Skáldsagan Katrínarsaga eftir Halldóru Thoroddsen (1950). Sæmundur gefur út. Útgáfuár 2018. Blaðsíðufjöldi 144.
Hver kynslóð heldur að hún hafi svarið við því hvernig best sé að lifa. Hver kynslóð telur sig hafa réttinn á að segi eldri kynslóðum til syndanna, telur sig vita betur. Einhvers konar átök eru óhjákvæmileg. Sennilega hefir þessi staðreynd aldrei verið jafn augljós og í kringum árið 1968, með hinni svokölluðu 68-kynslóð, hippa-kynslóðinni. Farið var fram á stórvægilegar samfélagsbreytingar og mottóið var friður og frjálsar ástir, jafnræði og frelsi. Útlitseinkennandi var litskrúðugur klæðaburður og sítt hár. Búsetuform tímabilsins og kynslóðarinnar var kommúnan. Oftlega er talað um byltingu, 68-byltinguna.
Skáldsagan Katrínarsaga tekur, svo að segja, á þessari byltingu. Fylgst er með Katrínu frá árinu 1969 til hrunárana. Aðaláherslan er þó á áðurnefnt tímabil. Sögusviðið er Ísland en auk þess á stór hluti sögunnar sér stað í Danmörku, í Kaupmannahöfn. Þessi stutta saga skiptist í átta mislanga hluta og er sett upp sem afturlit, minningaglefsur sem þó er fylgt í krónólógískri röð. Undir lok sögunnar, við jarðarför einnar persónunnar er sögutíminn kominn allt að því upp að lesandanum, að tíma þar sem hippar hafa breyst í bankamenn og:
Eftir hippadóm fyrirskipar hann [tímadraugurinn] sturlaða hlutadýrkun, díónesískt óhóf, svaml í gnægtum svo útaf vellur. Réttlætisjarminu svarar hann með grimmu alþjóðlegu þrælahaldi. Hæ gaman! (bls. 141)
Sögumaður hefur leikinn á formála þar sem lesanda er boðið upp á að fylgja aðalpersónunni, Katrínu. Aukinheldur er verkið staðsett í tíma og rúmi í formála.
Eins og hendi væri veifað fylltu unglingar göturnar í litríkum klæðum með úfið hár og boðuðu ást og frið í stað stríða. Þessi mjúka krafa var fullkomlega absúrd í huga flestra íbúa herveldisins og jaðraði við landráð. (bls. 11)
Sögumaður býður upp á minningaglefsur í skáldsagnaformi. Hann er kominn á „þann aldur að fjarlægð skerpir tímana tvenna. Þann hlægilega aldur. Með títtnefndum aldri lít ég oftar yfir farinn veg.“ (bls.7) Úr því má lesa að fólk sem komið yfir miðjan aldur og á líkast til færri ár eftir ólifuð en lifuð eyðir sennilega meiri tíma við gamlar minningar en við að skapa nýjar; líti yfir farinn veg og leitist eftir því að fá einhvern botn í tilveruna eða gera hana upp á einhvern hátt. Katrínarsaga er þess háttar verk og sver sig í ætt við fyrri nýlegri verk höfundar.
Ráða má og af formála að sögumaður fjalli um sitt líf, sínar upplifanir með því að segja sögu Katrínar sem heillaðist af hippisma um miðjan sjöunda áratuginn, bjó í kommúnu á Íslandi og í Danmörku. Vann út á landi með öðrum hippum á þessum tíma. Dreymdi um að stofna kommúnu á landsbyggðinni, ríki í ríkinu. Sögumaður greinir frá í þriðju persónu og er óspar á ummæli og söguskýringar, oft fremur gildishlaðnar. Má svo velta fyrir sér hvort aðalpersónan, sögumaður og höfundur eigi sitthvað sammerkt?
Katrínarsaga er ekki stór í sniðum, hún tekur ekki á stórum atburðum. Og þó. Hún tekur á samfélagsbreytingum, því að gera nýlegum breytingum, þótt þau sem að þeim stóðu séu mörg hver að geispa golunni. Samfélagsbreytingar þessar eru þó ekki skoðaðar niður í kjölinn. Það er fremur að nálgunarleiðin sé af hvunndagslegum toga, lífi hippa, nánar tiltekið íslenskra hippa er lýst með því að leyfa lesanda að skyggnast snögglega inn í líf þeirra eða öllu heldur Katrínar og samferðafólks hennar.
