Timon er ríkur aþenskur aðalsmaður sem nýtur þess að halda vinum sínum veislur, gefa þeim rausnarlegar gjafir og leysa hvers manns vanda með peningum. En gjafmildi hans kostar sitt og hann hefur enga yfirsýn yfir skuldir sínar sem vaxa hratt og þegar lánadrottnar sækja að honum leitar hann til vinanna sem notið hafa gestrisni hans. Allir neita þeir að lána honum fé. Hann fyllist ógeði á hræsnisfullu mannlífinu og eftir að hafa haldið síðustu veisluna þar sem hann ber volgt vatn á borð og formælir viðstöddum heldur hann út í auðnina og gerist einsetumaður. Um sama leyti reynir herforinginn Alchibiades að fá félaga sinn náðaðan af öldungaráði Aþenu, en vinurinn hefur verið dæmdur til dauða fyrir óljósar sakir. Öldungarnir neita að verða við því og enda á að dæma Alchibiades í útlegð. Timon hefur komið sér fyrir í helli fjarri mannabyggðum og þylur þar bölbænir sínar. Þegar hann grefur eftir rótum finnur hann gnægð gulls. Alchibiades og tvær hórur eiga leið um og eru leyst út með gjöfum, Alchibiades til að fjármagna herferð sína gegn Aþenu en hórurnar til að dreifa kynsjúkdómum. Fleiri leita til Timons og fá peninga og formælingar. Að lokum deyr hann, en Alchibiades tekur völdin í borginni.
Timon of Athens hefur nokkuð sannfærandi kröfu til að teljast „nútímalegasta“ leikrit Shakespeares. Drifkraftur þess er hinn sami og mótorinn í þeim heimi sem við, börn 20. aldarinnar hrærumst í. Peningar keyra atburðarás verksins áfram og eru nánast einir um það. Þetta er nefnilega líka einæðislegasta leikrit skáldsins. Gull og veraldleg verðmæti ráða för. Eða kannski öllu frekar hliðarsjálf þessa áþreifanlega hagkerfis, hinn grái afleiðumarkaður gjafa og styrkja. Markaður sem gefur sig og gufar upp þegar hinn harði raunheimur víxla og veðlána fellur.
Þetta er leikrit Shakespeares um hrunið. Aðalpersónan er glaður og blindur afleiðuvíkingur sem heldur tryllt partí fyrir kollega sína og heldur uppi geri af sníkjudýrum og listapakki. Hann má ekki til þess hugsa að vera annarsstaðar en í fyrsta sæti á gjafmildi- og ofrausnarlistanum. Það sem enginn virðist átta sig á, nema Flavius ráðsmaður, er að allt gjafaflóðið og veislutilstandið er borgað með lánum, gjarnan frá sama fólkinu og nýtur góðs af örlætinu.
Kunnuglegt?
Og svo þegar efnahagurinn tekur dýfu og lánadrottnar mæta með skuldabréfin þarf Timon að endurfjármagna lífsstílinn og leitar til þessara sömu djammfélaga sinna, sem víkja sér allir sem einn undan að hjálpa. Trúin á mannkynið hverfur í kjölfarið á föllnu víxlunum og afskrifaðri yfirdráttarheimildinni.
En þó Timon of Athens hafi allar þessar augljósu nútímaskírskotanir, og hafi alveg átt sínar stóru stundir í leikhúsi samtímans, þá er það samt svolítið utanveltu og alls ekki í flokki nafntogaðra verka. Hvað veldur?
Nærtækast er að benda á að verkið er sennilega ekki tilbúið. Það handrit sem liggur til grundvallar prentaðri útgáfu þess er það allavega ekki, sem má ráða af bæði kaótískum frágangi nafna og titla aukapersóna en þó einkum „subplottinu“ varðandi erjur Alchibiadesar við öldungaráð Aþenuborgar og tengsl hans við Timon, sem virðast bæði náin og næsta ópersónuleg þar til í lokin. Þá má nefna vægast sagt óheppilega óreiðu varðandi verðgildi peninga, sem sífellt er verið að tala um. Þannig eru t.d. þrjár talentur taldar verðugur heimamundur dóttur ríks maurapúka í fyrsta atriði en þúsund talentur viðráðanleg skuld nokkrum þáttum síðar. En maður hefur reyndar alltaf talið það eitt einkenni hinna ofurríku að bera ekki skynbragð á verðgildi peninga.
