Svartur köttur saumar hey

Í gegn um og til í Gallerí Úthverfu

Seint á laugardagskvöldið eftir opnun sýningarinnar Í gegn um og til þann 3. mars síðastliðinn sagði ég við listamanninn, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur, sem var á heimleið eftir langa vakt á Ísafjarðargaleiðunni, að ég hefði tekið Gallerí Úthverfu í fóstur og ætlaði að skrifa um allt sem þar væri sýnt – ef ég missti ekki af sýningunni, af einhverjum sökum – og það ætti líka við um hennar verk, þótt við værum vinir.

Þetta er auðvitað ekki leyfilegt. Í fyrsta lagi þá er Ásta vinkona mín og ég hafði tekið að mér að sjá um hið hefðbundna „kvöldverðarboð fyrir myndlistarmanninn“ og er þannig strax nátengdur sýningunni – vanhæfur sökum þátttöku og vinskapar. Í öðru lagi þá segir maður ekki neinum að maður sé að fara að skrifa um verk þeirra ef maður kemst hjá því – það kemur þeim einfaldlega ekki við. Gagnrýnandi er milliliður verks og heims án viðkomu hjá listamanni.

Í þriðja lagi hafði þetta þær afleiðingar að Ásta Fanney staldraði við á Tjörubar og tók að útskýra sig, skelfingu lostin, enda veit hún vel að ég er vitleysingur í myndlistarheiminum og skrifa um hann með fáviskuna eina mér til varnar (en hrokann að vopni!) Ég mun misskilja allt sem ég sé og það sem ég misskil ekki mun mig bresta orð um.

Þá eru myndlistarmenn held ég vanir því núorðið að eiga eins konar sjálfdæmi um túlkun verka sinna. Íslensk myndlistarumfjöllun er bara „segðu mér frá verkinu þínu“ og einhver myndlistarmaður að láta dæluna ganga um ætlun sína, hvað hitt og þetta á að þýða, fyrirstilla og merkja. Venjulegir sýningargestir sem standa utan myndlistarheimsins þora ekki að skilja verkin (þora varla inn) vegna þess að skilaboð verkanna eru í senn of óskýr og of ákveðin – það er hætt við að maður geri sig að fífli við það eitt að sjá þau. Þeir snúa sér því bara til myndlistarmannanna sem plúsa þetta allt saman og benda á tengslin, annað hvort einsog í hverri annarri rebusgátu eða með hjálp einhvers innsæisorðaforðans. En kannski þarf maður ekki að láta óskýrleikann hræða sig – kannski er bara alltílagi að skilja hlutina ekki nema að litlu leyti, geta í eyðurnar og skálda í rest. Og kannski lærir maður eitthvað á endanum.

Annars man ég samt ekkert hvað Ásta sagði. Því er bara alveg gersamlega stolið úr mér.

Heybaggaöngull og sæhestagárur

Miðpunktur, eða miðlína, sýningar Ástu Fanneyjar er samansaumaður plastpoki fullur af heyi í laginu einsog ör – heyið súrnar og súrnar eftir því sem líður á sýningartímann. Hann liggur eftir sýningargólfinu endilöngu og bendir frá galleríglugganum og Eyrarfjalli, húsinu á móti, bænum –> að veggnum, innst í rýminu, gegnt glugganum, þar sem búið er að teikna fjarðarmynni Skutulsfjarðar og Snæfjallaströndina með krít og blýanti (held ég). Inn á teikninguna hafa verið skrifaðar setningar, stundum á íslensku og stundum á ensku.

Eftirbaðvatn

Soy sauce

Hár (gömul kona)

Á gólfinu er lítil motta og á mottunni eitt svart vinnustígvél – steypuvinnulegt frekar en t.d. fjósalegt (grænt), frystihúsalegt (hvítt), togaralegt (með stáltá) eða bæjarvinnu (svart með endurskini, Nokia) – og stóll myndaður úr pappír (sem hrynur meira og meira eftir því sem líður á sýningartímann).

Á veggnum beint á móti dyrunum er myndband af gárandi hafi – nærmyndir, fjærmyndir, en alltaf svolítið sjóveikivekjandi, svolítið einsog maður sé að stara fram af lunningunni á bát. Í horninu hægra megin þegar maður kemur inn liggja nokkrar stikur með rauðmáluðum enda. Á veggnum við hliðina á glugganum eru svo sex myndir sem búið er að stinga nálum í til að mynda form sem minna mig á gárur í hafi en samferðamann minn á sæhesta.

Post-sjávarbyggðin og hin getulausi veiðimaður

Það sem slær mann fyrst er einhver hugmynd um mörk mannlegs samfélags (pappírsstóls, stígvéls, heys í plastbagga) og náttúru – fjalls og hafs sem drottna yfir veggjunum. Mottan afmarkar tilvist mannsins en annars ríkir náttúran – miklu stærri og sterkari – og stikurnar, sem tilheyra manninum, liggja flatar allar á sama stað og geta ekki skilið þetta tvennt í sundur, eða gera það í öllu falli ekki.

Það sem slær mann næst er forgengileikinn. Stóllinn fellur hægt og bítandi saman og heyið súrnar. Síðan eitthvað um rýmið – Gallerí Úthverfu – sem heiminn utan við dyrnar úthverfðan, fjörðinn inni í húsinu sem úthverfðan fjörðinn utan við gluggann. Stofnunina sem býður til sín utanbæjarmönnum til að sprikla á sviði – þessum glugga sem allir bæjarbúar eiga leið framhjá. Þarnæst eitthvað um sjónarhorn – ungur listamaður kemur frá Reykjavík, sér bæ/náttúru og málar hann/hana fyrir heimamenn – eitthvað um augnablikið, eitthvað um auga utanbæjarmannsins, eitthvað um óþægilega exótíseringu, þægilegar gælur eða gullhamra, eitthvað um að missa sjónar á sjálfum sér, eitthvað um „landsbyggðina“, eitthvað um mannlegt samfélag sem aukreitis á náttúrunni (og líka aukreitis á úthverfðu náttúrunni inni í mannlega-samfélags-galleríinu).


