Sir Thomas More eftir Hans Holbein yngri.

Hönd D

Atburðarás
Skerfarinn í London, Thomas More, getur sér gott orð þegar hann afstýrir allsherjaruppþoti og árásum innfæddra á hverfi innflytjenda og flóttamanna frá meginlandinu. Er aðlaður og gerður að „forsætisráðherra“ Hinriks áttunda fyrir framgönguna. Hann tekur á móti Erasmusi frá Rotterdam með léttu gríni og skemmtir borgarstjóranum í London með uppbyggilegri leiksýningu í kvöldverðarboði. Neitar að skrifa undir óskilgreinda pappíra og er tekinn af lífi.

Sir Thomas More er ekki frábært leikrit, en það er svo sannarlega einstakur gripur. Handrit leikrita frá gullöld breska snemmnútímaleikhússins á sextándu og sautjándu öld, sem ætluð voru til opinberra sýninga, hafa tiltölulega fá varðveist. Hvað þá handrit þar sem fingraför ritskoðunar og kreatív viðbrögð leikhúsmannanna blasa við.

Stóru fréttirnar eru engu að síður – auðvitað – að ein af rithöndunum sem finna má í atlögum að því að gera verkið þóknanlegt yfirvöldum er næstum örugglega okkar manns. Það sést með samanburði við hin fáu sýnishorn önnur sem varðveist hafa: undirskriftir á einum sex plöggum og hugsanlega einhverjum texta þeirra, þó það sé umdeildara en að hann eigi „Hönd D“ í Sir Thomas More.

Á 20. öld hefur syllan sem þetta skrítna leikrit hefur komið sér fyrir á í kanónunni stækkað og er það nú látið fylgja með í flestum heildarútgáfum á Shakespeare sem vilja standa undir því nafni. Það rataði næstum örugglega ekki á svið á tíma Elísabetar eða Jakobs en á 20. öld hefur það gerst nokkrum sinnum, og má segja að uppfærsla Royal Shakespeare Company 2005 marki fulla heimkomu fyrir Sir Thomas More.

Frumhöfundurinn er samt sem áður Anthony nokkur Munday. Verkið sem barst ritskoðara hans hátignar, Edmund Tilney (Túlkaður með tilþrifum af Simon Callow í Shakespeare in Love), var alfarið hans verk. Það var ekki fyrr en Munday, eða leikhússtjórinn hjá The Admiral’s Men, fengu verkið í hausinn, vaðandi í útstrikunarkröfum og breytingartillögum frá Tilney, að fleiri voru kallaðir að borðinu. Reyndar gerðist það ekki fyrr en einhverju síðar, jafnvel nokkrum árum, og allt um þann gang mála og röð atburða löngu horfið í kjalsog tímans.

Auk Shakespeares hafa verið nefndir til þeirrar sögu þrír höfundar sem unnu gjarnan fyrir menn aðmírálsins: Thomas Dekker, Henry Chettle og Thomas Haywood. Ein rithönd enn er á blöðum þeim sem stungið hefur verið inn í handritið með breytingum og viðbótum, en hana hefur ekki tekist að tengja við nafn, auk þess sem óvíst er hvort þar hafi haldið á fjöður leikskáld eða réttur og sléttur skrifari. Til gamans má geta þess að eitt nafnið sem hefur verið nefnt sem hugsanlegur eigandi „handar C“ er Robert Armin, sem á þessum árum var genginn til liðs við Kóngsmennina, leikflokk Shakespeares, sem skopleikari númer eitt.

Anthony Munday er þversagnakenndur og forvitnilegur maður. Hann er ungur í slagtogi við laumukaþólikka í klíkunni í kringum jarlinn af Oxford (sem seinna varð eftirlætistilgáta þeirra sem ekki vilja fallast á að Shakespeare sé höfundur verkanna), fer til Rómar og er eitthvað við enska háskólann sem þar er, athvarf landflótta pápista.

Heimkominn snýr Munday algerlega við blaðinu. Gerist handbendi pyntingameistarans Richard Topcliffe, sem fletti ofan af ófáum jesúítanum, og skrifar and-kaþólska áróðursbæklinga. Því vekur nokkra furðu að Munday skuli hafa skrifað Sir Thomas More, sem stuðaði vægast sagt hina prótestönsku valdsmenn, með því að gera kaþólskan píslarvott að söguhetju.

Hæg voru samt heimatökin: Leikritið er að hluta til byggt á ævisögu/hagíógrafíu um More eftir Nicholas Harpsfield. Sú bók var (eðlilega) ekki prentuð í hinu prótestanska Englandi, en gekk manna á milli í handriti innan samfélags laumukaþólskra. Leiða má líkum að því að Munday hafi sem aðstoðarmaður Topcliffes verið í kjöraðstöðu til að komast yfir eintak í einhverri rassíunni.

Svolítið eins og ef listfengur SS-maður hafi verið meðal þeirra sem fundu fylgsni Frank-fjölskyldunnar í Amsterdam, og seinna skrifað leikrit upp úr dagbókinni hennar Önnu.

Sagt er að á gamals aldri hafi Munday ekki getað horft á lambalæri á matarborði, þau hafi triggerað hjá honum minningar um limlestingar við aftökur manna sem hann hafði átt þátt í að snuðra uppi og knýja til játninga. Eiginlega væri ég meira til í leikrit um Munday sjálfan en þetta rýra og tætingslega leikrit hans um verndardýrling stjórnmálamanna.