Allt bendir til að verkið hafi ekki átt að fá sess í heildarútgáfunni 1623 eins og Arden-ritstjórarnir Anthony B. Dawson og Gretchen E. Minton rekja skilmerkilega. Eðlilega, úr því verkið var ekki tilbúið þegar Shakespeare féll frá og næstum örugglega aldrei leikið. Auk þess er nokkuð óumdeilt að Timon er samvinnuverkefni Shakespeares og Thomasar Middleton og þar með annað tveggja verka í F sem þannig eru til komin. Hitt er Henry VIII – All is True og það er sennilega þarna til að hnýta endahnútinn á söguleikjaröðina.
Það sem virðist hafa gerst er að þegar útlit var fyrir að ekki fengist leyfi ritskoðara fyrir að hafa Troilus and Cressida með hafi Timon verið sóttur í skjalageymsluna og prentaður í bilinu milli Romeo and Juliet og Julius Caesar sem þýddi nokkrar auðar síður, því Timon er umtalsvert styttri en Troilus. Þegar upp var staðið kom grænt ljós á Trójudramað sem þá var troðið með ærnu veseni milli harmleikja og söguleikja.
Hvers vegna lauk Shakespeare ekki við Timon? Um það fáum við seint nokkuð að vita. Allt bendir til að jafnvel þó að þeir Middleton hefðu klárað verkið, pússað alla vankanta og fyllt í allar eyður þá hefði útkoman samt verið næsta einstök í kanónunni. En samt talað skýrt við önnur verk í nágrenninu, ekki síst meistaraverkið sem leit dagsins ljós um svipað leyti og er líklega hreinlega í smíðum á sama tíma, hinn harmleikinn með sub-plot, hitt leikritið með vanþakklæti sem hreyfil, King Lear. Gerólík verk að næstum öllu leyti, en hverfast bæði um grundvallarefasemdir um mannlegt eðli, og hvort undirstöður siðferðilegs samlífs sé traust eða skurnin ein.
Þrátt fyrir alla sína augljósu byggingagalla, sýnilegu járnabindingar og ófokheldu hliðarálmur þá finnst mér Timon helvíti flott leikrit. Spennandi efniviður. Hreyfir talsvert mikið meira við leikhústaugunum en Troilus og All’s Well, og að sumu leyti líka meira en Measure for Measure, þó það verk muni alltaf standa hjarta mínu nær. Byggingarflækjur þess leikrits, mótsagnir og þyrrkingsleg retórík er samt víðs fjarri hinu skýra og tiltölulega einfalda – einbeitta – erindi Timons, sem jafnframt státar af skáldlegra flugi en nokkurt þessara verka. Þjóðsagnakennur efnisþráðurinn, ævintýrablærinn sem það á sameiginlegt með MfM og AWTEW, fer þessu verki líka betur.
Þetta er kröftugt leikrit. Og þó höfundarnir togi það nokkuð kröftuglega í ólíkar átti með illsamræmanlegum stílsmáta sínum þá er Timon þrátt fyrir allt heilsteypt. Ef ekki hreinlega einæðingslegt.
