Þýðing: Jóhann Helgi Heiðdal

Við erum samtímafólk maí ’68

Mig langar að byrja á að spyrja mjög einfaldrar spurningar: hvers vegna er allt þetta tilstand í kringum maí ’68 – greinar, útvarpsþættir, umræður og atburðir af öllu tagi – fjörutíu árum eftir atburðinn? Það var ekkert slíkt í kringum þrítugs- eða tvítugsafmælið.

Fyrsta svarið er svartsýnt. Við getum nú minnst maí ’68 vegna þess að við erum viss um að það er dautt. Fjörutíu árum eftir atburðinn er ekkert líf eftir í honum. Eða svo segja sumir sem voru einu sinni í forsvari ’68. „Gleymum maí ’68“, segir Cohn-Bendit, nú þegar hann er orðinn að venjulegum stjórnmálamanni. Við lifum í allt öðrum heimi, aðstæður hafa gjörbreyst, og við getum því minnst bestu ára lífs okkar með hreinni samvisku. Ekkert sem gerðist þá hefur enga virka þýðingu fyrir okkur. Nostalgía og sögusagnir.

Það er einnig annað og enn svartsýnara svar. Við minnumst maí ’68 vegna þess að raunveruleg afleiðing og raunveruleg hetja ’68 er óheftur kapítalismi nýfrjálshyggju. Frjálshyggjuhugmyndir ’68, umbreytingin á lifnaðarháttum okkar, einstaklingshyggjan og löngun í jouissance hafa orðið að veruleika, þökk sé póstmódernískum kapítalisma og tilkomumiklum heimi þess sem fullur er af alls konar neysluhyggju. Þegar allt kemur til alls er Sarkozy sjálfur afkvæmi maí ’68 og að fagna maí ’68, eins og André Glucksmann hvetur okkur til að gera, er að fagna Vestri nýfrjálshyggjunnar sem ameríski herinn ver nú með hugrekki gegn árásum villimannanna.

Ég vil þó koma með nokkuð bjartsýnni tillögur um hvað það er sem við minnumst, gegn þessum svartsýnu sýnum.

Fyrsta er að þessi áhugi á ’68, einkum meðal þónokkurs fjölda ungs fólks, er þvert á móti viðbragð gegn Sarkozy. Á sama tíma og mikilvægi þess er neitað svo sterkt virðumst við líta aftur til maí ’68 vegna þess að það er möguleg uppspretta innblásturs, eins konar sögulegt ljóð sem gefur okkur nýtt hugrekki og sem leyfir okkur að bregðast við, nú þegar við erum í dýpstu örvæntingu. 

Svo er önnur, enn bjartsýnni tillaga. Að minnast hans – jafnvel opinberu, neysluvæddu og afskræmdu útgáfunnar – gæti dulbúið óljósa hugmynd um að annar pólitískur og félagslegur heimur sé mögulegur. Að hin mikla hugmynd um róttækar breytingar, sem gekk í tvö hundruð ár undir nafninu „bylting“ og sem hefur ásótt fólk þessa lands nú í fjörutíu ár, er að breiðast hljóðlátt út, þrátt fyrir hina almennu hugmynd um að hún hafi verið gjörsigruð.

En við þurfum að fara lengra aftur. 

Við þurfum að skilja eitt grundvallaratriði: ástæðan fyrir því að það er flókið að minnast atburðarins og þess að hann vekur upp mótsagnakenndar túlkanir er að maí ’68 sjálft var gríðarlega flókinn atburður. Það er ómögulegt að smætta hann í þægilega, heildstæða ímynd. Ég vil miðla til ykkar þessarar innri klofningar, þessa margslungna fjölbreytileika sem var maí ’68.

