Þeir skjóta þig alltaf í bakið

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá fyrsta uppkast ljóðsins, ort eftir næturvakt í Mývatnssveit.

Þeir skjóta þig í bakið ef þú mætir ekki í vinnuna
Þeir skjóta þig í bakið ef þú ert of duglegur
Þeir skjóta þig í bakið ef þú ert of latur
Þeir skjóta þig í bakið ef þú lýgur
Þeir skjóta þig í bakið ef þú segir satt
Þeir skjóta þig í bakið ef þú kýst rangt
Þeir skjóta þig í bakið ef þú kýst rétt

En þeir skjóta þig ekki lengur í bakið,
þeir eru hættir því
þeir eru búnir að uppgötva metafóruna
og núna leyfa þeir þér náðarsamlegast að lifa

en þú færð alltaf verstu vextina í bankanum
þú færð alltaf versta matinn í kjörbúðinni
þú færð aldrei vinnuna sem þig dreymir um
þú færð aldrei ástina sem þig dreymir um
þú færð aldrei það sem þig dreymir um í lífinu af því það er búið að skjóta þig í bakið

þú liggur þarna í vegkantinum og blóðið rennur úr bakinu og þú einfaldlega veist ekki af því vegna þess að þú heldur að þeir séu hættir að skjóta fólk í bakið

og þess vegna heldur þú bara áfram að lifa eins og zombí sem öllum er sama um og engu málir skiptir því allir vita að þú liggur bara í vegkantinum og rotnar

þú ert draugurinn sem veit ekki að hann er draugur
draugurinn sem heldur að hann sé lifandi
draugurinn sem var skotinn í bakið og tók ekki eftir því

en við erum mörg hérna í vegkantinum
við getum búið til okkar draugaborg og dansað á nóttinni

fólk bregst einkennilega við okkur
það veit ekki alveg hvað það á að gera við okkur

þess vegna höfum við ekki neitt lánstraust
þess vegna er okkur ekki hleypt inná fínustu veitingastaðina
þess vegna fáum við ekki bestu vinnurnar

En við erum orðin svo mörg að við getum dansað saman á nóttinni á meðan hinir lifandi sofa
við erum orðin svo mörg að okkar partí eru orðin betri en ykkar
við erum orðin svo mörg að okkar vopnabúr er orðið stærra en ykkar
við erum orðin svo mörg að von bráðar munuð þið ekki eiga neinn séns
og vofur næturinnar munu éta utan af ykkur holdið og henda útí vegkantinn