Hér skal fjallað um nýjustu breiðskífu pönkhljómsveitarinnar Saktmóðigs. Áður hefur sveitin sent frá sér Ég á mér líf, Plötu og Guð, hann myndi gráta auk ýmissa styttri skífna. Hljómsveitina skipa þeir Daníel Viðar Elíasson trommuleikari, Davíð Ólafsson gítarleikari, Karl Óttar Pétursson söngvari, Ragnar Ríkharðsson gítarleikari og Stefán Jónsson bassaleikari. Þeir syngja allir kórinn í einu lagi. Um upptökur sá Aðalbjörn Tryggvason og Flex Árnason hljóðblandaði og tónjafnaði. Gefið er út undir merkjum Logsýru hljómsveitarinnar sjálfrar.
Ég sá Saktmóðig fyrst, að ég held, á Músíktilraunum 1991 og það var ógleymanleg lífsreynsla. Þessir, þá, strákar kunnu ekki neitt en voru samt alveg ótrúlega góðir. Síðan hef ég fylgst með því sem þeir gera, var t.d. á tónleikum þar sem þeir fengu uppklapp í fyrsta sinn. Á þessum tíma hefur sveitin þróast mikið en samt ekki neitt. Það verður að teljast andskoti gott hjá jaðarsveit sem þeirra að vera enn að eftir öll þessi ár. Þetta hark getur nefnilega verið heldur lýjandi, fer illa saman við fjölskyldulíf og afraksturinn stundum minni en enginn.
Umslagið á Lífið er lygi er, líkt og Saktmóðigs er von og vísa, fremur óaðlaðandi. Að framan liggur rotnandi kindarskrokkur á mel, fyrir nákvæmnissakir svartur sauður. Aftan á er dauður fugl og eins að innan en umslagið opnast. Á textablaði er sveitin sjálf þar sem er verið að mála þá fyrir tónleika. Það er hannað af Jakobi Veigi Sigurðssyni.
Ég verð að viðurkenna að ég hafði nokkrar áhyggjur af Saktmóðigi. Þar sem ég bý erlendis þá hef ég misst nokkuð tengingu við það sem er að gerast heima og myndir af hljómsveitinn frá Eistnaflugi ollu mér nokkru hugarangri, þó ekki miklu. Þar var að sjá Kalla söngvara í einhverskonar skrípópönkgervi og minnti mig mikið á Joe Strummer á Cut The Crap tímanum þegar Clash hljómuðu eins og paródía af pönkhljómsveit. Eins þá fannst mér vera kominn einhver metalgljái á tónlistina, sem er sjálfsagt ekkert skrítið að sé til staðar þegar litið er til þess hver tók stykkið upp.
En allar áhyggjur reyndust óþarfar. Metalgljáinn, ef gljáa skyldi kalla (þetta er jú Saktmóðigur), þurrkast af eftir fyrstu hlustanir og afhjúpar hráa pönktónlist sem stendur fyrir sínu. Vandaðri upptökur há sveitinni s.s. ekki neitt. Platan er öll frekar jafngóð, verður betri við endurteknar hlustanir og ekki hægt að segja að neitt lag sé betra en annað. Eins er ekki hér að finna svo mikið sem eitt vont lag. Sem endranær þá stendur Sakti fyrir sínu. Textar eru samfélagsgagnrýni þar sem skotið er á neyslusamfélagið, nýfrjálshyggjuna, BB o.s.frv.
Lífið er lygi er enn ein rósin í hnappagatið hjá Saktmóðigi. Eftir allan þennan tíma eru þeir félagar enn að gera fyrsta flokks pönktónlist. Hvorki meira né minna og maður getur ekki gert annað en að bíða spenntur eftir næsta verki. Hvort sem meðlimir klæða sig upp í skrípópönkgervi á tónleikum eður ei.