Færum okkur á slóðir Katrínar og vina hennar hvar þau bíða í sínu náttúrulega umhverfi eftir kalli tímans. (bls. 12)
Á þessum kvika kletti [Ísland] höfðu, þegar hér var komið við sögu, skyndilega galopnast allar gáttir fyrir stefnum og straumum, svo skyndilega að fólk var hissa. (bls. 13)
Kannski mætti setja þá aðferð í samhengi við einsöguna; að leitast sé við að segja stærri sögu í gegnum smærri, gegnum litla fólkið.
Fyrsta innlit:
Og sko, þarna sitja þau í hring á dýnum á gólfinu og hlusta á nýjustu sendingu frá Bob Dylan […] Hvað merkir vá-ið sem kveður við í hringnum? Vá, fríkað, vá gott stuð, vá hvað ég er hrædd, vá flottur taktur, vá, orð beint í hjartað …
Pípan gengur hringinn. (bls. 14-15)
Hefðbundin mynd af þessum tíma og ætti að koma kunnuglega fyrir sjónir. Persónur eru kynntar til sögunnar sem sumar hverjar eru einkennandi fyrir tímabilið hvað stjórnmál varðar, vímuefnanotkun og fríkaðan lífsmáta, blómabörn. Hver persóna fær lítið rými, meira að segja Katrín fær ekki svo mikið rými, mýflugumynd er dregin upp af hverri persónu, þótt hún sé nokkuð einkennandi, erkitýpuleg eiginlega líka.
Í fyrsta hluta er frekari kynning á aðstæðum og persónum og tæpt á uppreisn gegn gömlum gildum, hvernig hugmyndir og breytingar komu að utan. Á tíðum er horft fremur kaldhæðnislega á persónurnar. Kannski skapar fjarlægð sögumanns í tíma þá kaldhæðni.
Heimurinn hefur aldrei verið minni en séður út úr unglingaherbergjunum þeirra. Þaðan virtist heimurinn einfaldur og skýr. (bls. 21)
því sumir hippar höfðu næstum því enga hugmynd um hverju þeir væru að mótmæla, öðru en lífi foreldra sinna. Þessum innantóma neysludraumi. (bls. 29)
Sagan er fyrst og síðast tíðarandalýsing sem lýsir hvernig hafi vaxið „hliðarheimur með sterkri hjarðhegðun, kenndur við unglinga“ (bls. 52), hvernig „Í fyrsta sinn í sögu mannkyns var hægt að ríða allan daginn út og inn án þess að hafa minnstu áhyggjur af afleiðingunum“ (bls. 38) „í umhverfi sem álítur það ókurteisi að sofa ekki hjá“ (bls. 73) og „[í] hippahringjunum blandast stéttir.“ (bls. 22)
Meginpartar verksins taka á þessum hlutum þótt segja megi að tímabilið sé frá byltingu til grafar og þemað sé augljóslega hvað hafi orðið úr byltingar- og blómabörnunum. Ekkert af þessu ristir þó neitt sérstaklega djúpt og virkar meinlaust. Verkið er rislítið hvað persónusköpun og fléttu varðar. Raunar er vart hægt að tala um fléttu þar sem fremur er um stakar lýsingar að ræða, innlit inn í líf, minningar sögupersóna/sögumanns.
Verkið er ágripskennt og stutt sem er eiginlega kostur því hún er ekkert voðalega skemmtilegt aflestrar. Það er frekast til fyrirsjáanlegt þótt vissulega sé reynt að varpa nýju ljósi á þekkt tímabil með fjarlægð og ljóðræns stíls.
Segja má, með vísan aldur sögumanns og líf sem nálgast síðasta söludag að það sé ekki alger tímasóun að lesa verkið, þótt sannlega verja mætti tímanum í eitthvað annað. Þessi bók er ekkert “möst” og alls ekkert “vá! Maður” og varpar ekkert sérstaklega skemmtilegu eða áhugaverðu ljósi á þennan tíma né börnum hippismans.