Því Sir Thomas More er nú varla fugl eða fiskur. Framvindan er algerlega episódísk, ekkert leiðir af öðru. Svona leikrit eru skrifuð um Sæmund fróða og Emil í Kattholti. Verst er þó að það sem hefur skapað More sess í sögunni, málið sem málið snýst um, það sem kostar hann að lokum höfuðið, er ekki með í þessu verki. Hér er enginn Henry VIII, engin Katrín af Aragon eða Ann Boleyn. Engar illdeilur við páfann. Thomas Cromwell, góðkunningi okkar úr Wolf Hall, er ekki persóna í Sir Thomas More. Aldrei kemur fram hvað það er sem More neitar að skrifa undir. 

Sem drama er Sir Thomas More eiginlega ónýtt verk. En samt. Hér er smáskammtur af Shakespeare sem ekki er búið að japla úr allt bragð, og kannski fyrir vikið ómaksins vert að gefa því sviðsséns. Gregory Doran, leikhússtjóri Royal Shakespeare Company og áhugamaður um verkið, hefur víst velt upp hugmyndum um einhverskonar sambræðslu Sir Thomas More og Henry VIII – All is True, sem Shakespeare skrifaði með John Fletcher undir lok ferils síns.

Það hljómar eins og plan. Ég á reyndar alveg eftir að lesa Henry VIII, en Doran er með klárustu köllum í bransanum og alveg treystandi til að fá góðar hugmyndir.

Búturinn hans Shakespeares er fínn. Þar stillir More til friðar þegar innbornir Lundúnabúar hyggjast leggja eld að hverfi flóttamanna frá Langbarða- og Niðurlöndum, sem eru orðnir full-fyrirferðarmiklir í athafnalífi borgarinnar, fingralangir og jafnvel djarftækir til kvenna. Ein ræða hefur komist á nokkuð flug undanfarið, enda framkoma við ókunnuga eitt af heitustu eilífðarmálum samtímans. 

MORE
Grant them removed, and grant that this your noise
Hath chid down all the majesty of England;
Imagine that you see the wretched strangers,
Their babies at their backs and their poor luggage,
Plodding to th’ ports and costs for transportation,
And that you sit as kings in your desires,
Authority quite silent by your brawl,
And you in ruff of your opinions clothed;
What had you got? I’ll tell you: you had taught
How insolence and strong hand should prevail,
How order should be quelled; and by this pattern
Not one of you should live an aged man,
For other ruffians, as their fancies wrought,
With self same hand, self reasons, and self right,
Would shark on you, and men like ravenous fishes
Would feed on one another.

DOLL
Before God, that’s as true as the Gospel.

LINCOLN
Nay, this is a sound fellow, I tell you: let’s mark him.

MORE
Let me set up before your thoughts, good friends,
On supposition; which if you will mark,
You shall perceive how horrible a shape
Your innovation bears: first, tis a sin
Which oft the apostle did forewarn us of,
Urging obedience to authority;
And twere no error, if I told you all,
You were in arms against your God himself.

ALL.
Marry, God forbid that!

MORE.
Nay, certainly you are;
For to the king God hath his office lent
Of dread, of justice, power and command,
Hath bid him rule, and willed you to obey;
And, to add ampler majesty to this,
He hath not only lent the king his figure,
His throne and sword, but given him his own name,
Calls him a god on earth. What do you, then,
Rising gainst him that God himself installs,
But rise against God? what do you to your souls
In doing this? O, desperate as you are,
Wash your foul minds with tears, and those same hands,
That you like rebels lift against the peace,
Lift up for peace, and your unreverent knees,
Make them your feet to kneel to be forgiven!
Tell me but this: what rebel captain,
As mutinies are incident, by his name
Can still the rout? who will obey a traitor?
Or how can well that proclamation sound,
When there is no addition but a rebel
To qualify a rebel? You’ll put down strangers,
Kill them, cut their throats, possess their houses,
And lead the majesty of law in line,
To slip him like a hound. Say now the king
(As he is clement, if th’ offender mourn)
Should so much come to short of your great trespass
As but to banish you, whether would you go?
What country, by the nature of your error,
Should give you harbor? go you to France or Flanders,
To any German province, to Spain or Portugal,
Nay, any where that not adheres to England,—
Why, you must needs be strangers: would you be pleased
To find a nation of such barbarous temper,
That, breaking out in hideous violence,
Would not afford you an abode on earth,
Whet their detested knives against your throats,
Spurn you like dogs, and like as if that God
Owed not nor made not you, nor that the claimants
Were not all appropriate to your comforts,
But chartered unto them, what would you think
To be thus used? this is the strangers case;
And this your mountanish inhumanity.

6.83–156 

Góð ræða. Slappt leikrit. Hér er samt smábútur af framlagi Mundays, svona fyrir siðasakir. Okkar maður á leið á höggstokkinn. 

Well, let’s ascend, a God’s name:
In troth, methinks, your stair is somewhat weak;
I prithee, honest friend, lend me thy hand
To help me up; as for my coming down,
Let me alone, I’ll look to that myself.

17.49–57 

Þetta er alveg nothæfur djókur, og mjög í anda hins léttlynda Mores í leikritinu, sem gengur svo langt í gálgahúmornum að manni ofbýður fyrir hönd ástvina hans og hve léttilega hann afgreiðir sorg þeirra og kvíða. Það sárvantar meiri Shakespeare í þann hluta verksins. Og auðvitað meiri súbstans heilt yfir. 

Sem er næstum sami hluturinn. 

Textinn.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.