Uppljómun Plónókratesar


1. Sigtryggur sat á klósettinu þegar hann fékk uppljómun: Yfirmaður hans var eðla í gervi manneskju. Það hlaut að vera.

2. Sigtryggur sat við skrifborðið sitt þegar hann fékk uppljómun: Eðlur ættu ekki að ráða yfir manneskjum. Það væri bara ekki rétt.

3. Sigtryggur var að ná sér í þriðja kaffibolla dagsins þegar hann fékk uppljómun: Hann ætti að gera eitthvað. Hann ætti að steypa eðlunni af stóli.

4. Sigtryggur stóð yfir líki yfirmanns síns þegar hann fékk uppljómun: Hann ætti taka sér nafnið Plónókrates og stýra fyrirtækinu sjálfur, nú þegar eðlan var öll. 

5. Plónókrates sat á klósettinu þegar hann fékk uppljómun: Fangavörðurinn var eðla í gervi manneskju. Það hlaut að vera.