Við þurfum aðeins að spá í meðreiðarsveininn. Thomas Middleton var sextán árum yngri en Shakespeare, iðnaðarmannssonur eins og hann, en pabba Thomasar vegnaði öllu betur en hanskaskraddaranum í Stratford svo hann gat sent sinn strák til mennta. Middleton var afkastamikið leikskáld og líkt og Shakespeare jafnvígur á harmleiki og gleðispil, sem annars var nokkuð fátítt. Þegar þeir settust saman yfir söguna af mannhataranum Timoni hafði hann fyrst og fremst getið sér orð fyrir nokkrar borgarkómedíur, en „City Comedy“ var nýjasta tíska í leikhúsunum, háðsádeilur á gráðuga uppskafninga og fávís fórnarlömb þeirra. Þarna var nýr tónn sem Shakespeare hafði ekki á valdi sínu. Eigum við ekki að gera ráð fyrir að frumkvæðið hafi komið frá gamla manninum? Um það er auðvitað ekkert vitað. Kannski heimtuðu félagar hans í Kóngsmönnunum að hann „yngdi upp“ hjá sér. Kannski var hluti af starfsskyldum hans að „scouta“ eftir nýjum höfundum. Við vitum heldur ekki hvort Middleton eigi þátt í All’s Well that Ends Well, sem þykir samt frekar líklegt, og Measure for Measure, sem er óvissara.
Einn smá fróðleiksmoli um Middleton í viðbót: Eitt af verkunum sem hann hafði skrifað áður en hann sór sig í fóstbræðralag með okkar manni er stuttur harmleikur. A Yorkshire Tragedy. Það verk var prentað 1608 og eignað Shakespeare á forsíðunni.
Það er auðvitað ekki alveg eining um hvað hvor þeirra skrifaði í Timon of Athens. Þó er talið nokkuð ljóst að upphafsatriðið sé Shakespeares, sem og rönt Timons í síðari hlutanum. Óumdeilt þykir að Middleton eigi fyrstu atriði þriðja þáttar, þar sem þjónar Timons heimsækja viðhlæjendur húsbónda síns í von um fyrirgreiðslu. Ef þeir eru skoðaðir kemur munurinn vel í ljós. Middleton er spar á myndmál, sem freyðir og flæðir um hinn Shakespearska hluta textans, stundum hreinlega út af. Senur Thomasar eru einfaldar og hvassar, nánast „kartúnískar. 3.2 sérstaklega: Lucius er ekki fyrr búinn að hneykslast á fréttum af viðbrögðum kollega síns sem sendi þjón Timons frá sér með öngulinn í rassinum, en hann bregst nákvæmlega eins við. Chutzpah-bikarinn tekur samt Sempronius í 3.3., sem hefði SVO verið til í að hjálpa vini sínum en móðgast heiftarlega yfir því að hafa verið beðinn síðastur og neitar að verða að liði.
Kannski má súmmera hið satíríska viðhorf leikritsins upp með þessari línu frá Middleton:
The devil knew not what he did when he made man politic …
Þannig verður þjóninum að orði sem biður um lán hjá þeim síðastnefnda.
Þó Shakespeare sé einn um það í höfundateymi Timons að nýta sér skáldlegt háflug og skrautlegt myndmál þá er það engu að síður eitt höfuðeinkenni verksins, það sem orkar sterkast á lesandann/áhorfandann. Eitt af því sem fangar hugann er leiðarstef mannáts í textanum. Háðfuglinn Apemantus dregur stöðugt fram líkindi þess að nærast á holdi meðborgara sinna og hinni fjárhagslegu óhófs-symbíósu sem allir hrærast í nema hann. En þessi hugsun er ekki bundin við hann:
TIMON
You had rather be at a breakfast of enemies than a dinner of friends.ALCIBIADES
So the were bleeding-new, my lord, there’s no meat like ’em: I could wish my best friend at such a feast.APEMANTUS
Would all those fatterers were thine enemies then, that then thou mightst kill ’em and bid me to ’em!1.2.78–85
Apemantus er eitt af því sem gefur verkinu nútímablæ og styrkir hliðstæðu þess við heim ríkismanna nútímans. Hann lætur vissulega Timon og félaga hans „heyra það“, formælir þeim og hæðist að yfirborðsmennsku þeirra og óhófi, en engu að síður er hann „utaní“ Timoni, að einhveru leyti á hans framfæri sýnist manni.:
TIMON
O, Apemantus, you are welcome.APEMANTUS
No;
You shall not make me welcome:
I come to have thee thrust me out of doors.1.2.24–26
Og Timon leikur sitt hlutverk sem velgjörðarmanns til fullnustu, jafnvel gagnvart gagnrýnendum sínum. Það kemur ekki til greina að vísa háðfuglinum á dyr, en auðvitað ekkert mark á honum tekið heldur.
