Helgur blús fyrir innvígða

Síðasta haust kom út platan Sacred Blues með Tholly’s Sacred Blues Band. Í sveitinni eru Þollý Rósmunds söngkona, Friðrik Karlsson gítarleikari, Sigurður Ingimarsson söngvari og gítarleikari, Sigfús Óttarsson trommuleikari og Jonni Richter bassaleikari. Þeim til aðstoðar eru þeir Hjörtur Howser á Hammond, Jens Hansson á saxafón, Ívar Guðmundsson á trompet og Jón Arnar Einarsson á básúnu. Upptökur vélaði Ásmundur Jóhannsson og Jóhann Ásmundsson hljóð- blandaði og jafnaði. Hljómsveitin sjálf gaf út.

Eins og nafn plötunnar gefur til kynna þá er hér um kristilega tónlist að ræða en það skiptir í raun minnsta máli við upplifunina á henni. Tónlistin er númer eitt. Þá er það ekki að boðskapurinn fari fram hjá manni heldur er hann ekkert að þvælast fyrir eins og oft vill verða í kristilegri tónlist. Um að gera að taka það fram núna að hér skrifar maður sem þykir trúarplötur Bob Dylans vera vanmetnar, er sérstakur áhugamaður um kristna tónlist annars veraldlegra tónlistarmanna og spilar oft kristilega tónlist í kirkju þeirri er hann sækir reglulega í heimabæ sínum í Connecticut. Sem sagt, ég hef ekkert á móti trúarlegri tónlist.

Tónlistin er eins og við er að búast hreinn og klár blús og engu er bætt við. Nú er sjálfsagt best að taka fram að ég er alls enginn áhugamaður um blús og finnst hann oftar tóm leiðindi en ekki. Sorglegast þykir mér að blúsinn hóf göngu sína um tónlistarsöguna sem hrá tónlist leikin af mönnum sem voru ekkert endilega góðir á hljóðfærin sín en er í dag orðinn að einhvers konar leikfangi gítarleikara sem vilja endilega sína öllum hvað þeir geta spila margar nótur á sem skemmstum tíma. Eða þetta er í.þ.m. það sem maður fær allt of oft á tilfinninguna þegar maður heyrir nútímablús.

Friðrik Karlsson er einhver atkvæðamesti gítarleikari gervallrar Íslandssögunnar og jafnframt einn sá fágaðasti þannig að ég hefði aldrei átt von á því að heyra hann spila blús og efa ekki að ég er varla einn um það. En þvert á því sem ég átti von á ferst honum það mjög vel úr hendi. Bæði riff og sóló eru smekklega leyst af hendi og hljómurinn er mátulega hrár. Söngrödd Þollýar er dimm en ekki eins djúp og maður á að venjast hjá mörgum blússöngkonum. En, hún syngur beint frá hjartanu og það sem væri hægt að kalla galla hættir skjótt að skipta nokkru máli. Einlægnin sigrar alltaf. Rytmatríóið Fúsi, Jonni og Sigurður er traust.

Þá kemur að tónlistinni sjálfri. Eins og fyrr kemur fram þá er hér um að ræða afskaplega venjulegan blús. Nálgunin er mjög hefðbundin en að sama skapi afskaplega smekkleg. Platan var tekin upp á aðeins sjö tímum og er því nokkuð hrá. Lögin eru blanda af frumsömdum og ábreiðum og þau frumsömdu standa alveg fyrir sínu í þeim félagskap. Gæði laganna eru nokkuð jöfn en tvö skera sig þó úr. Það eru lögin Who Will Be Next? eftir Howling Wolf og I Get Up eftir Friðrik Karlsson. Þessi lög svinga alveg gífurlega vel, svo vel að það er ekki hægt annað en að hafa gaman af þeim. Ég verð þó að taka fram að skil ekki af hverju ábreiða af Fleetwood Mac laginu Albatross fylgir hér með. Það passar ekki inn í temað og engu er bætt við. Vel spilað jú en á bara ekki heima hér.

Þessi plata er örugglega ágæt viðbót í blúsflóru Íslands. Og ég efa ekki að harðir blúsunnendur eru hæstánægðir með hana, nema fyrir utan þá sem hafa ofnæmi fyrir trúarlegu innihaldi í tónlist. Hún er unnin af miklum fagmönnum og hvergi slegin feilnóta þrátt fyrir stuttan upptökutíma. En ég á erfitt með að ímynda mér að hún eigi eftir að sækja nýliða í hóp blúsunnenda, nema þá kannski úr hópi trúaðra sem hafa áður hundsað blúsinn. Þetta er líklegast helst fyrir innvígða.