Það voru í raun og sanni fjögur mismunandi maí ’68. Styrkur og einkenni franska maí ’68 er að það tvinnaði og setti saman fjögur ferli sem eru, þegar allt kemur til alls, nokkuð ólík. Og ástæðan fyrir að túlkanir á atburðinum eru svo ólíkar er að þær einblína á einn þátt þess en ekki hina flóknu heild, en það er þar sem hið sanna mikilvægi liggur.

Tökum þetta í sundur.

Maí ’68 var fyrst og fremst uppreisn meðal hinna ungu, stúdenta innan háskólanna. Það er það stórkostlegasta og best þekkta við atburðinn, það sem hefur skilið eftir sig kraftmestu ímyndirnar, og sem við höfum nýlega verið snúa tilbaka til: fjöldamótmælin, virkin, bardagarnir við lögregluna, o.s.frv. Mér virðist sem svo að við þurfum að draga fram þrjú einkenni frá þessum ímyndum af ofbeldi kúgunarinnar og mikla áhuga. Það fyrsta er að þessi uppreisn var á sama tíma alþjóðlegt fyrirbæri (Mexíkó, Þýskaland, Kína, Ítalía, Bandaríkin…). Hún var því ekki sérstaklega franskt fyrirbæri. Annað er að það verður að hafa í huga að háskólinn og stúdentar voru aðeins minnihluti ungs fólks. Á 7. áratugnum voru einungis 10-15% ungs fólks sem tók BA-gráðu. Þegar við tölum um „háskólann og stúdenta“ erum við að tala um brot ungs fólks, og þau voru einangruð frá fjöldanum af vinnandi ungu fólki. Þriðja er að þessi eftirtektarverðu atriði voru tvíþætt. Annars vegar: gríðarlegur styrkur hugmyndafræðinnar og táknanna, marxíski orðaforðinn og hugmyndin um byltingu. Hins vegar: ofbeldi samþykkt sem nauðsynlegt. Það má vel vera að það hafi verið í varnarskyni og beindist gegn kúgun, en það var samt ofbeldi. Þetta er það sem einkennir uppreisnina. Allt þetta rennur saman í eitt maí ’68.

Hitt maí ’68, sem var mjög ólíkt, var stærsta alsherjarverkfall í gjörvallri sögu Frakklands. Á  margan hátt var það klassískt alsherjarverkfall. Það miðaðist við stóru verksmiðjurnar og var aðallega skipulagt af verkalýðsfélögunum, sérstaklega CGT. Viðmiðunin var síðasta stóra verkfallið af slíkri gerð, nefnilega Front populaire. Vegna skalans og einkennanna gætum við sagt að á sögulegan hátt átti verkfallið sér stað í allt öðru samhengi en ungmennauppreisnin. Það á heima í samhengi sem ég myndi lýsa sem „vinstri“ á klassískari hátt. Að því sögðu var það einnig innblásið af nýjum og róttækum þáttum. Þeir þættir eru þrír.