Listamaðurinn sem hirðfífl. 2007.
Það er bísna vel unnið með þetta í mynd Jonathans Miller fyrir BBC-heildarútgáfuna 1981. Apemantus er „einn af strákunum“, þeir hlæja að öllu sem hann segir en er greinilega ekki tekinn hið minnsta alvarlega. Þetta er prýðileg mynd. Lúkkið er einfalt og fallegt, búningarnir glæsilegir og Jonathan Pryce stórkostlegur í titilhlutverkinu.
Hún leiðir líka í ljós hvað hinir augljósu og – við fyrstu sýn – alvarlegu byggingagallar verksins, sem æpa á mann við lestur, skipta litlu máli þegar á hólminn er komið. Og það þrátt fyrir – eða kannski einmitt vegna þess – að samkvæmt erindisbréfi BBC-heildarútgáfunnar er túlkunarsvigrúm og tækifæri til að berja í bresti nánast ekki neitt. Þannig fáum við alveg streit senuna þar sem Alchibiades reynir að verja dauðadæmdan vin sinn, sem við vitum ekkert um og er ekki persóna í verkinu, og uppsker útlegðardóm. Eins er ekkert gert til að skýra það að öldungar Aþenu leiti til Timons undir lokin til að leiða hersveitir þeirra gegn Alchibiadesi. Þegar við horfum á þetta þá tökum við þessu bara eins og það er. Hvað með það þó við vitum ekki fyrr en í fimmta þætti að Timon eigi sér fortíð sem herforingi? Það skýrir svona í framhjáhlaupi vináttu hans og Alchiabedesar.
Er hann kannski svona Kristján Arason, gamall kappi sem hefur haslað sér völl á nýju sviði fjármálanna en hverfur af því aftur þegar kúlulánið springur framan í hann? Ekki það að ég sé að mæla með að Kristján verði kallaður til til að stýra landsliðinu. Reyndar var Guðmundur G. líka hjá Kaupþingi um tíma, var það ekki?
Þetta er allavega vandræðalaust í verkinu þegar því er einfaldlega slengt fram á sviðið, eða myndbandið. En það má líka setjast niður með textann í hnepptu peysunni með leðurbótum á olnbogunum og rýna í hvernig þræðirnir tveir kallast á. Þá koma upp bæði hliðstæður og andstæður milli Timons og Alchibiadesar.
Hliðstæðan blasir við: Báðir lenda þeir upp á kant við valdamenn Aþenu. Báðir biðja þeim um miskunn, að ströngustu afleiðingar laganna nái ekki fram að ganga. Þeir telja sig hafa unnið fyrir slíkri sérmeðferð – Timon með gjafmildi, Alchibiades með frammistöðu á vígvellinum. Nei, segir tölvan og valdakallarnir. Og þeir yfirgefa borgina í haturshug. Þar skilur svo leiðir: Timon segir sig úr lögum við mannlegt samfélag, Alchibiades leggur það undir sig og býr sig undir að refsa þeim sem gert hafa á hlut hans (og hlut Timons reyndar líka, sem er eitt af „skrítunum“ í leikritinu, hin óskýrðu og vannærðu en greinilega nánu tengsl Timons og Alchibiadesar).
En þeir hafa líka andstæð hlutverk í gangverki leikritsins, eða í stöðunni gagnvart raunveruleikanum. Timon telur sig ósnertanlegan í krafti vináttunnar sem hann hefur nært með gjöfum og velgjörðum en sá óáþreifanlegi varnarmúr mætir harkalegum raunveruleika skuldabréfa og veðbanda. Á hinn bóginn er hernaðarsnilld og trúmennska herflokks Alchibiadesar einmitt hinn harði raunveruleiki sem öldugaráðið mætir þegar það gerir hetjuna útlæga í krafti valds sem er með öllu óáþreifanlegt og stenst enganvegin hið raunverulega vald vopnanna.
