Norðrið á stofuborðinu

Þankar um heimildir - ímynd og skáldskap

Ljósmynd getur sagt meira en þúsund orð – en við skulum gefa okkur á annað þúsund hér til að skoða nokkrar hliðar á ljósmyndavirki Ragnars Axelssonar, hins þjóðþekkta könnuðar og listamanns sem fært hefur okkur svo mörg undur á síðum Morgunblaðsins í gegnum tíðina.

Líkt og Edward S. Curtis færði okkur indjánann á ljósmyndastofunni, færir Raxi okkur Norðrið á stofuborðið. Andlit Norðursins er Magnum Opus ljósmyndarans Ragnars Axelssonar og vissulega öndvegisverk sem prýða mætti margt sóffaborðið því það verður ekki um deilt að hér er hin endanlega útgáfa þess verks sem áður hefur komið út, Andlit Norðursins. Eins og flestir vita spannar verkið þrjátíu ára starf á Norðurslóðum, enda er það svona klassískt viðmið í ljósmyndabransanum; Edward S. Curtis tók myndir af indjánum Norður-Ameríku í þrjátíu ár og bjargaði þannig ímynd gamla tímans inn í þann nýja; að einhverju leyti kallast hugsun Raxa á við þessa – að varðveita tímabil, ásýnd mannlífs sem er að hverfa. Viðbætur og texti sem fullna þær sögur sem byrjað er að segja með ljósmyndinni – baksaga myndanna – fylla uppí þessa frumhugsun Ragnars; og í verkinu gerist það oft að hið fornkveðna sannast – að ljósmyndin segir meira en þúsund orð. Ef maður veit eitthvað smá um hana til að byrja með.

Það er þakkarvert í bókarforminu að fá texta með þessum myndum; ímyndum sem við þekkjum margar hverjar fyrir vegna þess hve saga verksins er orðin löng með þjóðinni.

Það þarf nefnilega nokkur orð um myndefnið til að koma hugarfluginu af stað í að njóta verksins enn frekar og þau orð sem við fáum í baksögu hverrar myndar víkka út það svið sem við getum notið myndanna á. Þær verða merkari heimildir, byggja sterkari ímyndir og leiða okkur á stundum inná svið skáldskaparins.

Sagan á stofuborðinu – Ljósmynd sem heimild

Það hefur tekið þrjátíu ár að safna saman því heimildarsamhengi sem við sjáum í Andlitum Norðursins. Þar eru myndir sem birta okkur þá og nú, þá og hvað, baksvið og forsögu hundrað heima sem segja okkur sögur frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Einstaka myndir eru frá tveimur tímum en í flestum tilvikum fáum við innsýn í það í texta hvort viðkomandi sé á lífi enn þann dag í dag eða ekki. Þannig er það í raun staðfest með einhverjum hætti að við erum að skyggnast inn í heim sem er að hverfa. Þessvegna er það þroskandi að dunda sér með þessa bók, anda því inn hvað þessi myndræni jaðarheimur er nærri manni en um leið hverfandi. Raxi er ekki síður góður penni þegar hann bregður honum fyrir sig til að fanga andrúmsloft eða kjarnann í góðri sögu. Stundum er hann fyrst og fremst að gefa okkur innsýn í heiminn, brotið sem gerir ljósmyndina að heimild um eitthvað atvik, aðstæður og augnablik. Þúsundir mannamynda frá fyrri tíð eru í raun ekki heimildir um neitt því við þær vantar nöfn. Hér eru okkur gefin nöfnin, sagðar sögurnar. Þeir fóru, þeir komu, þeir hlógu.

