Ég fór ekki fögrum orðum um Nýríka Nonna síðast þegar ég skrifaði um verk þeirra. Nýverið sendu þeir frá sér sitt fimmta lag, Bláberja Tom. Það verður að segjast sem er að hér má merkja þó nokkra framför. Lagið er skemmtilegra en fyrri lög og útsetningin er betur hugsuð og þeir ná að víkka út hljómheiminn. Það er enn greinilegt að þessir menn hafa alveg gífurlega gaman af því sem þeir eru að gera. Batnandi mönnum er best að lifa.
Bagdad Brothers – Brian Eno says: Quit Your Job
Skemmtilegt lag frá Bagdad Brothers með gott tvist á fleyg orð Brian Enos um hvað er gott fyrir sköpunina. Lagið sem slíkt er á sömu slóðum og annað sem frá þeim bræðrum hefur komið og grípur á stundinni. Stuttur textinn segir allt sem segja þarf og algjör óþarfi að hafa fleiri orð um það.
Gímaldin – Vinstra augað sér drauga
Eyðimerkurgöngunni er lokið. Ég hef ekki verið nógu hrifinn af því sem Gímaldinn hefur sent frá sér að undanförnu. Mér finnst sólóefni hans að mestu ekki hafa staðið undir þeim væntingum sem ég hef til hans. En nýtt lag hans, Vinstra augað sér drauga, gefur mér vonir um að hann sé að ná flugi aftur. Þetta er hreint út sagt frábært lag, grípandi en fer krókaleiðir. Eins er lagið vel útsett og alls konar slaufur í gangi. Vel af sér vikið!
Bubbi Morthens – Ég rata ekki heim
Bubbi gaf nýlega út lagið Ég rata ekki heim og leitar þar á sömu mið og á síðustu breiðskífu sinni, Túngumál. Textinn er eins konar heimsósómakveðskapur um samfélagsmiðla og símafíkn og ágætur sem slíkur. Lagið er gott og útsetningin minnir örlítið á Calexico á meðan þeir félagar voru upp á sitt besta. Fínt lag frá Bubba (sem því miður gengur illa að setja hér inn af einhverjum tæknilegum ástæðum – en ef þið smellið hér ættuð þið að geta heyrt það).