Í fyrsta lagi hafði kallið og ákvörðunin um verkfall í sjálfu sér lítið með opinberar verkalýðsstofnanir að gera. Í flestum tilfellum var hreyfingin byrjuð af ungu verkafólki sem stóð fyrir utan stóru verkalýðssamtökin, sem sameinuðust þeim svo, að hluta til til að ná stjórninni. Í maí ’68 hjá verkafólki var því einnig innri uppreisn meðal ungs fólks. Þetta unga verkafólk notuðu það sem oft var lýst sem „villikattaverkföll“ til að aðgreina sig frá hefðbundnum „dögum aðgerða“ hjá verkalýðsfélögunum. Það þarf að benda á að þessi villikattaverkföll byrjuðu snemma, árið 1967, og að maí ’68 hjá verkafólki var ekki einungis afleiðing af maí ’68 hjá stúdentum, því það hafði séð hið seinna fyrir. Þessi tímalega og sögulega tenging á milli hreyfingar sem skipulögð var af ungu menntafólki og verkalýðshreyfingarinnar er nokkuð óvenjuleg. Annar róttækur þáttur: kerfisbundin yfirtaka á verksmiðjum. Þetta var augljóslega arfleifð hinna miklu verkfalla 1936 og 1947, en þær áttu sér stað á víðari skala. Næstum allar verksmiðjurnar voru teknar yfir og þaktarr rauðum fánum. Það er mikil ímynd! Maður verður að hafa séð hvernig þetta land leit út með allar verksmiðjurnar flaggandi rauðum fánum. Enginn sem sá það mun nokkurn tímann gleyma því. Þriðji „harði“ þátturinn: á þeim tíma og á árunum sem fylgdu í kjölfarið, kerfisbundin rán á yfirmönnum sem haldnir voru í gíslingu og bardagar við öryggisverði eða CRS. Þetta þýðir að ofangreint atriði – að ofbeldi var samþykkt að vissu leyti – var ekki aðeins á meðal stúdentahreyfingarinnar, heldur einnig hjá verkalýðshreyfingunni. Að lokum, áður en við bindum endi á þessa umræðu um seinni maí ’68, þarf að muna að í ljósi allra þessara þátta var spurningin um hversu lengi hreyfingin ætti að vera til og hvernig átti að stýra henni brýn. Það var mótsögn milli löngunar CGT til að taka stjórnvölin, og aðgerða sem sagnfræðingurinn Xavier Vigna nefnir „verkalýðsóhlýðni“, ásamt því að það voru átök innan verkfallshreyfingarinnar. Þau gátu verið mjög hvöss, og þau eru táknvædd í höfnun starfsmanna Renault-Billancourt á samningunum sem samþykktir voru í Grenelle. Eitthvað gerði uppreisn gegn viðleitni til að finna klassískt samkomulag  í verkföllunum.

Þriðja maí ’68 er til, alveg jafn fjölbreytt. Ég lýsi því sem frjálshyggju-maí. Það snerist um siðferðilegt andrúmsloft sem var í breytingu, breytingu á samskiptum kynjanna og einstaklingsfrelsi. Þær spurningar myndu leiða til kvenréttindahreyfingarinnar og réttinda- og frelsisbaráttu samkynhneigðra. Þær myndu svo einnig hafa áhrif á menningarsviðið, með hugmyndinni um nýtt leikhús, nýrra pólitískra tjáningarmáta, nýrra gerða af fjöldaaðgerðum, gjörninga og látbragðsleiks, ásamt états généraux du cinéma. Þetta myndar einnig séreinkenni við maí ’68, sem við getum lýst sem hugmyndafræðilegu, og þrátt fyrir að það hnignaði stundum í snobb og partýanarkisma, var það í samræmi við almenna stemmingu atburðarins. Maður þarf bara að hugsa til áhrifamátts plakatanna sem hönnuð voru í stúdíóum Ecole des beaux-arts í maí. 

Það þarf að rifja upp að þessir þrír þættir voru aðskildir, þótt þær runnu á margan hátt saman. Það gátu verið stórar deilur milli þeirra. Það voru raunveruleg átök milli gauchisme og klassíska vinstrisins, eins og milli pólitíska gauchisme (trotskýisma og maóisma) og menningarlega gauchisme, sem hneigðist meira að anarkisma. Allt þetta leiðir til ímyndar af maí ’68 sem mótsagnakenndrar froðu, á engan hátt heildstæðrar veislu. Í maí ’68 var ákaft pólítískt líf, og það var lifað í fjöldanum öllum af mótsögnum.

Þýðingin er á fyrsta hluta fyrirlesturs sem Badiou flutti í Clermont-Ferrand árið 2008 á vegum Les Amis du temps des cerises-samtakanna. Fyrirlesturinn birtist svo í bókinni L’hypothése communiste sem kom út sama ár og undir titlinum The Communist Hypothesis í enskri þýðingu David Macey og Steve Corcoran sem kom út 2010.