Hjálmar – Hættur að anda
Það er þó nokkuð um liðið síðan hljómsveitin Hjálmar hefur sent frá sér breiðskífu en þess í stað hafa strákarnir gefið út nokkur stök lög síðustu ár. Það nýjasta er lagið Hættur að anda. Hjálmar halda sig við reggaeið eins og er þeirra von og vísa. Lagið sjálft er gott og er sungið frá sjónarhorni látins manns sem er að láta elskuna sína vita að hann muni, þrátt fyrir andlát sitt, ávalt vera við hlið hennar. Stórskemmtilegt en um leið örlítið krípí. Gaman af þessu.
Kælan mikla – Mánadans
Kuldarokksveitin Kælan mikla var handvalin af sjálfum konungi kuldarokksins Robert Smith til að leika á Meltdown festivalinu í London nýliðið sumar. Það hefur eflaust verið sveitinni góð lyftistöng svona rétt áður en ný plata kemur út. Mánadans er titillag nýju plötunnar og er keyrt áfram af bassa og trommum og söngkonan hálfsyngur lagið en öskrar viðlagið. Þetta er góður seiður.
Fræbbblarnir – Paint It Black
Fræbbblarnir eru einhver merkasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu og nýtt efni frá þeim er alltaf tilefni til tilhlökkunar. Hins vegar verð ég að segja eins og er að ég var efins þegar ég frétti að nýjasta lag sveitarinnar væri ábreiða af gamla Stones slagaranum Paint it Black. Þegar ég hlustaði á lagið þá var vafi minn að vissu leyti staðfestur, en samt ekki. Paint it Black er erfitt lag að tækla og sjálfsagt má gefa prik fyrir viðleitnina eina saman. Fræbbblarnir mega eiga það að þeirra nálgun að laginu er fremri U2 útgáfunni en að því sögðu þá hljómar lagið í þeirra meðförum aðeins eins og ágætt pöbbarokkband að taka lagið á balli, en með Fræbbblaattetjúdi. Þetta skemmtilegt í góðu hófi og vissulega mun betra en ég átti von á. En, ef þetta væru ekki Fræbblarnir myndi maður varla klára fyrstu hlustun.
Daði Freyr – Skiptir ekki máli
Ég veit voða lítil deili á Daða Frey og hef svona rétt hlustað á það sem hann hefur gert. Hann minnir mig nokkuð á of Montreal nema hann virðist ekki jafn klikkaður og Kevin Barnes og þ.a.l. er tónlist Daða Freys nokkuð aðgengilegri en of Montreal með sitt mjög svo hvíta fönk. En það er gott grúv í þessu og lagið hittir örugglega í mark á dansgólfum hvort sem þau er að finna í næturklúbbum eða í fjórðu hæð í fjölbýlishúsi á Blönduósi. Textinn er fínn og kýrnar í myndbandinu eru góðir áhorfendur.
Siggó – Ég á bara eitt líf
Siggó gerði þetta lag eftir að missa tvo góða vini sína vegna fíkniefnaneyslu með nokkurra mánaða millibili á fyrri hluta ársins. Lagið er einfalt, tregafullt og notkun hans á autotune nær vel að undirstrika sorgina.
Svavar Knútur – Morgun
Það er dúndurkeyrsla í þessu lagi. Hörkulegur bassinn, öflugur trommuleikurinn, rafgítarinn hektískur í versunum en líður áfram í viðlaginu, strengirnir dýpka og á bak við þetta allt er kassagítarinn traustur. Nýr dagur er að ganga í garð og sólin skín. Skýin eru að hverfa og þjáðar sálir eiga von. Mellonkólían skín þó í gegnum laglínuna sjálfa, þannig að kannski er þessi morgun fyrirfram dæmdur til að vera brostnar vonir framtíðarinnar. Svavar Knútur toppar sjálfan sig einu sinni enn. Popp verður ekkert betra en þetta. Meira svona!
Sveinn Guðmundsson – Drasl
Drasl er annað lagið sem Sveinn sendir frá sér af væntanlegri plötu. Eins og í síðasta lagi ber þetta lag titil sem gefur önnur hugarhrif en það sem lagið fjallar í raun um og kemur skemmtilega á óvart. Miðað við þetta lag, sem og Húð og hár, þá hefur Sveini farið mikið fram sem lagasmiði síðan síðustu plötu, hinni stórgóðu Fyrir herra Spock, MacGyver og mig. Þetta er ekkert drasl.