Friðrik Sólnes

Ástarljóð


Ég var bitinn af rottu í þvottahúsinu
Ég hélt að þetta væri naggrís eða eitthvað
Kannski vængbrotinn máfsungi
Einhver þakklátur og gæfur grár hnoðri
Hún hékk úr fingrinum á mér eins og loðinn dropi
Hún skalf af skömm eins og tár á karlmannsvanga

Ég var bitinn af rottu bakvið endurvinnslugáminn
Maður á ekki að vera að róta svona eftir þessu í hvert sinn þegar maður verður var við einhverja hreyfingu
Hún hékk úr fingrinum á mér eins og marglytta í Hagkaupspoka
Það var ekki henni að kenna hvað hún var ótútleg
Með brotið skott og skallablett við gagnaugað
Kannski hafði hún líka verið bitin af rottu

Það heyrðist „blutt“ þegar hún hlunkaðist í jörðina
Hún var í uppnámi og spólaði svolítið í mölinni áður en hún hvarf aftur undir gáminn
Hljóðið minnti mig á hönd sem rótar í smákökuboxi
og veit ekki enn að það á eftir að borða ljótu kökurnar líka
svo þessar brenndu
Spegla sig svo í kámugum botninum eins og sannur listamaður

Ég var bitinn af rottu bakvið grásleppuskúrana á Ægissíðu
Og rottan það varst þú
Það voru skokkarar og bílar og hjólreiðafólk útum allt
Allt glansandi svart
Gul sinan gekk í bylgjum eins og martröð
Við stóðum þarna tvö eins og pálmatré á ísplánetunni Hoth
Og ég fékk blóðeitrun og stífkrampa í tillann.


Friðrik Sólnes er rafvirki og býr í Svíþjóð. Friðrik er með MA gráðu í bókmenntum á ensku frá Stokkhólmsháskóla og hefur skrifað smásögur og greinar á íslensku og ensku, svo og formála fyrir nokkrar bækur Hugleiks Dagssonar.