En örin sem liggur á gólfinu er ekki bara ör. Á henni er hringur sem (ásamt vísbendingum í sýningarskrá) gefur til kynna að hún sé öngull. En öngullinn bendir ekki „á sína eigin byrjun“ (nema byrjun hans sé á Snæfjallaströndinni, en það er þá heimspekilegt upphaf frekar en geometrískt) líkt og segir í sýningarskrá, því hann sveigist ekki – hann er beinn og þar með illa til veiða fallinn og bendir bara burt. Kannski er þetta þar með post-sjávarbyggðaöngullinn, öngullinn sem þarf ekki lengur að veiða fisk heldur elur hann í kvíum? Kannski er þetta öngullinn sem krækir í sýn myndlistarmannsins – krókurinn væri þeim megin, ef öngullinn væri sveigður – og kannski vill hann gera það, kannski vill hann ná taki á „siðmenningu“ listaverksins og færa hann galleríinu en getur það ekki því þetta er ekki þannig öngull og heyið í honum er að súrna?

Eftir með nál og tvinna

Titill sýningarinnar – Í gegn um og til – vísar frá firðinum við gluggann, gegnum galleríið, til fjarðarins á fjærveggnum. Eða í átt að honum (enskun tilsins í titlinum er „towards“, ekki „to“ – hér er áfangastað ekki náð að fullu). Galleríisrýmið er þar með orðið að nokkurs konar göngum sem leiða í átt að töfraveröld, eða listgerðri veröld – á sænsku er það sem er „gervi“ kallað „konstgjort“, listgert – þar sem tungumálið fer krókaleiðir að sjálfu sér, einsog í róttæku málstoli – liggur beinast við að ímynda sér að orðin á veggverkinu vísi til litbrigða: Brúnt gil (?) verður „kaffibollabotn“, hafið verður „old or new sweater“ og fjallagrámi verður „bílaviðgerðargalli“ – og í litadýrð orðanna er allt svarthvítt, eða í besta falli sepia – brúnleitt – ekki bara á veggnum heldur líka úti í raunveruleikanum og í orðaveruleikanum.

Svartur köttur í köldum kjallara saumar hey í og til endurgerðar á morgunfirði. Áhorfandinn heldur áfram en heimsækir það sem er léttilega tekið með. Í gegn um og til er eins og ör, bæði í formi og líkama. Til staðar en samt eitthvað sem er liðið og er ekki lengur.

Svo stendur ritað í sýningarskrá. Textinn, einsog margt í sýningunni, leitast við að komast undan skilgreiningum manns – það er erfitt að festa hönd á honum án þess að festa sig í einhverju öðru líka. Landsbyggðaviðkvæmi maðurinn sem ég er ygglir svolítið brúnina yfir setningum einsog „liðið og er ekki lengur“ – og þykist sjá þar klisjuna um landsbyggðina sem staðinn sem allir bíða bara eftir að deyi, þorpið úr ljóðum Bubba (sem ég elska og fyrirgef, einsog ég elska og fyrirgef Ástu).

Unga fólkið er fyrir sunnan að vinna
Gamla fólkið varð eftir með nál og tvinna
Útá firði er enga drauma að finna
Þorpið er að þurrkast út

(Úr Þorpinu eftir Bubba Morthens)

En það er líka einföldun. Hugsanlega er staðurinn sem er ekki til lengur sá á myndinni – hin rómantíseraða ljóðum bundna náttúra – og undirstrikar sýningin þannig traustan veruleika þess sem þó er til staðar. Að þrátt fyrir öll „Þorpin“ þá láti þorpin sér ekki segjast enda sé mannfélagið traustara en … stóll úr pappír? Sönglag? Og kannski er staðurinn örin sem er ekki staður heldur leiðarvísir – skilti sem bendir héðan þangað. En hver er þessi svarti köttur? Kött Grá Pje, höfundur Hinnar svörtu útsendingar og fyrrum samstarfsmaður Ástu? Eru þetta sæhestar eða gárur á veggnum? Hvers vegna er bara eitt stígvél? Eru stikurnar að benda mér á eitthvað – á örina á önglinum? Sem er kannski ekki öngull eða ör heldur akkeri – það sem heldur bænum föstum (svo hann fer aldrei suður). Eru stikurnar kannski eldspýtur? Í hverju á nú að fara að kveikja? Og af hverju les maður allt sem maður sér með augum sjálfs sín, fordómum sínum og viðkvæmni? Hvers vegna er hey í örinni/önglinum – er landbúnaðurinn runninn saman við sjávarútveginn? Af hverju fór einfætti stígvélaði maðurinn inn á skónum? Er þessi öngull kannski hvorki öngull né ör eða akkeri heldur ílangt karltáknið?

♂

Og er það þá fullt af … hálmi, einsog fuglahræða? Maður spyr sig.

Hugarheimur sýningarinnar er jafn dásamlegur og heillandi og hann er afvegaleiðandi. Ég er ekki miklu nær um hvað hún er, en ég naut þess að sjá hana, mér þótti gaman að henni og gaman að hugsa um hana. Og ég lofa að það er ekki bara vegna þess að Ásta er vinkona mín og hún sagði mér (minnir mig a.m.k.) ekki að segja neitt af þessu, hennar útskýringar voru áreiðanlega allt öðruvísi (og fagmannlegri) en þessar.