Þýðing: Sveinbjörn Sigurjónsson / Þorvaldur Þorvaldsson

Internationalinn


Fram þjáðir menn í þúsund löndum,
Sem þekkið skortsins glímutök.
Nú bárur frelsis brotna á ströndum,
Boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum.
Bræður fylkjum liði í dag.
Vér bárum fjötra en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

:,: Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd.
Því Internationalinn
mun tengja strönd við strönd:,:

Á hæðum vér ei finnum frelsi,
hjá furstum eða goðaþjóð.
Nei, sameinaðir sundrum helsi
og sigrum því ei skortir móð.
Alls hins stolna aftur vér krefjumst.
Ánauð þolir hugur vor trautt.
Og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt.

:,: Þó að framtíð sé falin…

Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir.
En auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.
Nú er tími til dirfsku og dáða.
Vér dugum, þiggjum ekki af náð.
Látum, bræður, réttlætið því ráða
svo ríkislög vor verði skráð.

:,: Þó að framtíð sé falin…

En auðmennirnir aðeins hafa
það eitt að marki hverja stund.
Allt fémætt taka þeir án tafa
til að drýgja eigið pund.
Þeir hafa farið um með eldi
og eignir gripið höndum tveim.
En þegar hrynur þeirra veldi
þá þýfinu mun skilað heim.

:,: Þó að framtíð sé falin…

Til stríðs þeir okkur vilja egna.
Í ánauð leggja bræðraþjóð.
Við munum herstjóranum hegna.
Hans skal eigið renna blóð.
Innan hersins upp við munum rísa.
Upp skal renna friðartíð.
Og réttlætið mun veginn vísa
og verða tryggt hér ár og síð.

:,: Þó að framtíð sé falin…

Með samstöðu í sveit og bæjum
við sigra munum græðgi og neyð.
Með sigrinum við sáum fræjum
sem að varða nýja leið.
Ránfuglanna ríki nú mun falla.
Á rústum þess við byggjum nýtt.
Vil látum gyllta lúðra gjalla.
Af gleði sólin brosir hlýtt.

:,: Þó að framtíð sé falin…

Sunginn við lag Pierre De Geyter.