Það er ljóst að Ragnar ætlar sér mikið verk, að skrásetja og varðveita þannig heimild sem hann vonar að hægt verði að kalla „síðustu daga norðursins“ (e. The Last Days of the Arctic) eins og hann hélt fram í heimildamynd með sama nafni sem Saga Film framleiddi fyrir fimm árum. Hún var einhverntíma sýnd á RÚV en ég sá hana ekki. En það að hafa séð hana kemur ekki í staðinn fyrir að skoða þessa bók með það í huga að heimildin er ekki um ferðalög eins manns eða skoðanir hans á því hvaða tegund fólks sé í bestu sambandi við náttúruöflin. Bókin felur allt annarskonar reynslu í sér, því það að dvelja með bók reynir á fegurðarskyn okkar og þolinmæði. Myndirnar eru vissulega heimildir en það hvernig við tökum inn sýnir okkur aðeins úr hverju við erum gerð. Afhjúpar þolgæðin. Heimildir um hvað eru þessar myndir? Hvernig fólk? Hvernig gildismat? Hvað kemur það okkur við? Skiptir máli að þetta er hverfandi heimur?

 

Það væri hægt að draga urmul mynda út til að varpa ljósi á hlutverk Andlita Norðursins sem heimildarverks en Ole Neylsen með náhvalinn úr Grænlandshlutanum er tilvalinn því þar kemur allt heim og saman; við erum nánast vitni að atburði sem varpar ljósi á söguna því náhvalstönnin var fyrr á öldum ein verðmætasta útflutningsvara Grænlands – en eins og þeir sem hafa lesið Svarta víkinginn eða Geirmundarsögu Heljarskinns vita – því Evrópubúar töldu þar horn hins goðsögulega einhyrnings vera komið. Þetta er atburðarmynd sem felur ekki í sér sama ferðalagið og svo margar af myndum Ragnars, hér eru hvorki dýrin né náttúran í fyrirrúmi heldur saga, frásögn, einhverskonar kjarni sem er handan þess að fanga stemningu.

II Bóndinn í ullarpeysubúðinni – Ljósmynd sem ímynd

Það er furðulegt með ljósmyndir af fólki, sumar öðlast einhverskonar dulmagn og geta talað inn í ótal aðstæður. Sál þess sem myndin er af nær einhvernveginn að tala í gegn og við finnum fyrir auðmýktinni, húmornum, feimninni, eða hvað sem það kann að vera sem myndin fangar. Mynd af einstaklingi getur því talað langt útfyrir heimildargildi myndarinnar; hún verður að ímynd. Þátturinn sem snýr að Íslandi í bók Raxa er fullur af ímyndum, íslenskir bændur í einstæðingsskap. Óblíð náttúruöflin. Glott, reykur, fjall, kannski kind eða hestur. Það er auðvelt að taka þátt í gleðinni í þessu samhengi en um leið þá er ekkert frumlegt við þessa nálgun eða það val sem Rax hefur gengið út frá; Norðrið er klisjan um hið hnignandi handverks- og frumsköpunarsamfélag sem deyr út með síðustu móhíkönunum. En þeir eru þarna líka; síðustu móhíkanarnir.

 

Á þarnæsta bæ við okkur afa bjó Guðmundur á Kaldá og Anna systir hans, Betúelsbörn fædd í Hornvík á Hornströndum en bjuggu í Önundarfirði frá 1931. Bæði voru þau barnlaus en barngóð, Guðmundur lést 95 ára að aldri árið 1991 en Anna 98 ára átta árum seinna. Þannig er saga fólks. Og án mynda Raxa af Gumma á Kaldá væru þau kannski nú þegar gleymd. Þannig er með mátt ímyndar, hún getur viðhaldið heimild og haldið á lofti merkri sögu, ef hún er notuð í þeim tilgangi. En ímyndir eru líka söluvara. Nú er Gummi á Kaldá frægur karl þó fæstir muni hvað hann heiti. Hann er ímynd. Ljúfi og vinalegi samanrekni bóndinn sem þú mætir í Rammagerðinni. Eða túristarnir semsagt. Sem túristarnir mæta í Rammagerðinni því þangað fer enginn Íslendingur inn. Raxi hefur skapað sterkar ímyndir með verkum sínum í gegnum tíðina. Gummi á Kaldá var lengi seldur á frábæru póstkorti sem nú er að finna í baksöguhluta Andlita Norðursins. Mér þótti alltaf vænt um það. Og mér þykir alveg vænt um að Gummi eigi líf „eftir dauðann” í mynd Raxa, sem er notuð til skreytinga í öllum verslunum Rammagerðarinnar. Og að peysan sem Anna prjónaði handa honum sé nú framleidd í stórum stíl og seld ferðamönnum sem dæmi um eitthvað ekta og íslenskt. Munstur frá Hornströndum.

