram, en það er best að hafa allan vara á þessa dagana. Sértaklega þegar kemur að ofurhetjumyndum.
Hér gefst auðvitað ekki rúm til þess að ræða frönsku byltinguna að neinu ráði. Nokkur atriði þarf þó að minnast á. Til dæmis að lýsingar Dickens og ímyndirnar sem hann vekur upp af la Terreur eru, eins og áður segir, svo ótrúlega kraftmiklar að þær eru í rauninni bara sú hugmynd sem vestræn menning hefur af byltingunni. Sú hugmynd láist þó alltaf að setja hrylling Ógnarstjórnarinnar í neitt víðara samhengi. Hér væri bara t.d. hægt að hugsa um Napóleonsstríðin aðeins seinna. Minni orrusturnar, sem enginn hefur heyrt um, var blóðbað af stærðargráðu sem hlægilegt er að bera aftakanir Ógnarstjórnarinnar saman við. Austerlitz ogWaterloo eru svo oftar en ekki túlkaðar og skildar í gegnum einhverja galna stríðsrómatík og leiðtogadýrkun. Ef aðeins nánar er að gáð er það svo augljós staðreynd að Ógnarstjórnin, og aftökurnar sem hún stóð fyrir, í vestrænni menningu og almennum söguskilningi ræðst fyrst og fremst, ef ekki bara alfarið, af hugmyndafræðilegum og pólitískum ástæðum en ekki einhverjum hlutlausum söguskilningi byggðum á staðreyndum málsins. Ég meina, ég bendi bara á þetta heiti sem þessum atburðum er gefið. Og þessa tilvitnun í A People‘s History of the World eftir Chris Hamann (2008):
„The 200 year litany of complaints about the executions of aristocrats and royalists must be put in perspective. Executions had been a continual occurence under the old regime. Poor people could be hanged for stealing a piece of cloth. As Mark Twain once put it, ‘There were two reigns of terror: one lasted several months, the other 1000 years.‘ The army marching towards Paris from the north would have installed its own terror, much greater than that of the Jacobins, if it had been able to take the city, and it would have used the royalists andaristocrats to point out ‘ring leaders‘ for instant execution. The ‘moderates‘ and royalists who took over Lyons, Marseilles and Toulon established tribunals that ‘ordered patriots guillotined or hanged.‘
The results ‘were piteous‘ – the death toll in Lyons was said to be 800. In the Vendée a royalist priest reported that ‘each day was marked by bloody expeditions‘ against republican sympathizers. Even to have attended a mass presided over by one of the clergy who accepted the republic was grounds ‘to be imprisoned and then murdered or shot under the pretext that the prisons were too full.‘ At Machecoul 524 republicans were shot. On top of this, there was the enormous death toll in the battleson France‘s northern borders, in a war begun by the monarchists and Girondins and joined with enthusiasm by all enemies of the revolution, at home and abroad – a war in which French officers sympathetic to the other side might deliberately send thousands of soldiers to their deaths.
The victims of the counter-revolution and the war do not figure in the horror stories about the revolution retailed by popular novelists, or even in Charles Dickens‘ A Tale of Two Cities. For such writers, the death of a respectable gentleman or lady is a tragedy, that of a republican artisan or seamstress of no concern.“ Bls. 294-295.
Það er full ástæða til að setja töluverða varnagla hérna. Sumir gagnrýnendur hafa leitt að því líkur að eina heimildin sem hann stóðst við yfirhöfuð hafi verið The French Revolution: A History eftir Thomas Carlyle. Sem er auðvitað klassík, en ekki beint sögð frá sjónarhóli lægstu stétta eða það eina sem þarf að lesa til að skilja einhvern mikilvægasta atburð í sögu Evrópu og vestrænnar menningar. Borges var t.d. ekki hrifinn af þekkingu Dickens á – og tilfinningu fyrir – París. Ég held ég vitni bara í meistarann:
„Dickens lived in London. In his book A Tale of Two Cities, based on the French Revolution, we see that he really could not write a tale of two cities. He was a resident of just one city: London.“
Þrátt fyrir einlægan og skýran stuðning og samúð Dickens með hinum lægst settu og bændastéttinni, þá er það nokkuð ljóst að hér er á ferðinni sýn borgarastéttarinnar á frönsku byltinguna, þar sem hún er beinlínis ávörpuð í lokin í ræðu frú Pross (borgarastétt London þá, sem Dickens vill forða frá sömu örlögum). Sem vissulega er sett fram af góðum ásetningi og er í rauninni ekkert gagnrýnisvert í sjálfu sér. Það eina sem er gagnrýnisvert er að líta á verk Dickens sem sannleikann um frönsku byltinguna – eins og vestræn menningarvitund hefur gert meira en góðu hófi gegnir. Semsagt, ekki einungis eitt tiltölulega þröngt og í rauninni ekkert sérstaklega vel upplýst sjónarhorn af mörgum, heldur að mínu mati hálfgerð synd að þessi afturhaldssama sýn á byltingar – sem hefur ósjaldan beinlínis verið notað sem pólitískt vopn í gegnum tíðina – skuli vera stór hluti af arfleið Dickens.
