Ég þarf engan stjörnukíki

Ég held með söngvaskáldum.

Fyrir mér er það göfugasta og fallegasta leiðin að tónlistarsköpun. Að semja sönglög og flytja þau sjálf(ur). Það kemst næst því að syngja eins og fuglarnir syngja. Og er það ekki viðmiðið: hin platónska frummynd (tón)listarinnar?

Þetta er í grunninn rómantísk afstaða. Þetta er heldur ekkert svona einfalt. Þar sem ég hlusta talsvert mikið meira á klassíska tónlist en popp og rokk þá má líka segja að þetta sé einfaldlega rangt. En samt. Ég held með söngvaskáldum. Þau eru að gera eitthvað rétt.

Ég hélt líka með Hildi Völu þegar hún birtist okkur fyrst sem keppandi í Idolinu. Því auðvitað horfði ég, þó hin einstrengingslega tónlistarskoðunin mín sé sú að mikilvægi söngvara í tónsköpun sé gróflega ofmetið. Ein ástæða þess að ég gladdist yfir sigri Hildar Völu 2005 er að mér fannst hún ekki syngja sjálfri sér til dýrðar heldur í þjónustu tónlistarinnar. Aftur: rómantísk afstaða. En svona er þetta.

Ég get ekki sagt að ég hafi lagt eyrun við fyrri plötum Hildar Völu. Tökulagaplötur eins og sú fyrsta eru algerlega fyrir utan mitt áhugasvið og þó margir af höfundunum sem leggja til lög á Lalala séu í miklu uppáhaldi, sem og söngkonan, þá vil ég miklu frekar hlusta á þá Spilverksbræður og Svavar Knút túlka sín eigin lög. Ég held með söngvaskáldum muniði.

Og nú er Hildur Vala ein af þeim. Geimvísindi er fyrsta platan hennar.

Eitt af því sem gerist þegar lagahöfundur syngur lögin sín er að allt, sem sungið er, er samkvæmt skilgreiningu „lagið sjálft“. Allar slaufur og skraut líka. Reyndar hafa söngvaskáld flest tilhneigingu til að nálgast lögin sín með flúrsneyddri virðingu. Enda: ef höfundurinn treystir ekki laginu, hver ætti þá að gera það. Þetta á líka við um Hildi. Þá sjaldan einhverjar slaufur hljóma eru þær augljóslega hluti af vefnaði lagsins sjálfs. Tími er ágætt dæmi.

Annars eru lagasmíðar Hildar fremur látlausar. Hún hefur greinilega næmt eyra fyrir áheyrilegum línum og lætur það ekki slá sig út af laginu þó að allt hafi þannig séð verið sagt og gert innan dúr-og-moll kerfisins og þeim brautum sem poppið, og norðurevrópsk vísnatónlist, hafa markað. Hér er lítið um ævintýramennsku í hljómagangi eða skógarferðir í leit að frumleika. Lögin eru „krókótt“ en ekki kræklótt, full af „húkkum“ sem sökkva sér í tónminnið og neita að sleppa, fyrr en næsta lag sest þar að.

Þrjú þeirra gerðu sig strax alveg sérstaklega heimakomin þar: hið fagra og ljúfa Dagdraumar, Sem og allt annað, sem er kannski hreinræktaðasta popplagið, gott ef það og heyrist ekki bergmál úr söngbók Guðmundar Jónssonar í viðlaginu, rækilega stutt af útsetningu og hljóðfæravali. Og svo titillagið, sem mér finnst reyndar með best heppnuðu íslensku popplögum sem ég hef heyrt árum saman. Það er allavega orðið ansi langt síðan lag hefur fengið eins langdregna rípít-meðferð hjá mér og Geimvísindi.

Þar munar reyndar heldur betur um framlag helsta meðhöfundar Hildar Völu. Fyrir utan tvo úr eigin smiðju, einn frá Hjalta Þorkelssyni og annan frá Skúla Jónssyni eru textar Geimvísinda eftir Dag Hjartarson. Það verður að teljast eitt helsta snilldarbragð plötunnar að munstra þetta öfluga unga ljóðskáld á skútuna. Fá aðgang að myndvísi og nákvæmni hans, færni í að ljá einföldum orðum þunga, flytja fókus, opna augu og eyru.

svarthol háma’í sig vetrarbrautir
ég hugsa samt bara um þig
miklihvellur þyngri þrautir

ég hugsa samt bara um þig

ég þarf engan stjörnukíki
til að sjá hvað allt er svart
(Geimvísindi)

allt bros þitt bætir
hjartað hrakið
því líður strax skár

þótt sorgin seytli
gegnum þakið,
þú þerrar öll tár

það ert þú
sem skilur
þótt allt eigi sér endi
ertu upphafið
(Upphafið)

að sakna þín það er vinnan mín
stimpla mig snemma’ inn
græt og vinn og vinn
(Ég held áfram)

List ljóðskáldsins.

Ég get ekki annað en farið að fabúlera um að þetta sé ný byrjun á samstarfinu sem Kristján frá Djúpalæk, Indriði G og aðrir slíkir þungavigtarmenn áttu við poppsmiði síðustu aldar. Að Fríða Ísberg, Eiríkur Örn og Bragi Ólafsson fái minni og minni frið fyrir upphringingum úr stúdíóum lagasmiðanna næstu árin. Kristín Ómars. Legg það til.

Það er sterkur og fallegur heildarsvipur á útsetningarvinnunni. Einvalalið spilar eins og einvalaliði er von og vísa og Jón Ólafsson stýrir verkum af sinni alkunnu smekkvísi. Mjúkt rafmagnspíanó oftar en ekki í stóru hlutverki, en hljóðheimurinn þaninn út eftir því á hvað hvert lag kallar. Stundum heyrum við hefðbundið trommusettstromm, stundum gefur einmana tambúrína púlsinn. Einstaka lag þykir mér hefði notið góðs af „epískari“ pródúksjón, meira drama, ég er aðallega að hugsa um Ég held áfram, sem mér finnst eiga inni svolítið flug undir lokin. Blásturshljóðfæri bæta línum við og stundum rafmagnsgítar. Aðeins eitt lag er alfarið gítargrunnað, og fer vel á því, intróið að Júlíu nær einhvernvegin að kallast á við tvo fræga poppsöngva um ástarógæfu allra tíma, lög Bubba Morthens og Marks Knopfler. Flott lag og enn einn dásamlegi textinn frá Degi, hvalreki fyrir Shakespearelúðann sem hér skrifar. Að svo miklu leyti sem ég er dómbær á „sánd“ þá hljómar þetta allt eins og best verður á kosið.

Þetta er fjári góð frumraun á nýjum vettvangi hjá Hildi Völu. Hún axlar ábyrgð söngvaskáldsins af sannfæringu og einlægni, og gefur okkur ásamt Degi Hjartarsyni nokkur lífvænleg lög í söngbók Íslands. Er vonandi hvergi nærri hætt.