Þétt, þung og melódísk

Norsk-íslenska rokkhljómsveitin Golden Core gaf á dögunum út sína fyrstu breiðskífu sem þeir nefna Norwegian Stoner Machine. Hljómsveitin hefur verið að gera það gott í rokksenu Oslóar og hituðu m.a. upp fyrir Napalm Death þar síðasta sumar. Fyrir frammistöðu sína á þeim tónleikum gaf norski vængur Metal Hammer þeim 8/10. Það sem gerir þetta öllu merkilegra er að meðlimir hljómsveitarinnar eru aðeins tveir og eru 14 og 12 ára gamlir.

Drengirnir tveir Johannes Thor Sandal trommari (14)  og Simen Harstad gítarleikari (12) byrjuðu að spila saman fyrir þremur árum síðan þá aðeins 9 og 11 ára og hafa leikið saman á einum þrjátíu tónleikum síðan þá. Johannes er af íslenskum pönkaðli en hann er sonur Jóns Júlíusar Sandal sem var söngvari í hljómsveitunum Sogblettum, Dýrið gengur laust og Niður. Bróðir Johannes, Víðir Alexander Jónsson, er bassaleikari Pink Street Boys.

Platan er inniheldur átta frumsamin lög, sem strákarnir semja saman, og er 33 mínútna löng. Þetta er eins og nafn plötunnar gefur til kynna þungarokk af þeirri gerð sem er oft kallað Stoner Rock. Þekktasta hljómsveit af þeirri gerð er líklegast Queens of the Stone Age þó sú sveit vilji ekki láta kenna sig við stefnuna og eigi kannski lítið skylt við hana sem komið er.

Það er greinilegt á lögunum átta að þeir Johannes og Simen hafa æft sig mikið og hlustað á alls konar þungarokk og lært af því. Það er talsvert um sjóuð þungarokksminni og tónlistin er þétt og vel spiluð og það sem skiptir sjálfsagt mestu máli, vel samin. Simen gítarleikari er sannkölluð riffmaskína. Í alvöru, strákurinn er alveg sérstaklega lipur og mér þykir með ólíkindum að þarna sé á ferðinni tólf ára gamall strákur. Johannes er eins góður og skemmtilegur trommari og mun betri en maður á von á frá 14 ára gömlum trommuleikara.

Það háir ekki sveitinni mikið að vera án bassaleikara og söngs. Gítarleikurinn er það þéttur, hljómurinn það þungur og lögin það melódísk. Hins vegar á botnin til að detta úr þegar Simen sleppir rytmanum og tekur likk. Það hefði sjálfsagt mátt laga með að bæta við rytmagítarrás við upptökur en eins og fyrr segir þá gerir það ekki mikið til. Það er ekki val strákanna að vera án bassaleikara og söngvara, þeir hafa ekki átt erindi sem erfiði við að finna jafnaldra sem hafa þá færni og áhuga sem þeir búa yfir. Það mun eflaust koma með tímanum.

Besta lag plötunnar, sem er annars nokkuð jafngóð, finnst mér vera Hymn of Balder (Baldrskviða). Það lag hefur nú verið tekið upp aftur með breiðari útsetningu og mun vera væntanlegt á næstunni. Ég hef heyrt rough mix af nýju útsetningunni og það lofar góðu. Fylgist með.

Það segir sig sjálft að plata tekin upp og gefin út af börnum fengi jákvæða dóma sama hvernig hún væri úr garði gerð. Bara framtakið sjálft er lofsvert. En Norwegian Stoner Machine stendur undir jákvæðum dómi út frá eigin forsendum. Þetta er gott byrjendaverk frá strákum sem eiga eftir að verða mun betri er fram líða stundir.