Frá árinu 2015 hafa komið út barnabækur eftir Birgittu Haukdal. Árið 2015 komu út bækurnar Lára fer í flugvél og Lára lærir að hjóla. 2016 voru það Kósýkvöld með Láru og Lára fer á skíði. Árið 2017 Lára fer í sund og Jól með Láru. Auk þess komu út bendibækurnar Ljónsi og Lára sama ár. Í ár eru það Lára fer til læknis og Afmæli hjá Láru (2018). Vaka-Helgafell gefur bækurnar út. Þær eru 41 síða. Anahit Aleqsanian sér um teikningar sem þekja hverja síðu. Markhópurinn er börn á aldrinum núll til fimm ára, börn á leikskólaaldri. Hér verða nýjustu bækurnar skoðaðar aðeins.
Hverjum er þessi texti ætlaður?
Nú má augljóst þykja að markhópur téðra bóka mun ekki ramba á þessa umfjöllun. Ef svo fer þá er næsta víst að hann hafi lítinn áhuga á enda er hér fátt um ævintýrin og engri litadýrð fyrir að fara. Texti þessi sér ekki tröllin í hrauninu, álfana í blómunum eða skrímslin undir rúmunum. Hann skynjar ekki gleðina í hávaðanum og fíflalátunum, fyrir honum er hávaði bara hávaði og fíflalæti eitthvað óæskilegt, kjánalegt, eitthvað sem er nauðsynlegt að venja sig af. Hann sér ekki möguleikann á handanlífi í Nangijala, né að stúlkubarn geti lyft hesti. Því síður að drengur einn geti varðveitt æsku sína og flogið í Hvergilandi, eða að hægt sé að negla sólina fasta og breyta hjörtum í stein. Hann sér ekki fyrir sér framandi gnægtalönd og alls ekki Strýhærðan Pétur eða hina stórkostlegu óknykktadrengi Max og Moritz. Og hann er alfarið á móti líkamlegum refsingum þótt þær séu bein afleiðing bellibragða og strákapara. Og svo er sannlega, vissulega og klárlega dónaskapur að prumpa!
Textinn hugsar til Hómer Simpson sem segir Bart Simspon minna á sig áður en heimurinn drap anda hans. Also, hér er ekkert fyrir börn að hafa, og varla fyrir barnalega heldur. Þessi texti skynjar enga töfra og eftir dauðann er ekki neitt, nema rotnandi lík sem liggur á kistubotni. Tilveran hefir ekkert æðra markmið og engan annan tilgang en að kaupa sér nýjan sófa og að standa skil á afborgunum lána. Og svo er það auðvitað helvítis verðtryggingin, Bjarni Ben og múslimarnir.
Þessi texti er hugsaður (hættum með þessa fjandans persónugervingu) fyrir foreldra sem eru á höttunum eftir einhverju álitlegu lesefni fyrir ung börn sín. Börn sem vel hugsanlega geta séð ævintýri í gráum hvunndeginum og mikla fyrir sér aðstæður sem fyrir fullorðna eru ómerkilegar hvunndagshræringar. Í þeim fullveðja, mörgum hverjum, hefir sá eiginleiki tapast með hæruskotnara og hrukkudýrslegra útliti (oft af áhyggjum).
Um hvað eru sögurnar?
Lára er ósköp venjuleg stelpa sem finnst gaman að prófa sig áfram og læra eitthvað nýtt. Besti vinur Láru er bangsi sem hún fékk þegar hún var pínulítil. Hann heitir Ljónsi. (bls. 4-5 í báðum bókum)
Innihaldslýsing þessara verka er því að gera fljótafgreidd. Titill þeirra gefur það til kynna. Í Lára fer til læknis verður Lára fyrir hnjaski þegar hún dettur af hjóli sínu. Þarf hún í kjölfarið að fara til læknis þar sem í ljós kemur að „það kom smá sprunga í það [beinið]. (bls. 26) “Í Afmæli hjá Láru heldur Lára upp á afmæli Ljónsa. Ekki er gefið upp hvar sögurnar eiga sér stað né hvenær. Álykta verður þó af teikningunum, hvernig persónur eru klæddar, og þeirri staðreynd að á sunnudögum „eru strákar og stelpur saman á fótboltaæfingu.“ (bls. 6, Lára fer til læknis) að þær eigi sér stað í nútímanum. Þær eiga sér einnig stað í frjálslyndara ríki, öllum líkindum vestrænu. Kannski bara á Íslandi. Sagan er sögð í þriðju persónu út frá Láru. Stelpu sem sker sig ekki úr fjöldanum, ekki hvað hugmyndaflug, útlit eða uppátæki áhrærir. Hún er eins og hvert annað barn nema hvað hún, í verkinu, virðist skapgóð og lítt til þess fallin að baka foreldrum sínum vandræði með erfiðu lundarfari og hátterni. Hún kemur fyrir sjónir eins og útópískt stúlkubarn. Máski birtist einvörðungu sparihliðin á henni sögum.
