Mynd: Partus Press.

Moldarslóðar og óskastígar

Um ljóðabókina Leiðarvísir um þorp eftir Jónas Reyni Gunnarsson

Ég er hrifin af Leiðarvísi um þorp. Það tók mig langan tíma að lesa hana vegna anna. Síðasta vetur þegar ég fékk eintakið, orkuðu öll orð og hugmyndir annarra yfirþyrmandi á mig. Ég opnaði bókina, las fyrstu ljóðin og hélt að hér væri á ferð frekar týpísk niðurdrepandi bók um íslensk þorp, á borð við margar íslenskar bíómyndir síðustu ára. Ég er alveg hætt að nenna slíku. Nú þegar ég hef næði sé ég að textinn er ekki að reyna að drepa mig niður þó að framandleikinn og jafnvel ládeyðan sé gegnumgangandi. Bókin gerir ekki lítið úr þorpinu. Þorpið er eins og það á að sér að vera, það er frekar ljóðmælandinn sem veit ekki hvar hann á að vera. Hugurinn flutti mig beint til Egilsstaða, því ég las á fyrstu blaðsíðunni að Jónas Reynir hafi útskrifast úr menntaskólanum þar auk þess sem að hreindýrin koma strax við sögu. En ég þekkti samt líka mörg mótífin úr minni barnæsku á Suðurlandinu. Eins og hvað þessi frábæra myndlíking miðlar til okkar:

Bærinn og náttúran eru sitt hvort fyrirbærið en samt ekki aðskilin, eins og samloka sem búið er að skera í tvennt en bráðinn ostur tengir hlutana saman. Þú ert það eina sem tengir ykkur saman.

Hér er ekki á ferðinni gamaldags, rómantísk hugmynd af þorpi, heldur þorp sjoppunnar þar sem þú kaupir samloku og franskar með alltof miklu salti. 

Bókin er uppfull af blæbrigðaríkum lýsingum á bænum og náttúrunni, allt að því random heimspekilegum setningum sem og hóflegri tilvistarangist. Ég hef líka á tilfinningunni að það sé alveg böns af lærðum tilvísunum í textanum. Alla vega eru unglingar í skóginum og kannski eru einhverjar pælingar með bókin Þorpið eftir Jón úr Vör, ég veit það ekki, fékk hana aldrei í stúdentsgjöf. 

Það er hressandi að yrkt sé um tré og skóga, þau eru jú alveg til á Íslandi. Ég fíla líka hvernig yrkt er um steypu og fólk. „Steypa er aldrei ung.“ er mælt í ljóðinu EFTIR ÞREMUR STÍGUM. Ég skil setninguna ekki alveg en hún nær mér alltaf. Hraunið kólnar hægar en mannfólk sem er alltaf á iði og steypan er manngerð en samt svo mikil náttúra. Ég tengi líka við óvæntu byrjunina á ljóðinu YFIR MÝRINA: „Þú leitar að einhverjum sem lætur þér líða eins og aumingja.“ Hversu óteljandi oft hefur kona ekki einmitt leitað að þessum einhverjum! Reyndar stendur svo þessi í mýri í hvítum stígvélum eins og sögupersóna í skandinavískum krimma í ljóðinu. 

Leiðarvísirinn um þorpið beinist fyrst og fremst að barnæskunni, sá fullorðni er greinilega lost. Eins og sést í SUNDLAUG: „Líkami þinn speglast í glugganum og er kunnuglegur eins og einhver sem var í bekk fyrir neðan þig“. Þessi framandleiki sem ljóðmælandi upplifir er virðist mér bæði mjög sammannleg tilfinning og alveg einstök upplifun þessarar manneskju. Öll upplifum við eflaust þessa óútskýranlegu fjarlægð þótt við séum líka eiginlega nákvæmlega eins. Sum eru kannski sáttari við þorpið og þurfa ekki útgönguleiðir en það er ekki eins og þorpið kæfi ljóðmælandann eins og sést í ÚTGÖNGULEIÐUM. Það er hannað fyrir þig sem gest og þú getur streymt út úr því án þess að þorpið hafni þér. Þannig fær maður ekki á tilfinninguna að verið sé að fjalla um raunir þess sem hafnar sínum sveitó bakgrunni og fer til stórborgarinnar á meðan að heimamenn fyllast gremju út í hann. Kannski er þeir tímar liðnir, ég veit það ekki, en textinn lýsir meira flæði á milli sveita, þorpa, borga og náttúru þar sem einn lífsstíllinn þýðir ekki að maður sé að dæma hinn. Tilvistin er blönduð en ekki dregin í dilka eins og sjá má í ljóðinu Í GEGNUM GARÐ NÁGRANNA MÍNS

Ég hef stytt mér leið í gegnum garð nágrannans svo oft að moldarslóði sker lóðina í tvennt. Á ensku eru svona stígar kallaðir desire paths. Ég er hættur að skrifa undir mikilvæg skjöl með nafni og teikna í staðinn rákina úr garði nágranna míns. Hún lýsir því betur hver ég er.