Golden Core – Baldurskviða/Blóð
Út er komin ný smáskífa með norsk/íslenska dúóinu Golden Core. Á henni eru tvö lög. Annað er nýtt og nefnist Blóð. Hitt er endurvinnsla á Baldurskviðu, einu sterkasta lagi Norwegian Stoner Machine sem kom út í fyrra. Ólíkt breiðskífunni þá eru bæði lögin hér sungin af Jóhannesi Sandal trommara og útkoman er bara nokkuð pönkuð fyrir vikið. Framfarir eru nokkrar og þá helst á þann veginn að útsetningar eru fyllri. Það er meiri botn og bara meira um að vera í lögunum. Gott mál.
Sveinn Guðmundsson – Húð og Hár
Sveinn á að baki eina plötu, hina skemmtilegu Fyrir herra Spock, MacGyver og mig og kominn tími á nýtt efni frá honum. Húð og hár er fyrsta lagið sem hann sendir frá sér af plötu sem hann vonar að hann nái að gefa út í haust. Hljóðheimurinn á þessu lagi er nokkuð dimmur miðað við síðustu plötu. Drungalegur bassinn leiðir lagið sem er, þrátt fyrir drungann, þægilegt áheyrnar og grípur hlustirnar strax. Textinn fyllir mann svo nokkrum óhugnaði þar sem Sveinn bendir okkur, í góðmennsku sinni, á það að það eru alls konar húðflögur og laus hár sem fljúga út um allt og á allt og alla. Ætli þetta fari ekki upp í mann og svoleiðis líka.
Teitur Magnússon og Dj flugvél og geimskip – Lífspeki
Lífspeki er nýtt lag frá Teiti sem hefur áður gert fína sólóplötu. 27 nefndist sú. Þessi útgáfa inniheldur fjórar mismunandi útgáfur af laginu. Svokallað Radio Edit, sem er styttra, hefur lætin, svo kemur standard útgáfan, nokkuð lengri og að lokum tvö remix gerð af Gunnari Jónssyni Collider og Kraftgalla Spirit. Hann fær aðstoð í laginu frá Dj flugvél og geimskip. Tónlistarlega séð er þetta lag stórfínt, Teitur er enn mellow en hefur fært sig frá reggíinu, í.þ.m. í þessu lagi. Mér finnst lengri útgáfan betri en klippta útvarpsútgáfan og greinilegt að ég er ekki einn um það þar sem sú stutta hefur mun færri hlustanir á Spotify en sú lengri. Verð að segja eins og er að ég fatta ekki tilganginn með þessu. Remixin eru eins og remix eru og hafa alltaf verið, eiginlega bara leiðinleg. Þau bæta litlu við lagið og þá tilgangslaus að mestu.
Nýríki Nonni – Skipstjórasvítan
Kurt Vonnegut sagði einhvern tíman eitthvað á þá leið að allir ættu að fást við listsköpun, skítt með getu þeirra eða hæfileika til verksins því það gæti annað en gert þeim sem list skapar gott. Ég er alveg sammála honum. Að því sögðu þá get ég ekki sagt annað en að þetta lag Nýríka Nonna, eins og fyrri verk, er rusl og það er alveg greinilegt að þeir halda að það sé mikið betra en það er. Ef þið trúið mér ekki þá skuluð þið bara hlusta á þetta sjálf. Það besta sem ég get sagt um þá er að það er greinilegt að þeir hafa gaman að þessu. Ætli það sé ekki nóg í bili.
Logi Pedro – Dúfan mín
Logi Pedro fyrrum bassaleikari gæðapoppsveitarinnar Retro Stefson hefur víst verið að gera það ágætt við upptökustjórn og slíkt að undanförnu, ef ég hef tekið rétt eftir. Hér er hann kominn á kreik á eigin spýtur með popplag sem hæfir tíðarandanum en eitthvað er samt á skjön. Lagið er dapurra en maður á að venjast enda sungið frá sjónarhorni skaddaðrar karlmennsku og alkóhólista sem langar að hitta á ákveðna stelpu en gengur ekki og þá finnur hann sér bara nokkrar aðrar en man ekki neitt. Svakalegt maður. Lagið er fínt og hljómar vel. Nútímapopp sem er mun betra en maður á að venjast.