Sviðseldur
Saga tveggja borga er auðvitað ekki sagnfræðirit og ætti ekki að lesa sem slíkt. Hér er um meistaraverk heimsbókmenntana að ræða og verðskuldaðar vinsældir verksins stafa fyrst og fremst af trademark brillians Dickens í stíl og persónusköpun. Og hér er svo sannarlega til mikils að vinna og uppgötva fyrir lesendur sem eiga verkið eftir. Alltof mikið til að ég geti gert eitthvað almennilega grein fyrir þeim fjarsjóðum hér. Ef ég ætti þó að benda á eitthvað myndi ég mæla með að þeir sem eru að fara að lesa í fyrsta skipti veiti því sérstaka athygli hvernig Dickens notar vatn annars vegar og eld hinsvegar. Þar er á ferðinni meistaraleg notkun á minnum og symbólisma. Hann leggur línurnar snemma:
„Ströndin var eyðimörk sjávar og steina sem veltust um allt og hafið gerði það sem því sýndist og það sem því sýndist var að tortíma.“ Bls. 33
Hér var einnig á ferðinni allra fyrsta skiptið sem undirritaður hefur upplifað Dickens á íslensku. Eitthvað sem primafacie voru efasemdir hjá undirrituðum um að gæti staðist nokkurn samanburð við frummálið – en Dickens er auðvitað ekki bara enskur rithöfundur heldur enski rithöfundurinn. Sem eins og svo oft áður var tóm vitleysa í mér. Þýðingin er frábær og í krafti hennar logar stage fire Dickens einnig á íslensku.
Til að undirstrika gæði þýðingarinnar væri kannski bara best að vitna í frægustu línur verksins sem allir (ættu) þekkja.
„Þetta voru bestu tímar, þetta voru verstu tímar, þetta var öld visku, þetta var öld heimsku, tiltrúin sat við háborðið, vantrúin sat við háborðið, þetta var tímabil ljóss, þetta var tímabil myrkurs, þetta var vor vonarinnar, þetta var vetur vonleysisins, allt var framundan, ekkert var framundan, við vorum öll að fara rakleitt í hina áttina – í stuttu máli sagt var aldarfarið svo líkt okkar, að háværustu yfirvöld þess kunngjörðu að einungis mætti lýsa því með hástigum lýsingarorða.“ Bls.9
„Þetta sem ég geri núna, er miklu betra en nokkuð annað sem ég hef gert fram að þessu. Ég er á leið til miklu betri hvíldar en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér.“ Bls. 592
Einnig væri hægt að benda á hversu einstaklega vel bókin passar inní íslenska samtímann. Borgirnar tvær væru þá ekki París og London bókstaflega, eða allegóría um þann ólíka heim sem íbúar sömu borgar lífa þó í. Bændur og aristókratar sem sagt. Allegórían í okkar, nútímasamhengi væri þá hótelþernur og láglaunafólk annars vegar og viðskipta- og fjármálaelíta hinsvegar. Átök sem einnig eru komin á suðupunkt og ekki hægt, með neins konar vissu, að vita hvernig þau muni koma til með að þróast og fara.
Nú neita ég því ekki. Síður en svo. Það er hárrétt, ekkert að því að það veki áhuga á bókinni og endalaust má velta fyrir sér hliðstæðum og líkindum í þessu samhengi. Ég varast þó oftast að leggja of mikla áherslu á slíkt þar sem meistaraverk heimsbókmenntanna, eins og Saga tveggja borga eftir Charles Dickens tvímælalaust er, eru ávallt relevant. Á öllum tímum og alls staðar. Það er nákvæmlega það sem gerir þær að meistaraverkum: þær hætta ekki að tala við okkur.
Hvað meira skal annars segja hérna? Þetta er Dickens. Hættu að lesa þetta og farðu að lesa hann. Ef það er eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður þá er þessi þýðing alveg tilvalinn og kjörinn staður til að byrja. Rakleiðis útí búð, kaupa, lesa, njóta, hugsa.