Peningar og hermennska eru hin raunverulegu öfl og það kostar að gleyma því. Þetta er ógeðslegur heimur, eins og Timon eyðir öllum síðari hluta verksins í að predika. Það eru sturlaðir textar. Stundum eru bölbænirnar á mörkum hins skiljanlega, öftast aðeins handan við hið hæfilega en ævinlega áhrifaríkir:
O blessed breeding sun, draw from the earth
Rotten humidity; below thy sister’s orb
Infect the air! Twinn’d brothers of one womb,
Whose procreation, residence, and birth,
Scarce is dividant, touch them with several fortunes;
The greater scorns the lesser: not nature,
To whom all sores lay siege, can bear great fortune,
But by contempt of nature.
Raise me this beggar, and deny ‘t that lord;
The senator shall bear contempt hereditary,
The beggar native honour.
It is the pasture lards the rother’s sides,
The want that makes him lean. Who dares, who dares,
In purity of manhood stand upright,
And say ‘This man’s a flatterer?’ if one be,
So are they all; for every grise of fortune
Is smooth’d by that below: the learned pate
Ducks to the golden fool: all is oblique;
There’s nothing level in our cursed natures,
But direct villany. Therefore, be abhorr’d
All feasts, societies, and throngs of men!
His semblable, yea, himself, Timon disdains:
Destruction fang mankind!4.3.1–24
Og svo, þegar hann finnur gull í jörðu við hellinn sinn og það spyrst út, springur ranghverfa gjafmildinnar út. Hann útdeilir gullinu af sama örlætinu og áður, en nú með annað markmið. Hér er hann að styrkja hernað Alchibiadesar og leggja honum lífsreglurnar um leið:
Put up thy gold: go on,–here’s gold,–go on;
Be as a planetary plague, when Jove
Will o’er some high-viced city hang his poison
In the sick air: let not thy sword skip one:
Pity not honour’d age for his white beard;
He is an usurer: strike me the counterfeit matron;
It is her habit only that is honest,
Herself’s a bawd: let not the virgin’s cheek
Make soft thy trenchant sword; for those milk-paps,
That through the window-bars bore at men’s eyes,
Are not within the leaf of pity writ,
But set them down horrible traitors: spare not the babe,
Whose dimpled smiles from fools exhaust their mercy;
Think it a bastard, whom the oracle
Hath doubtfully pronounced thy throat shall cut,
And mince it sans remorse …2.3.121–138
„Kosmísku“ samfélagsharmleikir Shakespeares, Hamlet, King Lear, Macbeth, enda yfirleitt á einhverri óþægilegri blöndu af óvissu og kyrrstöðu. Hetja er fallin, en framtíðin er a.m.k. lítið bjartari en það sem á undan er gengið. Ekkert hefur breyst, en eitthvað hefur glatast. Timon of Athens, í þeirri mynd sem við höfum verkið, er ekki alveg á stalli með þessum verkum og átti kannski aldrei að vera „hreinræktaður“ harmleikur. En þannig er staðan í leikslok. Alhcibiades festir upp nokkra óvini sína, einhverjir maurapúkar fara upp að veggnum í hefndarskyni fyrir meðferðina á eyðsluklónni vini hans. En samfélagið verður áfram á valdi þeirra sem eiga skuldaviðurkenningar sakleysingjanna meðan hafaldan sverfur grafskrift Timons:
Here lies a wretched corse, of wretched soul bereft:
Seek not my name: a plague consume you wicked caitiffs left!
Here lie I, Timon; who, alive, all living men did hate:
Pass by and curse thy fill, but pass and stay not here thy gait.5.4.81–84
Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnveginn í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.