Úr Bréfum, áeggjunum og hugleiðingum um lífsbrandarann

Kæru bræður í lífsbaráttunni,

sannlega segi ég yður …

síðustu ár hafa klárlega verið oss þung í skauti. Það er ekkert launungarmál. Sá hermennskuandi er vér stærðum oss af er í upplausn og æsingaeldurinn við magamál, bálköstur sálarinnar slokknaður, úrkulnaður – vér seiðum ekki saman seið í bráð.

Ég gjöri heyrinkunnugt …

Vér erum orðnir þjóðníðingar oss sjálfra, samjarmandi kór bjargarskortsins, þótt eigi séum vér enn klæddir görmum beiningamannsins, hvorki önd vor né skurn. Ó og Æ! Vér vitum allir að teiti undangenginna ára var Þórðargleði og Golíat drakk allt ölið frá Davíð, enda hefir sá síðarnefndi verið þjakaður af óstöðvandi þorsta síðan upp komst um drykkjarstuldinn. En nóg um það, þótt vissulega hafi það varpað skaufalegum skugga á lífið og vort daglega brauð ásamt því að pumpa úr oss þróttloftinu, gert kallana að þreifandi, mjálmandi, sífrandi, volandi, vælandi, klagandi, veinandi og barmandi Ódysseifum þar sem Penelópa gengur um í síðbuxum.

Ó-Í-Æ-og-Ó, vér sem vorum goðkynjaðir – góðir meðal góðra, bestir meðal annarra … vér áttum svo mikið undir oss og vorum alveg talhæfir sko, hérna, sko, hérna …

Æ, mig hefir borið af leið …

En bjargleysi voru má koma í búning kostulegra orða þar sem undir kraumar vor fyrri tilvist og bíður eftir að mega hafa þá núverandi ömurð, sem strengjabrúðumeistarinn hefir kosið fyrir oss, í flimtingum. Fyrst þurfum vér að taka hengilmænuna í oss á beinið og upp rís á ný sá fagurlimaði Frankenstein sem vér erum.

Kæru meðbræður,

lífið hefir reynst oss þungt í brókum. En ég er þess fullviss að handan við bananatréð bíði oss bráðum betri bíll með blómadrós í sæti og

feiknin öll langar, óðar útferðir og læti.