Hvernig eru sögurnar?
Það er ekki mikill texti á hverri síðu og textinn er einfaldur, blátt áfram og auðskiljanlegur. Myndirnar eru af sama toga. Það er varla hægt að tala um boðskap eða dídaktík á síðum þessara bóka. Það væri nokkuð langsótt að ætla sér að skálda slíkan ásetning upp á verkin.
Stíllinn flatur og ofurjarðbundinn, hversdagslegur og ef ekki væri fyrir litríkar myndir mætti kannski nota orðið grár. Þetta eru fyrst og síðast sögur fyrir börn, lítil börn. Fátt er kræsilegt fyrir fullorðna nema þá auðvitað að þeir geta hugsað til þess að lestur geri börnum gott og dropinn holi steininn og að tilgangurinn helgi meðalið.
Oftlega innihalda barnabækur einhvers konar boðskap. Í þessum Lárubókum má svo sem sjá slíkan en hann er ekki aðalatriðið. Hér er engin undirliggjandi merking né einhvers konar allegoría á ferð, engin dæmisaga. Auðvitað má sjá fyrir sér orsök og afleiðingu þótt ekki sé brýnt fyrir börnunum að þeim beri að hafa varann á, hlusta á foreldra sína og þar fram eftir götunum. Raunar er heimur verkanna í lagi og því að gera vandamálalaus, þetta eru hvunndagsvandamál sem auðvelt er að ráða meinbug á. Fyrir fullorðna það er. Börnin gætu séð það öðruvísi. Engu að síður er allt nokkuð útópískt, engar hættur eða segjum frekar litlar hættur, smá hættur. Allir eru góðir. Teikningarnar eru litríkar, sýna góðlegar persónur, enginn skúrkur kemur fyrir. Augun eru góðleg og stór, persónurnar fagurlega lagaðar. Þær eru og stóreygðar og höfuðstórar fígúrur og minna nokkuð á Bratz dúkkurnar. Höfuðlagið og augnastærðin það er, ekki glyðrulegur klæðnaðurinn. Þær klæðast litríkum (litauðugum) fötum. Sennilega er þetta bezti mögulegi heimurinn.
Fyrir vikið er hætt við að einhverjum kunni að finnast sögurnar full látlausar, leiðinlegar, jarðbundnar, of hættulausar. Heimurinn of heilsteyptur og lyktarlaus (ekkert prump). Dauðhreinsaður. Slíkt er þó auðvitað smekksatriði.
Þetta er ekki nógu gott!
Finna má misræmi á milli texta og mynda á síðu átta í Lára fer til læknis. Þar er sagt að Lára sé í fjólubláu vesti við fótboltaiðkun þegar hún er í rauðu. Atli og Júlía, vinir Láru, eru sögð vera í fjólubláum vestum þegar þau eru í gulum.
Á bls. 11 í Lára fer til læknis. Krakkarnir að hjóla. „Ljónsi fær auðvitað að sitja á dúkkustólnum á hjólinu hennar Láru eða ljónastólnum eins og Lára kallar hann.“ (bls. 10, Lára fer til læknis) Hann er hjálmlaus þar. Á bls. 12 hefir hann ekki heldur hjálm. En á bls 13 hefir hann allt í einu hjálm svo og á bls. 15.
Á bls. 17 eru móðir Láru og Lára á læknabiðstofu og þar „er lítið borð með fjórum stólum.“ Af myndinni að dæma eru þeir einvörðungu þrír.