III Ljósmynd sem listaverk

En ímyndir Raxa eru fleiri og flóknari. Þær eru ekki alltaf af fólki og þær eru stundum tákn stórbrotins, landslags eða aðstæðna. Það er gaman að geta setið heima í stofu og velt þeim andstæðum fyrir sér, hinni óblíðu náttúru, veðrabrigðunum, lífsbaráttunni; og því Norðri sem við annars teljum okkur vera sigla í átt að. Hinu hreina og fagra norðri, hinu upplýsta norðri, norðri jafnréttis og bræðralags. Auðvitað er Raxi að reyna segja okkur eitthvað um það Norður líka í Andlitum norðursins. Eins og í þessari mynd:

Það er fjöldinn allur af fullkomlega römmuðum stemningum í þessari bók; ljósmyndaverkum sem lifa góðu lífi án baksögu og texta. Þar er náttúran oftast í aðalhlutverki. Verk á þeim nótum er ekki heimildaverk, það er enginn þverskurður náttúru norðursins kynntur til sögunnar, það fylgir engin staðsetning á korti, engar skýringar – og þær þarf ekki. Ljósmyndalistin fær að njóta sín og tímaleysið sem Raxi er að reyna fanga, tímabilið fyrir innreið nútímans, hefur alltaf verið til. Þó tilraunir séu gerðar til að gefa okkur innsýn í árhrif loftslagsbreytinga í nokkrum myndum frá Grænlandi þá er þetta ekki heimildaverk í þeim skilningi. Heimildahlutinn er skraut á kökuna. Þetta er listaverkabók og þannig sniðin fyrst og fremst að sjónrænni upplifun. Það er vel.

IV Ljósmyndin á sviði skáldskaparins

Það sem ég kann best að meta við verk sem dansar á þessari línu heimilda og hreinnar sjónrænnar upplifunar er þegar best tekst til og lesandinn er skilinn eftir á valdi ímyndunaraflsins. Sumir textar ljósmyndarans virðast miða að því, leikið er á ljóðræna strengi og fangaðar stemningar. Sumar tala til manns en þó verður að segjast fyrir mína parta að það er eitthvað sveitt við alla þessa upphafningu á því sem er jaðarspursmál; það er eitthvað ekta á kantinum sem ljósmyndarinn hefur nálgast og það er heilagt. Skilningur á því er aðeins fyrir innvígða. Það eru vissulega forréttindi að vera blaðaljósmyndari Morgunblaðsins árum saman; hvert og eitt okkar myndi gera ólíka yfirlitsbók yfir verk hans og kannski er í þeim tugþúsundum mynda eitthvað sem við myndum vilja sjá í verki eins og Andlitum Norðursins. En þessi karllægi heimur og rómantíski er heildin sem við fáum að kynnast. Barátta karlmannsins við norðurslóðirnar er í forgrunni; hetjulund og þrjóska, þrautseigja og dugnaður. Hið hrjúfa og villta. Og ímyndunaraflið heldur okkur einhvernveginn á þeim slóðum svo að sá skáldskapur sem af þessu sprettur er markaður af þeim ramma. Það er gaman þegar Raxi sprengir þann ramma með einhverju óvæntu, til að mynda hinni dularfullu sögu af leit hans að Óla Neylsen.

Þegar Raxi kemur aftur á svæðið man enginn eftir þessum manni sem hann hefur tekið svo margar myndir af og fílar svo vel. Hvort hann fór þangað eða þangað, þar kannast enginn við hann heldur. Samfélagið lætur einhvernveginn eins og hann hafi aldrei verið til og sú þversögn smitast yfir til okkar því að við höfum sönnunina; ljósmyndir Raxa segja okkur að Óli var til. Og þar stígur verkið inn á svið skáldskaparins í besta skilningi þess ferlis; sterk og áhrifarík ímynd leggst saman með heimild sem felur í sér opin bakgrunn og óvissu, svo að útkoman kitlar ímyndunaraflið með öflugri spurn: Hvar er Óli Neylsen og hvernig reiddi honum af?